08.05.1950
Neðri deild: 97. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Mál þetta er komið til þessarar hv. d. frá hv. Ed. Í frv. er gert ráð fyrir að seija 3 jarðir, sem eru í opinberri eigu, þjóðjörðina Bakka í Svarfaðardal, Fagranes í Öxnadal og Granda í Ketildalahreppí. Til n. bárust beiðnir um sölu á mjög mörgum fleiri þjóðjörðum, en n. féllst að lokum á það, að heimilað yrði að selja þær jarðir, sem hv. Ed. hefur lagt til að seldar yrðu, og með þeim skilyrðum, sem hv. Ed. hefur fram tekið, en með þeirri breyt. þó, að þjóðjörðin Bakki í Svarfaðardal verði einnig seld fyrir það verð, sem ákveðið er af dómkvöddum mönnum, á sama hátt og hinar jarðirnar tvær, sem frv. fjallar um. Ástæðan fyrir því, að n. hefur viljað gera þetta að skilyrði, er hið mikla ósamræmi, sem nú er orðið á fasteignamati jarða og annarra fasteigna borið saman við annað verðlag í landinu. Þó meiri hl. n. sé á því, að rétt sé að selja ábúendum þessar jarðeignir, með þeim skilyrðum, sem nú gilda um þær almennt, þeim, að þær verði gerðar að ættaróðulum, þá telur n. varhugavert að selja jarðeignir ríkisins í stórum mæli, á meðan fasteignamatið er jafnfjarri raunverulegu verðgildi jarða og það er nú. N. hefur gengið út frá, að þess yrði ekki langt að bíða, að einhver betri og réttlátari skipun verði komið á fasteignamat í landinu almennt, og telur rétt að bíða með að selja jarðir eftir fasteignamatsverði, þangað til þeirri skipun er komið á, og þess vegna eru ekki gerðar till. um sölur fleiri jarða en þessara þriggja, sem hv. Ed. hefur lagt til, að seldar yrðu, og hefur landbn. lagt til, að verð þeirra allra skuli ákveðið af dómkvöddum mönnum.