07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég get ekki verið að gera hv. þm. Barð. það til minnkunar að fara að taka hann í tíma til að kenna honum, en það væri víst ekki vanþörf í þessu efni. Hv. þm. ruglar alveg saman óðalsrétti og erfðaábúð. Þegar um óðalsrétt er að ræða, á ábúandi sjálfur jörðina og hún gengur að erfðum til niðja hans og hana má ekki selja. En þegar um erfðaábúð er að ræða, á ríkið eða opinberir sjóðir jörðina, þó að notkunarrétturinn gangi að erfðum á sama hátt og á óðalsjörðum. En það var ekki út af þessu, sem ég stóð á fætur, heldur hinu, að hv. flm. heyrði ekki ræðu mína, en ég var búinn að bjóða honum á fund í n., en hann virðist ekki ætla að þýðast það, þar sem hann er búinn að tilkynna, að hann ætli að flytja brtt. við till. n. En ég sagði það um Fagranes, að sjá yrði um, að væntanlegur eigandi þess græddi ekki á kröfu þeirri, sem jörðin á, á hendur Brunabótafélagi Íslands. En ég býð hv. þm. samt sem áður að mæta á fundi hjá n. Þá skal ég upplýsa það, að ekkert hefur verið greitt vegna brunans í Fagranesi, hvað sem hægt verður að gera í því efni. En ég er hræddur um, að ekki náist samkomulag um sölu á Stærra-Árskógi og Syðri-Bakka.