06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

65. mál, jeppabifreiðar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og sést á nál. landbn. á þskj. 560, er n. klofin í þrjá hluta, þó að allir nm. hafi skrifað undir álitið. Í fyrsta lagi eru þeir, sem vilja samþ. frv. með gagngerðum breyt., í öðru lagi hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem vill fella niður 1. og 2. gr., og í þriðja lagi ég, sem tel ekki ástæðu til að samþ. frv. Ég lít svo á, að Alþ. hafi gert sér nóg til skammar í sambandi við jeppa, þó að það geri sér ekki fleira til skammar. Þetta eru vinsæl tæki, bæði meðal bænda og kaupstaðarbúa, en þó er þetta kannske eina varan, sem eyðilögð hafa verið leyfi fyrir innflutningi á frá árinu 1947. Enn eru óinnfluttir 94 jeppar; sem þá var búið að leyfa innflutning á. Á síðasta Alþ. var líka samþ. að flytja inn 600 jeppa, að vísu áttu þeir ekki að sitja fyrir öðrum vörum, en ekki einn einasti var fluttur inn, þrátt fyrir það, að stöðug ásókn er á alla þm. um að útvega þessi tæki. Við skulum segja, að gjaldeyrisskortur hafi verið orsökin til þess, en þó var allmikið flutt inn af öðrum bifreiðum. Samkvæmt l., sem sett voru 1949, átti að skipa n., er úthluta skyldi jeppabifreiðum. Þessi n. tók til starfa, því að þáv. landbrh., hv. þm. Mýr. (BÁ), fól henni líka úthlutun dráttarvéla ti1 landbúnaðarþarfa, og var allmikið flutt inn af þeim. Ef til þess kemur, að fluttir verða inn jeppar og dráttarvélar, held ég, að sama n. geti séð um dreifinguna, og verður hún ekki ofsæl af því. Þurfi að setja nýjar reglur, þá er það á valdi þess ráðh., sem málið heyrir undir, að breyta og auka við reglugerðina, sem sett var, og taka inn í hana þau atriði, sem hér eru sett inn í frv. Ég legg þess vegna til, að frv. verði vísað til stj., og vænti þess, að hægt verði að sættast á það. Þar sem hv. 1. þm. Skagf. er í forsrh.sæti, vænti ég þess, að hv. frsm. treysti honum til þess að leysa málið á þann hátt, sem heppilegast reynist.