27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held það sé mjög vafasöm aðferð að fara að bæta gjaldi ofan á þau gjöld, sem þegar er búið að bæta á benzín. Það er ekki hægt að halda áfram í það endalausa, eftir benzínhækkunina í fyrra og eftir tvennar gengislækkanir, að fara nú að bæta verðjöfnunargjaldi þar ofan á. Og þeir menn og flokkar, sem hafa hlaðið þeim gjöldum á alþýðu manna, ekki sízt í kaupstöðum, og samtímis eru að svipta hana atvinnu, verða að gera sér ljóst, að það er að koma að takmörkum þess, sem hún getur borið. Ég efast ekki um, að rétt sé, að benzínverðið sé of hátt og sérstaklega tilfinnanlega hátt fyrir bændur á afskekktum stöðum landsins. Hver er aðferðin til þess að berjast á móti því, að þessir menn verði að borga svona hátt verð fyrir benzín? Er aðferðin sú að hækka t. d. benzínið við vörubifreiðastjóra hér í kaupstöðum landsins? Sumum mun ef til vill þykja það hlægileg aðferð, en það er önnur aðferð til, sem er réttlátari. Hún er sú að lækka verðið við olíuhringana, og ég veit ekki betur en til sé vald í þessu landi, sem heitir verðlagseftirlit, og það eiga að vera möguleikar á því, að slíkt verðlagseftirlit, ef það er ekki í höndum olíuhringanna sjálfra, eigi að geta lækkað benzínið frá því, sem nú er. Ég get ekki betur séð, en ef bændastétt landsins með þeim fulltrúum, sem hún hefur kosið sér úr Framsfl. og Sjálfstfl., lætur embættismenn þessara flokka halda almennilega á málum hér í Rvík gagnvart olíuhringunum, þá eigi að vera hægt að lækka verðið á benzínsölustöðum úti um land, án þess að hækka það hér í Reykjavík og öðrum kaupstöðum. Það getur ekki gengið, að í sífellu sé látið undan hinum voldugu auðhringum á kostnað alþýðunnar hér í kaupstöðunum. Við höfum dæmi um það, að það er vel hægt að berjast á móti háu benzínverði hjá þessum hringum og skikka þá til að lækka það. Spurningin er, hvort viðkomandi yfirvöld landsins vilja fara þá leið, og mér finnst anzi hart, ef þannig er frá málum gengið á undanförnum tíma við benzín- og olíuinnflytjendur, með þeim miklu fríðindum, sem þessum hringum hafa verið veitt með því að leyfa þeim að koma upp benzínstöðvum úti um allt land, sem allt kemur til með að þýða gífurlega fjárfestingu, sem íslenzkir neytendur verða að borga —, þá finnst mér lélega á málum haldið, ef ekki er hægt að knýja benzínverðið niður í sveitunum í stað þess að hækka það í bæjunum. Ég er þess vegna á þeirri skoðun, að við eigum ekki að samþ. svona verðjöfnunargjald, heldur eigum við að veita bændastéttinni og þeim öðrum, sem í afskekktum sveitum búa, þannig stuðning, að knýja niður verðið á kostnað olíuhringanna, þannig að þeir geti búið við betri kjör, en nú. Ég efast ekki um, að þetta sé hægt, svo framarlega sem vilji er fyrir hendi til þess hjá þeim aðilum, sem þessum málum stjórna.