13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (3123)

166. mál, sjúkrahús o.fl.

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur áður legið fyrir þ. í brtt.-formi. Rök hafa verið talin liggja fyrir því að láta fjórðungssjúkrahús njóta hinna sérstöku fríðinda hvað stofnframlög snertir. Þau liggja á sama hátt fyrir um sjúkrahús á Siglufirði, því að Siglufjörður er ein af mestu verstöðvum landsins. Þangað sækir fjöldi manns til vinnu í landi, og fjöldi innlendra og erlendra skipa er þar að jafnaði. Er fjöldi útlendra sjómanna t. d. lagður þar inn á sjúkrahús. Þessi eru rökin fyrir því að fara fram á, að sjúkrahús á Siglufirði verði látið njóta sömu fríðinda um stofnframlög og fjórðungssjúkrahúsin. — Sé ég svo eigi ástæðu til að segja meira um þetta mál. Það hefur áður verið rætt, og legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.