21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

37. mál, sveitarstjórar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð vegna ræðu hv. þm. V-Húnv. (SkG), þar sem ég á sæti í n.

Hv. þm. spurði, hví þessi heimildarl. væru bara látin ná til hreppa, þar sem 500 íbúar eða fleiri búa í kauptúni, en eigi allra. Þáltill. sú, sem er tilefni þessa frv., var samþ. á Alþ. þ. 25. febr. 1949 og hljóðar á þessa leið: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka til athugunar, hvernig stjórn hinna stærri kauptúna verði bezt og haganlegast komið fyrir, og að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar um það efni fyrir næsta Alþingi.“ Í till. var rætt um það vandamál, hvernig ætti að haga stjórn hinna stærri kauptúna. Eðlilegt var, að þáltill. væri á þessa leið, því að það er fyrst og fremst á þessum stöðum, sem um vandkvæði hefur verið að ræða í stjórn hreppsmálanna. Þéttbýlið skapar ýmis vandamál, svo að störf oddvitans verða þar vandasamari, en í dreifbýli. Sú staðreynd er tilefni þess, að Alþ. hefur samþ. áðurgreinda þáltill.

Hv. þm. sagði, að aðrar reglur ættu að gilda um ráðningu framkvæmdastjóra í þessum sveitarfélögum, en í öðrum bæjunum. Það er rétt. Það er nýmæli í frv., að hér er stungið upp á sérstakri tilhögun á stjórn hreppa, sem hafa yfir 500 íbúa í kauptúni. Tilætlunin er að koma framkvæmdastjórn hreppsfélaganna á öruggari grundvöll, en verið hefur í kaupstöðunum. Er framkvæmdastjórn kaupstaðanna engan veginn eins góð og örugg og æskilegt væri. Það þarf að koma meiri festu í framkvæmdastjórn sveitarfélaganna, en nú á sér stað. Er óhentugt, að jafntíð framkvæmdastjóraskipti verði og nú á sér stað, þegar bæjarstjórarnir eru ráðnir út frá stjórnmálasjónarmiðum af meiri hluta bæjarstjórna og skipti verða ævinlega, þegar breyt. verður á honum. Bæjarstjórastörfin eru að svo miklu leyti hrein framkvæmdastjórnarstörf, að nauðsynlegt er, að sami maður fari með þau um lengri tíma. Þetta mál var rætt í n., þótt hún geri engar till. um breyt. á sveitarstjórnarl. í þessu efni.

Þá gát hv. þm. 7. brtt. n. Kvað hann hina nýju gr. ekkert erindi eiga í frv. Það kann að vera, að óþarfi sé að setja um þetta lagafyrirmæli. En það er hreinn misskilningur, að óeðlilegt sé, að þessi regla verði tekin upp. Mér skildist, að hann teldi hér hróflað við þeirri skipan, sem verið hefur á ráðningu hreppstjóra. En við athugun sést, að svo er ekki, því að hreppsnefndum er í lófa lagið að benda á sveitarstjóra sem einn af hinum þrem mönnum. En ég tel æskilegt, að brtt. þessi verði samþ., því að með því móti væri girt fyrir þann misskilning, að sveitarstjóri geti ekki verið hreppstjóri. Það má auðvitað benda á sveitarstjóra. Og það er heimilt að ráða hann, ef samkomulag verður um það á milli sýslunefndar og sýslumanns.