13.02.1950
Neðri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

113. mál, veiting prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. flm., 3. landsk., þm., minntist á, að þjóðkirkjan væri hér ríkiskirkja og þess vegna væri eðlilegt, að ríkið hefði vald yfir henni. Í 62. gr. stjskr. er svo mælt fyrir: „Hin evangeliska lútherska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“ Það er auðséð, að þessi evangéliska lútherska kirkja á að njóta fram yfir aðrar kirkjudeildir sérstaks stuðnings og verndunar ríkisvaldsins. Hins vegar má breyta þessu með einföldum lögum. Það er ekki lögð til grundvallar sú hugsun, að þetta eigi að vera ríkiskirkja, sem ríkið eigi ofan frá að öllu leyti að stjórna.

Þá taldi hv. flm., að það væri allt öðru máli að gegna um þingmenn en presta, þar sem þeir byðu sig fram, vegna þess að frambjóðendur til þings væru í kjöri fyrst og fremst sem frambjóðendur stjórnmálaflokka. Þetta er að vísu rétt að nokkru leyti, en það er þrátt fyrir það mikla vald, sem stjórnmálaflokkunum er gefið í okkar stjskr., ekki bundið við stjórnmálaflokkana, hverjir geti boðið sig fram. Þó að stjórnmálaflokkar hafi mikinn rétt, þá geta menn boðið sig fram utan flokka við alþingiskosningar og án þess að tilheyra nokkrum stjórnmálaflakki, og kjördæmaskipunin er byggð á því, að út frá því sé gengið sem grundvallaratriði, þó að okkar pólitíska þróun hér á landi hafi orðið þannig, að pólitísku flokkarnir hafa orðið óvenju sterkar stofnanir. Og þrátt fyrir okkar flokkavald, sem er ríkt í okkar landi, þá eigum við að vara okkur á að gera of mikið úr því í hlutfalli við annað. Ég veit, að í ýmsum kjördæmum hér á landi eru ýmsir menn kosnir fyrst og fremst sem menn, en ekki sem fulltrúar stjórnmálaflokka, þrátt fyrir það að þeir bjóði sig fram fyrir ákveðinn flokk. Mér dettur í hug að halda, að til dæmis hv. þm. Borgf. (PO) mundi ná kosningu í sínu kjördæmi fyrir næstum að segja hvaða flokk sem hann byði sig fram fyrir. Og sama gæti ég hugsað um t. d. hv. þm. V-Ísf. og hæstv. landbrh. (JPálm). Ég gæti trúað, að svo og svo margir af hv. þm. séu það mikið kosnir sem menn, en ekki sem einstaklingar af stjórnmálaflokki, að þeir mundu í viðkomandi kjördæmum hljóta kosningu hér um bil fyrir hvaða flokk sem þeir byðu sig fram fyrir. Það er því mjög óeðlilegt að stilla málinu upp þannig, að þm. séu fyrst og fremst kosnir sem fulltrúar stjórnmálaflokka. Ég býst við að hér í Reykjavík, þar sem flokkavaldið er sterkt, eigi þetta við. En engu að síður, meira að segja hér í Reykjavík líka, koma persónuleg áhrif ýmissa frambjóðenda ákaflega mikið til greina. Og ég held, ef maður ber þetta saman við kosningar í kirkjunni, að trúarflokkarnir hafi þar áhrif sem oft og tíðum geti verið samsvarandi voldugt maskinerí. Þau eru til trúarflokkar hér í þjóðfélaginu, sem eru ákaflega sterkt valdaðir. Ég held, að þarna sé ekki eins verulega mikill munur á, milli og hv. flm. vill vera láta.

Þá sagði hv. 1. flm., að starfsmenn framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins væru ekki kjörnir í kosningum. Engu að síður er það svo, að kosningar fara fram um menn, sem fara með framkvæmdarvaldið og dómsvaldið. Oft er því skipt þannig, að kviðdómur er kosinn, sem kveður upp úrskurð um hvort menn eru sekir eða ekki, og síðan koma svo dómarar, sem skipaðir eru af hinu pólitíska valdi, sem kveða upp dóm á grundvelli framkvæmdarvaldsins. Og sums staðar er framkvæmdarvaldið kosið með sérstökum kosningum, t. d. forsetar í Bandaríkjunum.

