17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2962)

75. mál, byggingarlán og húsaleigulækkun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þegar þetta frv. var tekið til afgreiðslu í allshn., voru allskiptar skoðanir um efni þess. Sumir nm. litu svo á, að allvafasamt væri, hvort frv. ætti rétt á sér, þar eð það bryti í bága við stjórnarskrána. Vegna þessa var frv. sent til lagadeildar Háskóla Íslands, og þess var óskað, að lagadeildin léti álit sitt í ljós um það. En þegar frá leið og vænta mátti svars, kom í ljós, að lagadeildin vildi ekki láta álit sitt í ljós um það. Að þessu búnu urðu nm. því að taka afstöðu til málsins án þess að sú leiðsaga fengist, sem við höfum beiðzt. Við höfum undirstrikað það álit okkar, að hér sé rennt á mjög tvísýnt vað, auk þess að við teljum efni frv. svo vaxið, að ekki sé hægt að fylgja því af þeim sökum. Eins og við höfum leitt rök að í nál. á þskj. 501, þá mundi frv. þetta, ef að lögum yrði, leiða af sér mikið og handahófslegt misrétti, t. d. ef skuldari gæti breytt lánskjörum sínum.

Í grg. þeirri, sem fylgir frv. þessu á þskj. 129, er gerð sú grein fyrir því, að tilgangur þess sé tvenns konar: Annars vegar að stuðla að lækkun húsaleigu og þar með dýrtíðarinnar og hins vegar að gera þeim kleift, sem eignazt hafa þak yfir höfuðið af litlum efnum, að halda því. Frv. er að efni til ekki á þá leið, heldur hlyti það að eiga við alla og hvern sem er og skuldar út á fasteign, sem gætu þá skyndilega óskað eftir því, að lánunum væri breytt. Skuldari gæti þá hringt til borgarfógeta og krafizt þess, að lánum sínum væri breytt og fengið lánið framlengt til 40 ára með 3% vöxtum, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil vekja athygli á þessu, að hér er verið að gefa almennar heimildir og án tillits til efnahags eða annarra aðstæðna. Svo er það húsaleigan. Það er allvafasamt að setja í löggjöf slíkt yfirmat, sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir.

Þetta mál er ekki alveg nýtt, því að það hefur verið flutt till. um sama efni í bæjarstj. Reykjavíkur af fulltrúum sósíalista þar. Mig undraði það strax á þeim vettvangi, að svona till. skyldi vera borin fram, en þó ekki síður, að það skuli gert hér á Alþ., þar sem gert er ráð fyrir að gera að engu samningsfrelsi manna og eignarrétt með einu litlu frv., en sú yrði afleiðingin, ef þetta frv. yrði að l. Þetta er skoðun meiri hl. allshn., og leggur hann því til, að þetta frv. verði fellt.