10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Frsm. n., hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), hefur gert grein fyrir afstöðu n. um þann hluta málsins, sem n. í heild er sammála um, og um þær brtt., sem við nokkrir nm. flytjum sameiginlega. Það, sem einkennir í raun og veru afgreiðslu n., er það, að öll n. er sammála um fiskábyrgðina og að meiri hl. n. er andvígur 24. gr. Og þar sem vitað er, að þeir flokkar, sem meiri hl. er fulltrúi fyrir, standa bak við andúðina gegn 14. gr., þá er þar með séð fyrir því, að þær álögur, sem þar um ræðir, verða ekki á lagðar að þessu sinni. Því miður eru brtt. mínar ekki komnar úr prentun, en þeim mun verða útbýtt rétt strax, og ætla ég nú að minnast á þær.

Ég flyt þá brtt. við 1. gr. frv., að í stað orðanna „í janúar og febrúarmánuði“ komi: á árinu 1950. Hingað til hefur þetta verið þannig, að þegar fiskábyrgðin hefur verið lögleidd, þá hefur það strax verið látið gilda fyrir allt árið, og þrátt fyrir mikið traust manna á afgreiðslu mála hér á Alþ., þá held ég, að ekki sé vert að gera of mikið úr því og að rétt muni vera að binda þetta við allt árið frá byrjun. Svo fremi að Alþ. geri þarna aðrar breyt., t.d. í febrúarmánuði, þá breytist náttúrlega þessi grein þar með. En ég álít rétt að láta útgerðarmenn, sem ætla að hefja útgerð, fá tryggingu í l. um, að ábyrgð sé tekin á verðinu allt árið. — Ég ber svo fram brtt. um að fella niður 13. gr. frv., sem þýðir það, að þær tekjur, sem af söluskattinum koma, eins og hann ei nú, mundu samkv. l., sem samþ. voru fyrir jólin, aðeins koma inn í janúarmán. Deilan er um það, hvort söluskatturinn eigi að vera í gildi í febrúarmánuði. Svo framarlega sem brtt. mín um að fella niður 13. gr. verður samþ., mun ég við 3. umr. málsins flytja brtt. um að afla nýrra tekna í staðinn fyrir þær, sem niður falla. Við sósíalistar höfum flutt hér mjög ýtarlegar brtt. við fiskábyrgðarl., þegar þau hafa verið hér til umr. áður, til þess að tryggja tekjur á annan hátt en hér er tekið fram. Þetta kom sérstaklega fram í frv., sem við fluttum á Alþ. 1947. Í því voru gerðar mjög ýtarlegar till. bæði viðvíkjandi sölu sjávarafurða, innkaupastofnun fyrir þjóðina, verzlun með olíu og niðurfellingu tolla, um ráðstafanir til að lækka rekstrarkostnað útvegsins, um verzlun með veiðarfæri og aðrar útgerðarvörur og um eftirlit með verðlagi þeirra. Ég hef ekki séð ástæðu til þess við 2. umr. að endurtaka þessar till., meðan ekki er séð, að afstaða sé hér tekin með því af meiri hl. Alþ. að fella niður þær leiðir, sem fyrst og fremst stefna að því að leggja álögur á alþýðu manna. Það er deilt um, hvor leiðin skuli farin, hvort þær tekjur, sem þarf vegna fiskábyrgðarinnar, skuli teknar með almennum tollum, sem leggjast á alþýðu manna, eða hvort tekjurnar eiga að nást með því að taka á einn eða annan hátt verzlunargróðann í þjónustu ríkisins eða að nokkru leyti einnig að draga úr þeim gífurlega kostnaði, sem á útgerðinni hvílir vegna vaxtabyrða. Um þetta er í raun og veru greitt atkv. Álögur þær, sem nú á að lögfesta samkv. 14. gr. í frv. ríkisstj., eru ekki einvörðungu miðaðar við það að standa undir fiskábyrgðinni, heldur er fiskábyrgðin notuð sem yfirskin til þess að hækka tolla og auka dýrtíðina. Þannig er farið að því ár eftir ár að leggja á nýjar álögur, fyrst söluskattinn, sem svo er tvöfaldaður, og nú er lagt til, að hann verði lagður á fimmfaldur, og allt er þetta gert í skjóli fiskábyrgðarinnar, en þó miðað við að skapa meiri tekjur, en þyrfti til að standa undir fiskábyrgðinni. Ég get þessa, af því að hér er um principdeilumál að ræða. Það þýðir lítið að flytja hér þing eftir þing till. í þá átt að ganga á verzlunargróðann, svo framarlega sem enginn möguleiki er til að fá þær samþykktar, en ég tók það fram við 1. umr., að ef slíka hugarfarsbreyt. væri að eygja hér á Alþ., þá mundi ég koma með brtt. í áðurgreinda átt.

