21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

37. mál, sveitarstjórar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Út af þessum orðum vil ég segja, að sú umhyggja, sem hv. þm. V-Húnv. vill sýna hreppsn. með brtt. sinni. er ástæðulaus. Þetta eru heimildarlög, sem hreppsn. ráða, hvort þær nota sér eða ekki. Vilji sveitarstjórnirnar ekki ráða sveitarstjóra sem fastan framkvæmdastjóra fyrir mörg tímabil, þá nota þær heimildina ekki, en ef þær nota hana, þá verða þær að gera sér ljóst, að þær eru að taka upp það kerfi, sem hér er lagt til að taka upp, þ. e. að þessi starfsmaður sé fastráðinn til langs tíma.

Þá misskilur hv. þm. gildi niðurlagsákvæða 3. gr., einkum um uppsagnarfrestinn. Þar er verið að tiltaka, með hvaða fresti skuli segja þessum starfsmanni upp, ef til slíks kemur. Í 8. gr. segir, að víkja megi sveitarráðsmanni frá starfi, ef hann gerir sig sekan um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfa sínum eða skeytir ekki áminningu sveitarstjórnar, og það er í þeim tilfellum, sem uppsagnarfrestur er 6 mánuðir. Ég satt að segja furða mig á, að slíkar aths. skuli koma frá jafnþingvönum manni og hér er um að ræða.