26.01.1950
Efri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3150)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt nú þegar að gera nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Barð., frsm. minni hl., og mun ég þá jafnframt víkja nokkuð að einstökum atriðum í nál. hv. þm.

Það segir svo í nál. m. a. um það atriði, að það sé í senn harla óviðeigandi og sára þýðingarlítið að lögbinda þetta framlag. Hér sé raunverulega ekki um annað að ræða en viljayfirlýsingu þingsins. Um þetta atriði út af fyrir sig fór ég nokkrum orðum í fyrri ræðu minni og ætla ekki að bæta þar miklu við. Hv. þm. gat um það í ræðu sinni nú, að mjög kæmi til orða, mér skildist milli fjvn. og fjmrh., að taka til athugunar að lækka um 25% marga gjaldaliði ríkissjóðs, jafnvel einnig þá, sem bundnir væru með ákveðnum l. Ég vil aðeins benda á það, að jafnvel þótt þessi leið væri farin, væri þó stórum betur komið málum fiskimálasjóðs, ef hann hefði þetta framlag bundið í l. og fengi 75% af því, heldur en eins og það hefur verið undanfarið, að hann hefur ekkert fengið. Og að halda því fram, eins og gert er m. a. í nál. hv. þm., að löggjöf, sem hefur gjöld í för með sér fyrir ríkissjóð, sé ekki á neinn hátt bindandi, sýnist mér augljós fjarstæða.

Þá virðist mjög koma í ljós sú skoðun hjá hv. þm., að það sé sjálfsögð starfsaðferð og eigi að vera föst regla, að í hvert sinn, sem flutt er frv., sem hefur gjöld í för með sér, þá eigi að taka inn í frv. tekjuöflun þar á móti. Það getur vel verið, að þetta ætti svo að vera. En ég hygg, að þessi leið hafi ekki verið farin undanfarið. Og meðan svo hefur ekki verið, þá get ég ekki tekið á móti neinum sérstökum skútum fyrir það, þó að ég flytji frv., sem að þessu leyti er eins úr garði gert og fjöldi annarra þingmála hefur verið á undanförnum árum.

Í nál. segir m. a., að sama takmarki væri hægt að ná fyrir sjóðinn með því að nota lánsheimildina, sem gefin er í gildandi l., eins og að veita sjóðnum beint framlag úr ríkissjóði. Mér finnst alveg augljóst, að þetta fær ekki staðizt, að einu gildi fyrir sjóðinn, hvort hann fær féð sem framlag eða hvort hann fær það sem lán, sem hann þarf að greiða vexti af og skila á tilsettum tíma.

Þá segir hv. þm., að lántökuheimildin hafi verið sett inn í l. upphaflega til þess að nota hana, mér skilst eingöngu, ef framlag ríkissjóðs fengist ekki. Ég held, að það séu ekki til þau ákvæði í l., sem geri það eðlilegt að skilja þau svo alveg ákveðið. Ég hef litið svo á, að þessi heimild væri sett inn í l. með það fyrir augum, að hún yrði notuð til að afla sjóðnum fjár til viðbótar við fastar tekjur af útflutningsgjaldi og til viðbótar við framlag ríkissjóðs.

Þá var gert nokkuð mikið úr því atriði, að þessi hækkun, sem hér er farið fram á, mundi mjög vinna gegn því, sem nú er þó talið æskilegt, að draga úr fjárfestingunni. Það má kannske segja, að einhver fótur sé fyrir þessu. Ég vil þá leyfa mér að benda á, að eins og fyrir liggur í þeim fylgiskjölum, sem birt eru með áliti hv. minni hl., þá hefur sjóðstjórnin lofað lánum upp á allverulega upphæð. Þessi loforð hygg ég, að séu yfirleitt þannig og ástæður þeirra félaga og fyrirtækja, sem hér er um að ræða, þær, að þau eru þegar búin að ráðast í framkvæmdirnar. Framkvæmdirnar hafa verið gerðar og hin ýmsu fyrirtæki burðast nú með mjög dýr og óhagfelld lán, væntanlega mest víxla hjá sparisjóðum heima í sínu héraði og bönkum. Það, sem færi í þessa hluti af framlagi sjóðsins, mundi því ekki hafa í för með sér nýja fjárfestingu. Jafnframt liggur hitt alveg ljóst fyrir, að það verkefni sjóðsins, sem getið er um í 4. gr. l., er svo geysilega víðtækt, að það krefst mjög mikils fjármagns árlega á næstu árum, ef því er sinnt svo sem vera þyrfti. Enn fremur sýnist mér það liggja ljóst fyrir, að fjárfestingin á komandi árum — þó að það sé kannske ekki æskilegt, þá mun þó svo fara — verður takmörkuð af beinum afskiptum opinberra aðila.