Þá hef ég í n. nokkuð rætt um það við aðra nm., hvaða frekari tryggingu Alþ. gæti veitt sjávarútveginum en þá, sem um ræðir í 1. gr., fyrir því, að sú fiskábyrgð, sem Alþ. nú veitir, komi að gagni. Ég gat þess við 1. umr., að það gildi, sem fiskábyrgðin hefði fyrst og fremst fyrir útgerðina, væri í því fólgið, að bankarnir hefðu treyst sér til að lána útgerðinni, svo að hún gæti gert út alla vertíðina í trausti á þessa fiskábyrgð ríkisins. Ég gat þess enn fremur, að bankarnir hefðu stundum sagt við hraðfrystihúseigendur, að nú gætu þeir ekki lánað meira, t.d. út á ákveðna tegund framleiðslu þeirra, af því að þeir álitu, að ekki væri til markaður fyrir hana. Nú er það vitanlegt, að a.m.k. bankastjórar Landsbankans líta svo á, að markaður sé mun óvissari, en verið hefur, og þeir hafa látið þá skoðun í ljós, að það mundi engan veginn vera öruggt, að þeir láni út á eins mikla framleiðslu og reiknað er með af hálfu útgerðarmanna og lagt er til grundvallar fyrir fiskábyrgðinni. Ef svo færi, að bankarnir tækju upp á því, máske um miðja vertíð, að stöðva útlán sín, þá væri þar með að meira eða minna leyti búið að eyðileggja gildi fiskábyrgðarinnar fyrir útgerðina. Ég álít, að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir þetta, og að útgerðinni sé tryggt það frá upphafi, að hún komi til með að fá lán í samræmi við þessa flskábyrgð. Eðlilegast yrði að framkvæma þetta á þann hátt, að bankarnir yrðu skyldaðir til þess með l. að lána samkvæmt þessari ríkisábyrgð út á það, sem bátarnir gætu veitt og frystihúsin fryst. Slíkt kann að virðast dálítið óeðlileg afskipti af sumra hálfu af rekstri hankanna, en ég vil taka það fram, að Alþingi og ríkisstjórn taka ráðin yfir sjálfri framleiðslunni úr höndum útvegsins, taka ráðin yfir sölu aflans út úr landinu úr höndum útvegsins, taka gjaldeyrinn, sem útvegurinn framleiðir, úr höndum hans og afhenda bönkunum, og það er þá ekki nema eðlilegt, fyrst búið er að gera ríkið að aðila, sem eigi að stjórna þessu og ráða, að ríkið tryggi það um leið, að einn partur þess, bankarnir, haldi áfram sinni lánastarfsemi og veiti útveginum nægilegt lán, til þess að hann geti framleitt af fullum krafti. Ég hef minnzt á þetta í fjhn., en það hefur nú ekki fengið undirtektir þar, en ég er hins vegar ekki tilbúinn með till. um þetta efni, vegna þess að ég vildi fyrst heyra undirtektir hv. þm. hvað þetta snertir. Ég mundi síðar færa nokkur rök að því, hve mikla þýðingu það hefur fyrir afkomu útvegsins, hvort útgerðin er tryggð allan tímann eða ekki. Ég vil geta þess, að svo framarlega sem meiri hluti Alþ. er ekki samþykkur því að skylda bankana á þennan hátt til að lána útgerðinni og tryggja þannig, að útgerðin sé rekin af fullum krafti allan tímann, þá álít ég, að það verði alvarlega að athuga aðra leið í þessu sambandi, þá leið, að þegar eða ef bankarnir neita á ákveðnu tímabili að lána lengur t.d. út á freðfiskinn og hætta væri á, að bátaútvegurinn stöðvaðist, þá væri bátaútveginum og hraðfrystihúsunum fenginn réttur til að selja þann fisk og þá framleiðslu, sem framleidd er eftir þann tíma og ekki er hægt að fá bankalán út á, frjálst út úr landinu og að þeir hefðu, eftir ákveðnum reglum, ráðstöfunarrétt yfir þeim gjaldeyri, sem þeir fengju fyrir þá framleiðslu. Ég álít, að það þurfi að koma í veg fyrir, að hægt sé að stöðva útgerðina á miðri vertíð, og jafnframt þurfi að koma í veg fyrir, að útgerðarmönnum sé neitað um lán og bannað að selja vöru, sem þeir geta framleitt og sjálfir selt. Við munum eftir því, hvað hæstv. fjmrh. sagði hér nýlega í ræðu um ríkisábyrgð í sambandi við verkamannabústaði, að ríkisábyrgðin væri ekki sérlega mikils virði gagnvart bönkunum. Ég er ákaflega hræddur um, að við þurfum að taka nokkurt tillit til þeirra raunhæfu orða við afgreiðslu þessa máls, á þann hátt, að við göngum þannig frá málinu, að bankarnir verði að taka tillit til þessarar ríkisábyrgðar. Ég minni sem sagt á þetta atriði nú og vildi við þessa umr. gjarnan heyra undirtektir hv. þm. um það. Eftir því, sem þær undirtektir verða, mun ég koma með till., sem miða að því að tryggja þetta raunhæft.

