15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2938)

65. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur komið til landbn. og hefur þar verið athugað. Tíminn hefur verið naumur til athugunar, og var mér falið að líta yfir það og breyta því í samráði við n., eftir því sem við töldum nauðsynlegt og rétt. Sérstaklega er það sú breyt., sem er undir a. (13. gr.) og er alveg nýmæli í frv., um það, að það sé skylt að skrásetja allar dráttarvélar í landinu. Það hafa margir litið svo á, að erfitt sé að vita um það, hverjir séu hinir réttu eigendur þessara heimilisvéla og hve margar þær séu í landinu, á þann hátt, að það liggi fyrir úthlutunarn. En ef allar heimilisdráttarvélar í landinu eru skrásettar, þá er það samkvæmt því, sem segir í frv., eftir skýrslu frá sýslumönnum og lögreglustjórum um hver áramót, svo að það ættu ekki að verða miklar breyt. frá þeim tíma og þangað til úthlutun fer fram. Dráttarvélar eru oft notaðar til að flytja vörur úr kaupstað og í ýmissa smásnúninga, þannig að þær eru stundum á þjóðvegum, og hefur komið fyrir, að það hafi orðið árekstrar milli þeirra og annarra farartækja, og þá er erfitt að átta sig á því, hverjum tilheyri þessar vélar, þegar ekki er númer á þeim. En þegar skráningarspjöld eru á þeim, þá verður hægt að ganga betur úr skugga um það, svo að bæði er þetta til öryggis um það og eins að sama manni sé ekki afhent fleiri en ein heimilisdráttarvél, og var n. sammála um, að þetta mundi vera til bóta. — Annars er það fyrirkomulag, sem talað er um í b. (14. gr.) þannig, að það tryggir fljóta afgreiðslu á þessum vélum til þeirra, er æskja þess. Úthlutunarnefnd sendir umsóknir til fjárhagsráðs og fjárhagsráð á að taka tillit til óska kaupenda um það, hvað þeim sé hagkvæmast og heppilegast af slíkum vélum. Þegar fjárhagsráð er búið að ákveða, hvað margar vélar af hverri tegund skuli flytja til landsins, þá verður það tilkynnt þeim, sem eiga að flytja inn vélarnar, og úthlutunarnefnd skiptir þá vélunum milli umsækjenda. Þetta á að gerast svo fljótt sem hægt er. Í frv., eins og það barst d., átti úthlutunarnefnd aftur á móti að skipta vélunum milli búnaðarfélaga.

Þá er lögð áherzla á það í brtt. (17. gr.) að flytja inn varahluti til dráttarvéla, ekki eingöngu til þeirra véla, sem á hverjum tíma eru fluttar inn, heldur líka til þeirra véla, sem til eru í landinu. — 15.–16. gr. eru teknar upp eins og þær liggja fyrir í frv.

Ég hef borið þessar breyt. undir þann mann, sem nú er form. úthlutunarn., og hefur hann ekkert við þær að athuga og telur þessar breyt. til bóta. Þessar till. miða að því að gera hægan í vöfum innflutning og afgreiðslu á þessum vélum, um leið og það er trygging fyrir því, að þetta sé ekki misbrúkað, eins og átt hefur sér stað um þessa hluti, að þeir, sem áður áttu landbúnaðarjeppa, hafa fengið slíkar vélar, en það kemur af því, að n. gat ekki aflað sér upplýsinga um þá hluti. Við nm. erum sammála um þessar brtt. og mælum með því, að frv. verði samþ. eins og við leggjum til í þessum brtt.