Svo voru það síðustu rökin, sem hv. flm. greip til, til þess að sanna, hversu það væri fjarri lagi að láta sér detta í hug, að prestar voru kosnir, að það lægi ekki síður nærri að, kjósa lækna en presta, en samt sem áður væru læknar ekki kosnir. Hv. flm. sagði, að sér væri ekki kunnugt um, að læknar væru kosnir. En hér á Íslandi hefur komið upp fyrirkomulag á síðustu áratugum, sem ég hélt, að ekki hefði getað farið fram hjá hv. flm., þ. e. sjúkrasamlögin, og þar kjósa menn sér lækna, og meira að segja á eins árs fresti, og skipta þannig svo oft um þá sem þeim þóknast. Og alls staðar, þar sem sjúkrasamlög eru, hafa menn þetta vald, og í þeim er meiri hluti Íslendinga. Þannig kjósa menn sér beinlínis lækna, og menn geta skipt um lækna og það með árs fresti. Ég er hissa á, að þetta skuli hafa farið fram hjá hv. þm. Og ég held, að þetta sé mun lýðræðislegra fyrirkomulag en ef sjúkrasamlagsmeðlimir væru skyldaðir til þess að hafa vissa lækna hverjir fyrir sig, það væri t. d. ákveðið, að allir, sem hétu nöfnunum A og B, skyldu hafa vissan tiltekinn lækni, og aðrir, sem hétu nöfnum, sem byrjuðu á C, D eða E, skyldu hafa annan tiltekinn lækni, en allir í hvorum flokknum sama lækninn. Ég held að menn mundu verða óánægðir með slíkt fyrirkomulag og ef þeir yfirleitt voru sviptir þeim rétti, sem þeir nú hafa til þess að kjósa sér lækna fyrir sig, heldur væri það lagt í vald landlæknis eða heilbrigðismálarh. að útnefna þeim lækni. Ég held, að þetta spor, sem stígið var í sambandi við sjúkrasamlögin, að kjósa skyldi þannig læknana, hafi verið mjög stórt skref og ákaflega svipað og átt hefur sér stað með prestana í sambandi við að kjósa þá. Og hv. 1. flm. frv. bar einmitt saman þessar tvær stéttir til að sýna, hversu náið persónulegt samband þær hefðu við alþýðu manna, þ. e. sína umbjóðendur. Einmitt af því, hve náið persónulegt samband sjúklingar hafa við lækni sinn, háfa þeir fengið réttinn til þess að kjósa hann, og alls staðar þar, sem hægt er að koma þessu við vegna þéttbýlis, að menn kjósi sér þannig lækna, þá er þetta haft svo hér á landi. Og það kemur undir þetta fyrirkomulag mikill hluti allra Íslendinga. Hins vegar kemur héraðslæknirinn hér í Reykjavík ákaflega litið við sögu fyrir einstaklingana persónulega viðkomandi þeirra persónulegu líkamlegu velferð. Hann hefur allt öðrum embættisstörfum að sinna. Í dreifbýlinu þá er aftur, af landfræðilegum ástæðum liggur mér við að segja, ákaflega erfitt að koma við þessum hlutum, að einstaklingarnir kjósi sér lækna. Þar er því gamla skipulagið um val læknanna haft. Þar er mjög erfitt, að koma þessum rétti við. Ég skal ekkert segja, nema það væri kannske athugandi, að þegar skipt er um héraðslækna, þá hefðu, menn rétt til þess að kjósa sér þá. Það væri alls ekki óeðlilegur hlutur. Og ég býst við því a. m. k., að ef sá háttur hefði verið hafður á í þessu tilliti viðvíkjandi læknunum eins og í þjóðkirkjunni hefur verið viðvíkjandi því að kjósa prestana, þá hefðu menn verið ófúsir á að breyta því, alveg eins og nú mundi fólkið, sem er í sjúkrasamlögunum, vera ófúst á að breyta því fyrirkomulagi að mega kjósa sér lækna. Ég held einmitt, að það dæmi, sem hv. 1. flm. tók, að það sé samsvörun að þessu leyti á milli lækna og presta, það sanni enn þá betur þá kosti sem felast í því fyrir aðila að geta haft áhrif á það, hverjir séu þeirra fulltrúar, hvað snertir það að annast þeirra líkamlegu og andlegu eða trúarlegu velferð.

Ég áætla ekki með þessu að tefja þetta mál að neinu leyti, en vildi aðeins láta í ljós mínar skoðanir á þessu og að mínu áliti hrekja nokkuð af því, sem hv. flm., 3. landsk. þm., hefur fundist, vera ekki rétt í því, sem ég sagði áðan.