Þá vil ég enn fremur geta þess, að við tveir nm. tókum til athugunar, hvort ekki mundi vera réttast að lögbinda frílistann. Ég býst við, að hv. þm. V-Húnv. (SkG) komi inn á þetta efni, þegar hann talar, og mun ég því ekki orðlengja um það.

Svo langar mig til að fara nokkrum orðum um þá útreikninga, sem lágu fyrir n. og þessi fiskábyrgð byggist á, af því að ég held, að rétt sé fyrir okkur að gera okkur við þessa umr. málsins nokkuð ljóst, hvaða verðmæti hér er um að ræða. Hafi ég misskilið eitthvað af þeim reikningum, sem lágu fyrir n., þá þætti mér vænt um, að það yrði leiðrétt. Ég vil nú reyna að gefa nokkurt yfirlit yfir það, hvernig þessir útreikningar eru gagnvart saltfiskinum og hraðfrysta fiskinum. Á árinu 1949 hafa ríkisgreiðslurnar numið fyrir 23 þús. tonn 11,5 millj. kr., eða 500 kr. á tonnið, og mér reiknast til, að nú í ár verði að bæta við þetta um 250 kr. á tonnið, eða á árinu 1950 verði ríkið að greiða 750 kr. með saltfisktonninu. Sé reiknað með 23 þús. tonna framleiðslu af saltfiski, mun það verða að útflutningsverðmæti líklega í hæsta lagi 44 millj. kr., en ríkisábyrgðin af því mun nema 16,5 millj. Hvað freðfiskinn snertir, þá var ríkisábyrgðin í fyrra 19 millj. kr. með 27 þús. tonnum, eða um 700 kr. á tonn. Nú í ár er gengið út frá því, að hráefnahækkun á samsvarandi magni mundi skapa viðbótargreiðslur, sem nema 7,7 millj. kr. Síðan kemur til greina sú hækkun, sem mun verða af auknum umbúðakostnaði og fleiru, um 4 millj. kr., en við það bætist svo, eftir útreikningum L.Í.Ú., sú hækkun, sem verður vegna breyttra pökkunaraðferða. Er þá kominn aukakostnaður, sem nemur 10 til 11 millj. kr. Nú vil ég geta þess í þessu sambandi, að þar sem hér er reiknað með 10–11 millj. kr. í auknum kostnaði, þá þýðir það raunverulega, að þarna er verið að reikna með verðlækkun á freðfiskinum. Það er gefið, að samanborið við 7 lbs. pökkunina, þá mundi þessi nýja pökkun eiga að skapa samsvarandi verðmæti, þannig að hún hefði átt að bæta almennt við, eins og fram kemur í brtt., sem fjhn. sameiginlega flytur. Taki maður þessa hækkun með, verður viðbótin alls 21,7 millj. kr., og að viðbættri útflutningsábyrgðinni, 19 millj. kr., verður þetta samtals 40,7 millj. kr. Ef hægt væri að reikna með 2.600 kr. fyrir tonnið af freðfiskinum, þá verður þessi afli um 70 millj. kr. í útflutningsverðmæti, en meðgjöfin með þessu magni er þá um 40 millj, kr. Þá yrði saltfiskurinn, 23 þús. tonn, og freðfiskurinn, 27 þús. tonn, að útflutningsverðmæti 114 millj. kr. og með því væru borgaðar 56 millj. kr. af ríkinu, eða upp undir það helmingur af verðmæti þessa útflutnings. Nú er rétt að gera sér það ljóst, og ég vil taka það greinilega fram, að ég reikna með því, að ríkið borgi verðlækkunina á freðfiskinum, 10 til 11 millj. kr.

