07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. landbn. fyrir að hafa tekið upp í brtt. sína ákvæði varðandi það að heimila sölu á jörðinni Granda í Ketildalahreppi. Ég er ekki andvígur því, að ekki sé tekið fram í till., að kaupandinn sé ákveðinn, og mun ég alveg eins geta greitt atkv. með till. eins og hún er á þskj. 393. — Mér þótti vænt um að heyra frá hv. frsm., að Friðgeir Björnsson, að sjálfsögðu fyrir hönd ríkissjóðs, hefur viðurkennt, að ríkissjóður skuldi fráfaranda þessarar jarðar 6.875 kr., því að hann hefur allt annað látið falla í mín eyru sem svar við þeirri kröfu. Þá hefur hann svarað þessu þannig til mín, að svo sé ekki, heldur eigi ríkissjóður vald á því, hvort hann vilji greiða slíka upphæð eða láta viðkomandi eiganda rífa hús sitt. En nú skilst mér hjá hv. frsm., að hann fullyrði, að þetta sé kvöð, sem ríkissjóður verði að greiða, og mun ég þá að sjálfsögðu, í krafti þessara ummæla frá hv. landbn., gera kröfu um það, að þessum mjög fátæka manni sé greidd þessi upphæð, en þessari upphæð hefur verið haldið fyrir honum of lengi, úr því að þetta er nú raunverulega niðurstaðan.

Úr því að ég stóð upp, vildi ég almennt ræða brtt. og einmitt um það atriði, sem fyrr og síðar hefur verið mikið ágreiningsatriði í sambandi við sölu jarða almennt, og þá einnig það, sem sett er hér að skilyrði í 1. tölul. gr.: „enda verði jörðin gerð að ættaróðali samkvæmt lögum nr. 116 1943.“ Að vísu hefur hv. flm. viðurkennt, að hann vilji fallast á þetta skilyrði, að það sé sett hér. Og mér persónulega er nákvæmlega sama um það í þessu sérstaka tilfelli. Það snertir ekki mig eða mína umbjóðendur. En ég get ekki látið vera að minnast á þær upplýsingar, sem komið hafa fram í sambandi við þetta mál. Hv. frsm. upplýsti fyrst og fremst, að sumir menn vilji heldur búa á jörð, sem þeir eiga, heldur en jörð, sem þeir hafa í erfðaábúð. Það sagði hann í sambandi við till. um sölu Fagraness og Granda, og þar hitti hann naglann á höfuðið. Hann benti á ákaflega skýrt dæmi og sýndi fram á, að eitt sinn hefði verið heimiluð sala á átta jörðum, sem óskað hefði verið eftir kaupum á frá ríkissjóði og samþ. hefði verið hér með l., að mætti selja, en með því skilyrði, sem hann minntist á, að þær væru gerðar að ættaróðulum. En um fjórar þeirra jarða, sem eru í Snæfellsnessýslunni, á Skógarströnd, er það svo, að ekki hefur heyrzt um sölu á þeim enn þá, og tvær þeirra eru komnar í eyði, af því að þetta skilyrði fylgdi um söluna. M. ö. o., menn vildu kaupa jarðirnar og nytja þær, en vildu svo heldur fara frá þeim, en að kaupa þær, þegar til kom, af því að þetta skilyrði fylgdi frá ríkissjóði. Mér finnst þetta vera svo skýrt dæmi um það, að slíkt skilyrði eigi ekki að setja framvegis, þegar jarðir ríkissjóðs eru seldar, að menn ættu að láta sér þetta að kenningu verða. Mér finnst þarna um svo stórt prinsipatriði að ræða og að reynslan sýni, að svona á ekki að setja í lög, þegar það er alveg vitað og viðurkennt af þeim mönnum, sem mest hafa haldið fram, að þess háttar ákvæði ættu að vera, að þessi ákvæði verða til þess, að viðkomandi jarðir verða alveg verðlausar. Ég mun því, þó að mér komi ekki þetta sérstaka tilfelli við, sem hér liggur fyrir frv. um, leyfa mér að bera fram brtt. við brtt. á þskj. 393, um að orðin: „Enda verði jörðin gerð að ættaróðali samkvæmt lögum nr. 116 1943“ í 1. tölul. brtt. falli niður. Og vil ég vænta þess, að hv. frsm. n. verði mér nú sammála í eitt skipti, eftir að hann hefur haldið ræðu hér og skýrt bent á, að svona ákvæði, sem ég vil hér fella niður úr brtt., hafi orðið til þess í sambandi við tvær jarðir á Skógarströndinni, sem menn hafa ólmir viljað eignast, að þær hafa farið í eyði, en væru kannske orðnar að höfuðbólum, ef hæstv. Alþ. hefði ekki orðið þessi skyssa á að láta þetta ákvæði fylgja um, að þær yrðu gerðar að ættaróðulum. Og ég veit, að hv. frsm. heldur svo mikið taum sveitanna og þeirra, sem þar búa, að hann vill ekki stuðla að því með ranglátum lögum að hrekja menn burt af jörðum eða úr sveitinni. Þennan stuðning hv. frsm. vonast ég að fá, af því sem hann tók fram í sinni ræðu, og vænti þess, að hann fylgi minni ágætu till., sem ég leyfi mér að bera hér fram, eins og ég líka býst við, að hv. landbn. öll geri, sem hlýtur að hafa mjög djúpan skilning á öllum þessum málum, og vona ég því, að hv. landbn. verði óskipt með þessari ágætu brtt. minni, eftir upplýsingar þær, sem fram hafa komið frá hv. frsm. n. Og þetta gæti kannske orðið byrjun á því að losa þessa hlekki af bændum, sem eru allt of fast reyrðir í sambandi við jarðir í sveitum landsins, og sumir hverjir ágætir framsóknarmenn losa nú alveg um sjálfkrafa fyrir utan þingsalina, án þess að spyrja þm. um, þegar þeir þurfa á að halda, eins og Kaldaðarnes (BSt: Er það ekki ættaróðal?).

Þá spurði hv. þm. N-M., frsm. n., um það, hvaða skoðun þm. hefðu um það, hvort selja mætti kristfjárjarðir á sama hátt og kirkjujarðir. Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði í sambandi við Geitagerði, og ég tel Alþ. hafa enga heimild til þess að ráðstafa þeirri jörð. — Mér skildist, að presturinn á Valþjófsstað ætti að hafa afgjald af einni jörð alveg sem þóknun fyrir að sjá um ráðstöfun á ábúð og afgjaldi af tveimur jörðum. Þetta eru náttúrlega hagfelld viðskipti fyrir þann mann, að fá svo gott sem eina jörð fyrir að byggja tvær. Mér skilst, að þetta sé staðreynd og að afgjaldið, sem presturinn á að hafa svo mikið sem borgun fyrir að ráðstafa, eigi að renna til þess að halda uppi þyngsta ómaga hreppsins. Hvernig gæti þá ríkissjóður leyft sér að taka af prestinum þessar aukatekjur, án þess að taka að sér þessa ráðstöfun á þessum tveimur jörðum? Því að mér skilst, að ríkissjóður ætti að gera það eftir brtt. Og því síður gæti ríkissjóður gert það án þess að leigja þessar tvær jarðir út fyrir svo mikið fé, að það nægði til þess að framfleyta þyngsta ómaganum í viðkomandi hreppi, sem gæti kannske kostað 5 til 10 þús. kr. á ári. — Ég er sammála hv. flm. þessa frv., 1. þm. Eyf., um, að ríkissjóði hvorki komi við þessi jörð, Geitagerði, né hafi heldur neina heimild til að selja þessa jörð né aðrar jarðir, sem líkt stendur á um. Ég vænti, að hv. landbn. leggi til, að það opinbera komist á rétta braut á þessu sviði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta skemmtilega mál meira, en vildi styðja þá till. að fresta þessari umr. og taka þetta til athugunar. Því að ef hv. n. sér ástæðu til að breyta brtt. á þskj. 393, þá finnst mér, að það verði að vera gert áður en atkvgr. fari fram um málið við þessa umr.