15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2940)

65. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er ekki nýtt að heyra hljóð úr því horni og aths., og er það náttúrlega þakkarvert, þegar grundvöllur er fyrir þeim. En hér liggur fyrir frv. um heimilisdráttarvélar, eins og hv. þm. getur séð, ef hann lítur á 15. gr. Hvað hitt snertir, að allir eigi að greiða skrásetningargjald af öllum dráttarvélum, þá finnst mér ekki neitt ranglæti í því, því að það er rétt að hafa eftirlit með þessum vélum, jafnvel þó að þær séu notaðar til uppskipunar, og sjá, hvaða vélar eru í notkun, og þær mega gjarnan hafa sinn einkennisbókstaf. En hér er ekki talað um skoðunargjald, heldur skrásetningargjald. Þessar vélar eru aðeins færðar inn í þar til gerða bók, og skrásetningargjaldið er 15 kr., eins og nú standa sakir, og það er í rauninni ekki neitt óhóflegt verð fyrir að færa þær inn. En jafnvel þó að þetta næði til uppskipunarvéla, þá hygg ég, að sumar vélar séu bæði notaðar í þarfir landbúnaðarins og einnig til uppskipunar. Það er þægilegt, að ríkisstj. og fjárhagsráð geti jafnan haft fyrir sér skýrslur um það, hvað margar vélar eru í landinu, og það fæst fljótast og bezt á þennan hátt. En hv. þm. má ekki rugla þessu saman, skrásetningargjaldi og skoðunargjaldi, því að hér er ekki ætlazt til, að verði neitt skoðunargjald. Mér virðist ekki fráleitt að hafa þetta gjald svona lágt, þar sem þarna er miklu minna um að vera, en með aðrar vélar, og eins og ég sagði áðan, þá er hér aðeins talað um heimilisdráttarvélar, og það kemur ekki til mála, að þær séu til annarra en þeirra, sem eru við búskap eða ræktunarstörf. Vel má vera, að það megi einnig úthluta til manna, þó að þeir stundi ekki búskap, farandmanna, sem fara um með stærri heimilisdráttarvélar til að herfa flög, og þess vegna er vafasamt, hvort eigi að breyta nokkuð frá því, sem komið er í þessu máli. Ég sé ekki ástæðu til þess, hvað mig snertir, að koma með neina brtt. um þetta, ég álít skrásetningargjaldið hæfilegt. En náttúrlega hefur hv. þm. leyfi til að koma með hvaða brtt. sem er.