Þá vil ég minnast á, að enn fremur hafa fulltrúar frá togaraeigendum komið að máli við n. og rætt við okkur afstöðuna, bæði viðvíkjandi gömlu togurunum og nýsköpunartogurunum, og það er rétt, að það komi fram við þessa umr., svo að það verði tekið með í reikninginn, þegar ríkið gerir sínar ráðstafanir varðandi þessa framleiðslu. Það er sérstaklega bent á það, hvað gömlu togarana snertir, að þeir mundu, ef þeir væru gerðir út á saltfisk, geta framleitt um 8 til 9 þús. tonn af saltfiski, sem er að verðmæti um 16 til 18 millj. kr. Og hvað nýsköpunartogarana snertir, sem er reiknað með að geti framleitt 100 þús. tonn, ef þeir eru gerðir út á ísfisk, þá mundu þeir geta framleitt saltfisk, ef ekki eru reiknaðar afskriftir af þeim, fyrir um 2 kr. kg, eða á því verði, sem almennt er reiknað með, að hægt sé að fá fyrir saltfisk. Þið takið eftir þessu, að það er verið að tryggja bátaútveginum kr. 2,52 fyrir hvert kg af saltfiski. Nýsköpunartogararnir geta framleitt hann fyrir 2 kr. kg, ef ekki er reiknað með afskriftum af þeim. Það er þess vegna gefið, að það vandamál, sem liggur fyrir okkur í sambandi við ákvörðun um fiskábyrgðina og þar með ráðstöfun á fiskframleiðslu Íslendinga í ár og skipulag af hálfu ríkisins á þessari framleiðslu, snertir ekki einungis bátaútveginn, heldur líka bæði gömlu og nýju togarana. Hins vegar er það gefið, að það, sem raunverulega gerir það að verkum, að ekki er hægt að taka t.d. gömlu togarana að einhverju leyti með í fiskábyrgðina eða að skipuleggja nýsköpunartogarana á saltfiskveiðar nú, er það, að álitið er, að framleiðsla saltfisks verði allt of mikil. Nú vil ég taka það fram, að allur sá útreikningur, sem liggur til grundvallar fyrir fiskábyrgðinni, eins og hún liggur fyrir hér, byggist á fullri drift, bæði hjá bátunum og hraðfrystihúsunum, þannig að hraðfrystihúsin geti framleitt allan tímann og svipað magn og undanfarin ár. Svo framarlega sem það kemur í ljós, að bankarnir treysti sér ekki til og þeir aðilar, sem með söluna hafa að gera, að selja meira en t.d. 15 þús. tonn af freðfiski og framleiðslan gæti stöðvazt af ótta við markaðsvandræði, þá mundi það þýða það, að allur útreikningurinn til grundvallar fiskábyrgðinni væri rangur, vegna þess að allur fastur kostnaður við rekstur bátanna og hraðfrystihúsanna mundi auðvitað verða miklu hærri en hann nú er reiknaður, ef hann ætti að reiknast á helmingi minna magn, hvað freðfiskinn snertir. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt, að þm. geri sér það ljóst, þegar þetta mál er afgr., að það er reiknað með fullum afköstum hraðfrystihúsanna og fullum gangi bátanna, í því verðmæti, sem hér er lagt til grundvallar, og svo framarlega sem full afköst eru ekki tryggð og útveginum tryggt að geta starfað af fullum krafti allan tímann, þá er ekki skapaður fjárhagslegur grundvöllur fyrir útveginn með þessum l. Við reyndum í n. að fá nokkrar upplýsingar viðvíkjandi útliti um markaði, og ég álít, að það sé atriði, sem menn alveg sérstaklega verða að gera sér grein fyrir við afgreiðslu þessa máls. Það