09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér skildist, að hv. þm. Snæf. (SÁ) sé áhugamál, að hv. d. samþykki þessa brtt. hans, er hér liggur fyrir. Er sízt að því að finna, því að vegna þess mun hann hafa borið till. fram. En mér finnst, að hv. þdm. eigi rétt á að fá vitneskju um, hvað þeir eru að greiða atkv. um. Hv. þm. hefur litlar upplýsingar gefið varðandi þessar jarðir. Vil ég nú skjóta því til hv. þdm. og hæstv. forseta, að mér skilst, þar eð málið er nú í seinni d. og þetta er 3. umr. þess, að nægur tími muni vinnast til að fá málið upplýst. Vil ég skjóta því til þingmanna, hvort eigi sé hyggilegt að fresta meðferð málsins nú, svo að landbn. og öðrum hv. þm. gefist betri kostur á að vita, hvernig því sé háttað með þessar jarðeignir. Eigi ég að greiða atkv. á þessari stundu um málið, veit ég ekki hvorum megin ég ætti að falla, mundi helzt láta málið afskiptalaust, og þó er það jafnan ekki æskilegasta afstaðan í máli.