25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

18. mál, hvíldartími háseta á togurum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég býst við, að afdrif þessa frv., sem hér liggur fyrir, verði mjög mikill prófsteinn á Alþingi. Það er liðið 21 ár síðan togaravökul. var síðast breytt. 1921 og 1928 voru gerðar þær lagabreyt., sem ákváðu fyrst 6 tíma og svo 8 tíma hvíld á sólarhring á togurunum. Á þessum 20 árum hefur margt breytzt hér hjá okkur á Íslandi. Þegar þessi l. voru upphaflega sett, voru verkalýðssamtökin veik, og Alþ. sýndi skilning og velvilja gagnvart þeim með því að setja þessa verndarlöggjöf. Síðan hefur ástandið breytzt þannig, að verkalýðssamtökin eru sterk, en Alþ. hefur á síðustu 10 árum hvað eftir annað sýnt sig í því að grípa inn í gang þjóðfélagsmálanna til þess að rýra kjör verkalýðsins með löggjöf. Það er leið mynd, sem hefur komið fram, af styrkleikahlutföllunum á Alþ., þegar þessi þróun er athuguð og borin saman við það, sem gerðist á árabilinu 1921 til 1928. Það voru eftirtektarverðar upplýsingar, sem hv. 6. þm. Reykv. gaf hér áðan um það, að kyndarar á togurum, sem hafa frjálsa samninga, skuli hafa 8 tíma vinnudag á sama tíma og hásetar, sem fyrst og fremst hafa treyst á Alþ., búa við 16 tíma vinnudag, ekki sízt með tilliti til þess, að störf kyndara á nýjustu togurunum eru vafalaust miklu auðveldari, en hásetastörfin á sömu skipum, en hásetarnir hafa tvöfalt lengri vinnutíma. Ég býst við, að þetta nægi til þess að sýna hv. þm., hve sanngjarnar kröfur þessar eru, sem gerðar eru til þeirra af hálfu togarahásetanna, sem sé, að Alþ. skammti þeim ekki miklu lakari rétt en þann, sem aðrir togarasjómenn hafa fengið með frjálsum samningum við atvinnurekendur. Það má vafalaust benda á það, eins og hæstv. forsrh. gerði, að auðvitað hafa sjómannasamtökin haft vald til þess að stytta vinnutímann á togurunum með samningum. Þau hefðu vafalaust getað gert það, og hvað því veldur, skal ég ekki fara að ræða hér. En hitt er gefið, að fyrst l. eru til um þetta, þá yrði vafalaust af hálfu togaraeigenda vísað á Alþ., að því þætti ekki, fyrst það hefði sett svona lágmark, að sinu leyti rétt að tryggja togarasjómönnum lengri hvíldartíma, þannig að Alþ. væri í raun og veru að leggjast á sveif með togaraeigendum með því að ganga ekki inn á að tryggja togarahásetum lengri hvíldartíma. Ef til vill minnast menn þess, að ein af þeim löggjöfum, sem merkust er á þessum áratug, var sett á mjög eftirtektarverðan hátt. Það voru l. um orlof. Sumarið 1942 hafði Dagsbrún samið um, að frv., sem fyrir Alþ. hafði legið um orlofslöggjöf, skyldi öðlast gildi sem samningur milli atvinnurekenda og verkamanna, hvort sem slíkt frv. næði samþykki næsta Alþ. eða ekki. Það var m. ö. o. knúið fram í samningum um kaupgjald, að ákveðin réttindi, orlofsl., skyldu öðlast gildi sem samningur milli atvinnurekenda og verkamanna. Alþ. samþykkti svo orlofsl. nokkrum mánuðum seinna og gerði þau þar með gildandi fyrir alla, sem undir þau l. heyra í þessu landi. Alþ. tók tillit til þess styrkleika, sem þessi verkalýðsfélög, sem þarna höfðu forustuna, höfðu sýnt, og gerði að l. þann samning, sem atvinnurekendur og verkamenn höfðu gert sín á milli. Nú efast ég ekki um, að flestir hv. alþm. muni vera þeirrar skoðunar, að ef sjómannasamtökunum í landinu væri beitt af full-. um krafti í samningum við atvinnurekendur, þá mundu þeir geta knúið fram 12 stunda hvíld á sólarhring. En það er hugsanlegt, að slík átök mundu kosta, ef til vill, verkföll og gífurlegt vinnutap, sem af þeim mundi leiða. Vilji sjómannanna hefur komið greinilega fram og er eindreginn í þessu máli, og eins og lýst hefur verið yfir hér, mun Alþýðusamband Íslands standa með sjómönnunum í þessum kröfum. Það er þess vegna ekki aðeins frá almennu mannúðarsjónarmiði og vegna virðingar Alþ. rétt að taka nú tillit til þessa máls, sem hér er flutt fram, heldur er það líka hentugt, til þess að láta þetta ekki verða að deilumáli, ef til vill hörðum og dýrum deilumálum milli atvinnurekenda og sjómanna. Ég vonast þess vegna til þess, að þetta mál og þetta frv. fái nú meirihlutafylgi hér á Alþ. og skjóta afgreiðslu úr þeirri n., sem það fer til.