verður að vera þeim hv. þm. ljóst, sem eiga að taka á sig þá ábyrgð að afgreiða þessi l., hvernig útlitið sé með markaði fyrir fiskframleiðsluna og hvað það sé, sem hægt er að treysta á. Við þurfum að vita, á hvaða fjárhagslegum grundvelli við stöndum, þannig að við ekki lítum svo á eftir á, að við höfum verið að stíga út í eitthvert kviksyndi. Það hefur verið upplýst, að England og Þýzkaland hafi verið aðalmóttökulöndin fyrir freðfiskinn á s.l. ári., en að útlitið sé þannig, að í Þýzkalandi sé mjög lítil von um markað fyrir freðfisk og á Englandi sé útlit fyrir stórkostlega minnkandi markað fyrir annað en freðfisk, sem stendur, sem er að nokkru leyti í sambandi við það, að enska stjórnin hefur ákveðið að hætta öllum fiskkaupum. Hins vegar liggur ákaflega mikið fyrir af frystum fiski í Englandi, svo að mjög litlar vonir standa til þess, að freðfiskmarkaðurinn þar taki á móti varla helmingi af því, sem verið hefur undanfarið. Eftir útlitinu að dæma, er það svo, að helzt séu vonir um markaði í sumum litlu löndunum, t.d. í Sviss, Palestínu og kannske Finnlandi. Þess vegna er ekki annað hægt að segja en að markaðsmálin séu mál, sem við verðum alvarlega að athuga við afgreiðslu þessa máls. Ég álít, að það séu fullkomnir möguleikar á því fyrir okkur að halda þeirri lífsafkomu, sem þjóðin hefur haft undanfarið, svo framarlega sem framleiðsluhættir okkar eru hagnýttir til fulls. Það er enginn efi á því, að jafnvel þótt við reiknum með verðlækkun á okkar afurðum, bæði á freðfiski, saltfiski og ísfiski, þá getum við komizt upp í það að hafa hærri útflutningsverðmæti en við höfum haft undanfarin ár, og reikna ég þá líka með samsvarandi síldarleysi og verið hefur. Við verðum aðeins að geta tryggt það, að bátaflotinn, togararnir, og þar með gömlu togararnir, og hraðfrystihúsin sé rekið með fullum krafti allan tímann. Ég hef stillt upp að gamni mínu útreikningi yfir það, ef reiknað er með því, að bátarnir séu á saltfiskveiðum og gömlu togararnir, en sú framleiðsla mundi nema 30 þú. tonnum. Sé þessi framleiðsla reiknuð á 2 þús. kr. tonnið, mundi þetta gera 60 millj. kr. af reiknað er með 27 þús. tonnum af freðfiski, á því verði, sem selt var fyrir á síðasta ári, 2.600 kr. á tonn, þá yrðu það um 70 millj. kr. Ef svo nýsköpunartogararnir færu á ísfisk og framleiddu 125 þús. tonn á 750 kr. tonnið, þá mundi það nema 93 millj. kr., eða ef þeir færu á saltfiskveiðar yfir hávertíðina, sem mundi þýða, eftir útreikningi L.Í.Ú., að þeir mundu framleiða um 22 þús. tonn af saltfiski og svo ísfisk hinn tímann, þá yrði verðmæti þeirrar framleiðslu 100 millj. kr. Þessi fullnýtti floti mundi gefa, hvað þessa framleiðslu snertir, 223 millj. kr., með þessu lækkaða verði, en sama framleiðsla gefur á árinu 1947, á því síldarleysisári, 160 millj. kr. af þeim 290 millj. kr., sem við fluttum út fyrir það ár. Við höfum möguleika á því að auka framleiðslu okkar, við höfum tæki til þess, og jafnvel þó að við verðum að reikna með verðlækkun og síldarleysi undanfarinna ára, að undanskildu árinu 1948, þá mundi verðmæti þessa