15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

170. mál, lántaka hjá efnahagssamvinnustofnuninni í Washington

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og segir í aths. við frv., er framlag efnahagssamvinnustofnunarinnar fyrir tímabilið 1. júlí 1949 til 30. júní 1950 7 millj. dollara. Af þessu fé eru 2 millj. veittar sem lán, en afgangurinn væntanlega óafturkræft framlag. Heimild þ. þarf til að stj. geti tekið við því fé, sem á boðstólum er, og er farið fram á í frv., að hún verði veitt. Ég skal geta þess, að stj. hugsar sér, eins og fram kemur í grg., að féð verði veitt til Sogs- og Laxárvirkjananna til kaupa á vélakosti, og er svo ráð fyrir gert, að lánin verði veitt með sömu kjörum og ríkið nýtur hjá efnahagssamvinnustofnuninni. Annað frv. er flutt á þskj. 758, þar sem nánar er rætt um þetta. Mun ég gera grein fyrir því, en læt þetta nægja um þetta frv.