16.02.1950
Neðri deild: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (3046)

116. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það mun öllum hv. þm. vera ljóst, að núgildandi ákvæði kosningalaga til Alþingis um merki framboðslista við hlutbundnar kosningar hafa leitt til mikils glundroða og erfiðleika hjá kjósendum og stjórnmálaflokkunum. Það stafar fyrst og fremst af því, að mjög oft hefur það atvikazt svo, að sami stjórnmálaflokkur hefur haft mismunandi listabókstaf á ýmsum stöðum í landinu. Það liggur í augum uppi, að slíkt gerir það líklegt og er vel til fallið að rugla kjósendur og skapa þannig erfiðleika, bæði fyrir kjósendur og viðkomandi stjórnmálaflokk eða flokka. Þessa eru mörg dæmi, og eru nýafstaðnar bæjarstjórnarkosningar nýjasta dæmið. Með þessu frv. er lagt til, að úr þessu verði bætt. Gert er ráð fyrir, að lögákveðnir verði listabókstafir þeirra stjórnmálaflokka, sem nú eru til í landinu, þannig að sami flokkur hafi jafnan þann listabókstaf, sem hann hefur einu sinni hlotið. Með slíku ákvæði er komið í veg fyrir, að sami stjórnmálaflokkur hafi fleiri en einn listabókstaf í sömu kosningum. Bókstafur eins flokks yrði þá hinn sami um land allt. Ég held, að það sé tvímælalaust andi kosningalaganna, og reyndar allrar lagasetningar, að ákvæðin verði sem skýrust og stuðli til hagræðis fyrir það fólk, sem býr við lögin. Ég vænti því þess, að þessu frv. verði vel tekið. Og vissulega bitna ófullkomin ákvæði kosningalaga á öllum stjórnmálaflokkum og fólki úr öllum flokkum. Ágreinings um þetta frv. ætti því vart að þurfa að vænta, því að með því er verið að koma þessum málum í betra horf.

Enn fremur er gert ráð fyrir því í frv., að er nýir stjórnmálaflokkar koma fram, þá skuli landslisti hins nýja flokks merktur þeim upphafsstaf., sem næstur er í stafrófinu á eftir bókstöfum þeirra flokka, sem fyrir eru í landinu. Sé um fleiri en einn nýjan stjórnmálaflokk að ræða, skulu landslistar þeirra merktir á sama hátt í þeirri röð, sem listarnir koma fram, er flokkarnir hafa í fyrsta sinn lista í kjöri. Það leiðir svo af sjálfu sér, að ákvæði um utanflokkalista haldast eins og nú er í lögum, og koma þeir í áframhaldandi röð.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum, en þetta frv. er fram borið, eins og ég hef getið, til þess að gera kjósendum og viðkomandi stjórnmálaflokkum hægara um vik með því að gera ákvæði kosningalaganna fullkomnari, en þau nú eru. Ég vil svo gera það að till. minni, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að þessari umr. lokinni.