útflutnings slaga upp í 350–400 millj. kr., eða hátt upp í andvirði þeirrar framleiðslu, sem við fengum á því ári, sem Hvalfjarðarsíldin gaf okkur 100 millj. kr. í tekjur. Ég tek þetta fram vegna þess, að þær hugmyndir hafa komið fram varðandi lækkun lífsafkomu þjóðarinnar, að óhjákvæmilegt sé, að útflutningsverðmætið minnki. En ef við höldum útflutningsverðmætinu, þá getum við fengið nauðsynjar okkar, og við vinnum upp lækkað verðlag með meiri afköstum og fjölbreyttari framleiðslu. Með því getum við aflað nægra tekna til þjóðfélagsins og þurfum ekki að skera niður lífsafkomu þjóðarinnar. En nú virðist það vofa yfir, að þessi framleiðsla verði skorin niður. Það er talað um, að freðfiskframleiðslan fari niður í 15–20 þús. tonn og saltfiskframleiðslan niður í 20 þús. tonn og hugsanlegt sé, að til viðbótar við það, að gömlu togararnir liggja bundnir við hafnarbakkann, þá verði nýsköpunartogararnir einnig stöðvaðir. Ef slíkt yrði, þá verður útflutningsverðmætið ekki lengi að fara niður í 100 millj. kr. Verði framleiðslan minnkuð, þá er þetta að athuga: Í fyrsta lagi: Það yrði stórkostlegt tap fyrir sjávarútveginn, vegna þess að allur rekstrarkostnaður yrði hærri. Í öðru lagi: Það hefði í för með sér atvinnuleysi fyrir þá landsmenn, sem við sjávarútveginn vinna. Í þriðja lagi: Það leiddi af sér stórkostlegan gjaldeyrisskort fyrir þjóðina. Í stað 80–120 milljóna kr. kæmi þá aðeins 60–80 milljónir kr. Í fjórða lagi: Slíkur gjaldeyrisskortur ylli því, að eingöngu brýnustu rekstrar- og nauðsynjavörur og vörur til annarra atvinnuvega yrðu fluttar inn, en sparaður yrði innflutningur á þeim vörum, sem gefa mesta tolla og aðflutningsgjöld af sér í ríkissjóð. Þær mundu, eigi þykja eins nauðsynlegar. En með þverrandi tolltekjum og sköttum stæði ríkið eigi undir þeim útgjöldum og ábyrgðum, sem á það eru lagðar í l. Ef þessi útflutningsverzlun mundi bila, þá bilaði og allur ríkisbúskapurinn.

Ég held, að við eigum að ræða þetta mál alvarlega. Hér er í rauninni ekki um dýrtíðarvandamálið að ræða. Það er áreiðanlega hægt fyrir Íslendinga að leysa dýrtíðarmálin innanlands. Það eru ekki þau, sem hafa verið að drepa þjóðina undanfarin ár. Það er ekki heldur verðlagslækkunin. Spurningin er um hitt, hvort við séum samkeppnisfærir. Þótt við tækjum upp á því að ætla að undirbjóða hollenzka, danska, norska og aðra erlenda fiskimenn með því að þræla sjómönnum okkar út, þá mundi það eigi leysa málin. Þessar þjóðir sleppa okkur ekki inn í lönd sín. Þær leggja toll á fiskinn, eins og Englendingar og Þjóðverjar munu gera. Þær takmarka innflutninginn og hindra okkur í að selja, þótt við reyndum að undirbjóða alla aðra. Eigi er heldur um það að ræða að bíða eftir lausn í dýrtíðar- og verðlagsmálunum. Það er hægt að lækka verðlagið, en það lagar ekki hitt, sem mér hefur eigi enn verið bent á, en er þó aðalmálið: markaðsvandamálið. Það er mesta málið. Það er möguleiki á að selja fiskinn fyrir það verð, sem með ríkisábyrgð er kleift að framleiða hann fyrir. Þar er þá komið að því vandamáli, sem er höfuðvandamálið.

