15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

6. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Mál þetta hefur legið nokkuð lengi í deiglunni hjá hv. iðnn., eins og fleiri mál. Það verður um það engin framsaga beinlínis flutt af hálfu meiri hl. n. En við tveir nm., sem á sínum tíma stóðum að athugun á frv., höfum borið fram hér nokkrar brtt. við frv. Þar með er ekki tæmt allt, sem við óskuðum að breyta í frv. En í þessum brtt. eru allar veigamestu breyt., sem við óskuðum að gera og við setjum fram sem skilyrði fyrir því að fylgja frv. áfram. — 1. brtt. er um, að á eftir 3. tölul. í 1. gr. komi nýr tölul., sem hljóði svo: „allur almennur búrekstur í sveitum.“ Í 1. gr. frv. segir svo: „Lög þessi ná til sérhverrar starfrækslu, þar sem einn verkamaður eða fleiri vinna, eða notuð er orka, sem er eitt hestafl eða meira“ o. s. frv. Og með þessu ákvæði ná þessi lög til hér um bil allra sveitabæja á Íslandi. Og sé ég ekki, hvernig ætti að framkvæma svo umfangsmikla löggjöf í þessu efni. Það er ofætlun viðkomandi aðilum, sem framkvæma ættu þessi lög, að fylgjast með á svo að segja hverjum sveitabæ eins og þyrfti til að framkvæma þessi lög. Þess vegna er lagt til, að 4. tölul. þessarar gr. verði settur inn, á þann veg sem ég greindi. — 2. brtt. er við 3. gr. frv., um, að síðasti málsl. gr. falli burt. En hann er svona: „Eigandi farandvélar skal tilkynna öryggiseftirlitinu, hvar vélin er í notkun á hverjum tíma.“ Þetta teljum við útilokað að hægt sé að framkvæma. Farandvélar, svo sem vélar ræktunarsambanda og við vegagerðir, eru á svo miklu ferðalagi, að það er útilokað að tilkynna, hvar sem slík vél er á landinu, hvenær hún er hreyfð frá einum stað til annars, því að þær breytingar á verustað vélarinnar í hverju tilfelli verða bæði á nótt og degi og stundum oft á sólarhring. Það er því útilokað, að hægt sé að tilkynna það til Reykjavíkur í hvert skipti, þegar slík vél færir sig úr stað. — 3. brtt. er við 9. gr., um, að síðasti málsl. gr. falli burt, sem er um það, að vinnuveitandi sé skyldur að gefa verkamönnum frí frá störfum, án skerðingar á kaupi, til þess að læknisskoðun geti farið fram. Við teljum, að viðkomandi slíkri læknisskoðun, sem fara á fram samkv. l., sé ósanngjarnt að leggja þá kvöð á vinnuveitendur, að verkamenn geti vegna þeirrar skoðunar farið úr vinnu til þess að láta skoða sig, því að það hagar víða svo til í verksmiðjum og á vinnustöðum, að einn maður má ekki fatlast frá vinnunni, ef ekki á að koma fram af því meiri eða minni truflun á allri vinnunni, sem þar fer fram. Það er því óviðhlítandi, að menn geti farið úr vinnunni, einn þennan daginn og annar hinn daginn og svo koll af kolli, til þess að láta skoða sig, á kostnað vinnuveitandans, með allri þeirri truflun, sem af því getur leitt.

