10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh. hafa mælt hér á móti því, að Alþingi setti nánari ákvæði um hinar svo nefndu frílistavörur, eða öllu heldur gjaldeyrinn, sem fyrir þær fæst. Þeir vilja láta ríkisstj. hafa ákvörðunarrétt um, hvað leggja megi á þennan umrædda gjaldeyri. Ég er aftur á móti sammála þm. V-Húnv., sem flytur brtt. um þetta efni, að þessi ákvörðunarréttur ríkisstj. sé bæði óeðlilegur og óheppilegur. Hins vegar er það ekki vegna þess, að ég vilji láta útvegsmenn tapa á slíkri breytingu, en það virðist ríkisstj. álíta. Þvert á móti vil ég láta útvegsmenn halda öllu sínu, en leysa þá undan þeim ásökunum, sem heyrzt hafa, að þeir noti þennan gjaldeyri á ólöglegan hátt. Annars ætla ég ekki að ræða þetta frekar, því að þm. V-Húnv. hefur gert því glögg skil, og læt ég það nægja til þess að skýra afstöðu mína nánar.

Í sambandi við það, að lýsi verði bætt á frílistann, vil ég taka fram, að þótt þessi leið hafi verið valin í sambandi við þær vörur, sem ella hefðu ekki verið framleiddar, eins og gotu og vetrarsíldina, þá tel ég hana ekki heppilega. Ég lít svo á, að þessi frjálsi gjaldeyrir skapi lausung í viðskiptum og torveldi allt eftirlit. Af þeirri ástæðu vil ég ekki bæta lýsi á þennan svo nefnda frílista. Sé hins vegar nauðsynlegt að veita einhverja aðstoð í sambandi við lýsisframleiðsluna, tel ég eðlilegra, að ríkið ábyrgist á því ákveðið lágmarksverð, og þess vegna mun ég fylgja till. þm. V-Húnv. um það efni.