Fyrir rúmum tveim árum var tekin sú ákvörðun að binda verzlun Íslendinga fyrst og fremst við Vestur-Evrópulönd. Það var gerður Marshallsamningur. Þar var undirstaðan sú, að fyrir freðfisk og ísfisk væru markaðirnir í Englandi Þýzkalandi og víðar þar um slóðir. Á allan hátt var reynt að gylla það fyrir þjóðinni, hversu öruggt það væri að binda sig efnahagslega við þessi lönd. En ég benti á, að þessi lönd lægju öll að Atlantshafinu, væru fiskveiðaþjóðir, hefðu margar stundað fiskveiðar við Íslandsstrendur og mundu, þegar þær væru búnar að ná sér eftir hörmungar styrjaldarinnar, taka upp útgerð að nýju og keppa við okkur, ef eigi hafi þá verið hafnir samningar um þá samvinnu, er gerði okkur Íslendinga samkeppnisfæra, og að við fengjum að selja fiskinn okkar. Ég sýndi fram á, að við fengjum að selja til Þýzkalands tll að fæða Þjóðverja meðan þeir væru að byggja upp togaraflota sinn að nýju, en síðan yrðum við útilokaðir, þegar Þjóðverjar og aðrar þjóðir færu að sigla á Íslandsmið eftir 2–3 ár. Við áttum að framleiða mat handa hinum hungruðu Þjóðverjum, en síðan mundum við fá sparkið. Ég studdi þetta eigi einvörðungu með tilgátum, ég studdist líka við ummæli hins ameríska umboðsmanns Marshallhjálparinnar, en hann sagði, að eftir árið 1950 mundi fiskframleiðsla Íslendinga skipta litlu máli fyrir þessi lönd. Og nú er það komið á daginn, að með því að binda viðskipti okkar við þessi lönd höfum við gert hrapallega og örlagaríka vitleysu. Við bindum okkur við lönd, sem vilja lítið með okkur hafa að gera. En öll okkar framleiðslugeta og miklu framleiðslutæki eru miðuð við fullan rekstur og mikla og örugga markaði. Þess vegna er ég hræddur um, að við, ef við brjótum nú ekki við blaði, fáum að kenna á fyrstu afleiðingunum af rangri viðskiptapólitík. Ég get um það sem dæmi, að sé það satt, sem ég hef heyrt eftir einum af bankastjórum Landsbankans, er ég þekki nokkuð, að eigi sé unnt að selja nema um 15 þús. tonn af freðfiski í ár, þá er það ekki nema helmingur af því, sem við getum framleitt. En í júnímánuði árið 1947, þegar við ákváðum að selja til Sovétríkjanna m.a. freðfisk fyrir 97 millj. kr., þá var samið um mikla sölu, sem komst upp í 15 þús. tonn, og er það m.ö.o. eigi nema um helmingur af kleifri framleiðslu, ef tækin eru í fullum rekstri. Því álít ég, að mál það, sem ríður á að fá rætt og upplýst frá þeim, er gerst eiga um þetta að vita, sé markaðsútlitið og öryggið fyrir vörur sjávarútvegsins, — hvar þeir, sem ráða í landinu, hafa öryggið, sem þeir lofuðu þjóðinni með Marshallsamningnum og hún á kröfu til. Og ég vil geta þess fyrir þær sakir, hversu mikið hefur verið talað um lausn mála bátaútvegsins í febrúarmánuði, að það eru engin rök, þótt við vitum, að hún yrði gengislækkun um 30–40%, að þetta hjálpaði neitt verulega, hvað þessi mál snertir. Ástandið mundi breytast að vísu til batnaðar um skeið, — áður en hækkun útlendrar vöru kæmi fram. En mjög mikið af þeirri hækkun, sem við berjumst við nú, er gengislækkun, sbr. verð á ollu og benzíni. Þetta veldur því, að ríkið verður að taka á sig milljóna króna byrðar vegna verðhækkunar á dollarnum. Ég held, að Alþ. eigi kröfu á því, að markaðsmálið sé rætt og frá því sé skýrt, hvaða möguleika þeir menn sjái, sem landinu halda í einokunarklóm, og þeir sýni, hvar og hvernig við eigum að selja afurðirnar og kaupa nauðsynjar okkar í staðinn. Íslendingar búa við einokun af hálfu hæstv. ríkisstj.

Ég hef farið ýtarlega inn á þetta mál, því að ég held, að ef við eigum að ræða það raunhæft, þá verði mönnum, áður en þeir samþykkja eitthvað, að vera ljóst, hvað þeir eru að gera. Við eigum ekki aðeins að horfast í augu við ástandið, heldur og gera viðhlítandi ráðstafanir til að skapa fjárhagslegan grundvöll. Þessi fiskábyrgðarl. eru ekki nægilegur grundvöllur. Samtímis þarf svo að skapa markaðsöryggi. Ég vonast til, að inn á þetta verði komið, og er reiðubúinn til ýtarlegra umræðna um það mál. Og ég vonast til, að eigi verði reynt að blekkja menn með því að segja, að breytingar á einu saman verðlaginu geti bjargað þessu, því að það væri algerlega rangt. Tilgangurinn með fiskábyrgðunum hefur verið sá að skapa fjárhagsgrundvöll. Hann verður þó eigi tryggður með því einu, heldur og með hinu, að tryggja markaði um leið. Og ég vonast því til, að hæstv. ríkisstj. gefi þessari hv. d. þær upplýsingar, sem hún sjálf veit beztar, svo að d. geti rætt það vandamál alveg raunhæft.