Þá eru tvær brtt. við 11. gr. Þar stendur svo nú:

„Sérhver, sem ætlar að reisa eða starfrækja verksmiðju eða verkstæði eða breyta eldra fyrirtæki, skal leita umsagnar öryggismálastjóra um, hvort hið fyrirhugaða skipulag sé í samræmi við lög þessi eða reglugerðir settar samkvæmt þeim. Í því skyni skal hann láta í té sundurliðaða greinargerð með nægilegum uppdráttum yfir fyrirkomulag véla og húsakynna og öðrum upplýsingum, er máli kunna að skipta, allt eftir því, sem öryggismálastjóri kann að krefjast.“

Varðandi mörg fyrirtæki úti á landi liggja ekki fyrir teikningar, sem hægt er að senda. Ef gera á breyt., verður því samkvæmt frv., eins og það er nú, að afla manna til þess að gera teikningar og uppdrætti, áður en umsókn um leyfi er send. Þó að viðurkennt sé, að þetta sé nauðsynlegt, þegar um stórar verksmiðjur er að ræða, þá er þetta óþarft, þegar smáfyrirtæki eiga í hlut, og ósanngjarnt að leggja á þau þennan kostnað. Við viljum því, að tekið sé fram í reglugerð, hvaða stærð verksmiðja og verkstæða falli undir ákvæði þessarar gr., svo að stærstu og veigamestu fyrirtækin verði greind frá þeim minni.

Þá eru nokkrar breyt. við 12. gr. — Fyrst er brtt. við 6. tölul., að síðari efnismálsl. falli burt, en hann er þannig: „Hreingerningu skal lokið a. m. k. 1/4 klst. áður en vinna hefst.“ Nú er mér tjáð, að víða sé svo, að hreingerning verði að fara fram á öllum tímum vinnudagsins, eftir því, hvernig vinnunni er háttað, og hreingerningu sé því haldið áfram meðan á vinnu stendur. Þetta er ekki stór breyt., en við teljum þó rétt, að hún sé gerð. — Þá er brtt. við 9. tölul., um, að annar efnismálsl. orðist svo: „Skal handlaugum haldið tilhlýðilega hreinum.“ Þetta er aðeins lagfæring á orðalagi. Nú stendur: „Á sérhverjum vinnustað skulu vera nægilega margar handlaugar eða hentugur útbúnaður með sápu eða öðru þvottaefni fyrir verkamenn til að þrífa sig. Skal þeim haldið tilhlýðilega hreinum.“ Það er eins og það væru verkamennirnir, sem halda skal tilhlýðilega hreinum, en það er víst ekki meiningin., Þeir halda sér hreinum sjálfir. — Þá leggjum við til, að annar efnismálsl. 11. tölul. falli burt. Þar stendur svo: „Sé af heilbrigðisástæðum nauðsynlegt að nota sérstök vinnuföt, má krefjast þess, að vinnuveitandinn láti þau í té og annist hreinsun þeirra.“ Við teljum ekki sanngjarnt, að vinnuveitandinn skaffi verkamönnum föt, og viljum við fella þetta burt. — Þá er það 13. tölul. Þar er sagt, að hæfilega mörg vatnssalerni skuli vera til afnota fyrir verkamenn. Ég veit, að þetta verður gert þar, sem hægt er, en það er víða svo, t. d. við sláturhúsvinnu, þar sem unnið er aðeins nokkurn tíma, að ekki er aðstaða til að hafa vatnsklósett og verður því að notast við klósett án vatns, sem reynt er að hafa eins þrifaleg og mögulegt er. Ég tel því ekki rétt að leggja þessa skyldu á þar, sem óhagstætt er að hafa vatnsklósett, en vitanlega ber að nota þau, ef tök eru á því.

Þá er 6. brtt. við 2. málsl. 29. gr., að hann orðist svo: „öryggiseftirlitið skal láta framkvæma rannsókn á orsökum slyssins.“ Í gr., eins og hún er nú, segir, að öryggiseftirlitið skuli krefjast rannsóknar. Við teljum hitt réttara.

Sem sagt, þetta eru þær brtt., sem við flytjum. Þær eru flestar veigalitlar, nema tvær eða þrjár þeirra, sem eru veigamiklar, en þær athugasemdir, sem við hefðum óskað að gera við frv., eru þó hvergi tæmdar með þessum breyt., og stafar það af því, hvernig hátta varð vinnubrögðum, til þess að málið gæti komið fyrir hv. d.