Þá segir í nál. minni hl., að allar fastar tekjur sjóðsins ætti að nota eingöngu samkvæmt 4. gr., þ. e. a. s. styrktarstarfsemi. Enn fremur segir á öðrum stað, að fiskimálasjóði hafi verið falin framkvæmd þeirra mála og sköpuð öll skilyrði til að sinna þeim mjög myndarlega. Ég held, að það sé eitthvað orðum aukið, svo að ekki sé meira sagt, að sjóðnum hafi verið falin framkvæmd þeirra mála, sem um getur í 4. gr., þar á meðal hafrannsókna, markaðsleita o. s. frv.

En viðkomandi þessu, sem hv. frsm. minni hl. vildi telja, að l. gerðu mjög skarpa skilgreiningu á skyldum sjóðsins viðkomandi verkefnum þeim, er um ræðir í 4. og 5. gr. l., þá vil ég leyfa mér að benda einnig á 3. gr. l., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fé fiskimálasjóðs skal verja til eflingar sjávarútvegi á þann hátt, er segir í 4. og 5. gr. þessara laga.“

Mér skilst, að 3. gr. brúi nokkuð þetta geysilega djúp, sem hv. þm. vildi vera láta, að væri milli skyldna fiskimálasjóðs varðandi þau verkefni, sem getið væri í 4. gr. annars vegar og 5. gr. hins vegar.

Það kom mjög fram í ræðu hv. þm., og ég held, að hann hafi sagt það eiginlega berum orðum, að hann vefengi heimild sjóðstjórnarinnar að nota svo mikið fé úr sjóðnum til lánastarfseminnar eins og hún hefur gert. Jafnframt taldi hann mjög orka tvímælis um einstakar lánveitingar, hvort heimilar gætu talizt. Fyrst nú ekki eru skýr ákvæði í l. um það, — og um það verður ekki deilt, að þau eru ekki til, — hve mikið af fé sjóðsins eigi að nota til útlána og hve mikið til styrktarstarfsemi, þá held ég, að ekki sé hægt að vefengja heimild stjórnarinnar að þessu leyti. En hvað viðvíkur lánveitingum til einstakra aðila, þá getur verið örðugt að dæma til fulls í einstökum tilfellum, án þess að fyrir liggi nákvæmar upplýsingar um þau rök, sem legið hafa til grundvallar fyrir sérhverri lánveitingu. Hv. frsm. minni hl. minntist á lánveitinguna til Guðmundar Jörundssonar. Mér skildist, að hv. frsm. hefði eingöngu viljað láta hana byggjast á því, að í skip þessa manns hefðu verið sett ákveðin tæki, viss umbúnaður í lest, sem væri nýr, og þá mætti, samkvæmt anda l., upphæð lánsins ekki fara fram úr því, sem þeir hlutir, sem væru hrein nýjung, hefðu kostað. Mér skilst, að samkvæmt þessari reglu mætti t. d. ekki lána til frystihúsa umfram það, sem kosta mundu þeir hlutir, sem áður væru óþekktir í slíkri stofnun. Allir sjá, hve fáránlegt slíkt fyrirkomulag væri. Hins vegar skal ég viðurkenna það, að mér sýnist nú við að líta yfir skrána um útlánin, að þar séu ýmsar lánveitingar, sem fljótt á litið eru hæpnar. Nú er ég hins vegar ósköp hræddur um, að ef einstakir menn færu að athuga útlánaskrár hvaða stofnana sem vera skyldi á þeim tíma, þegar lánsfjár er beinn skortur og um það rifizt, þá mundu alltaf koma fyrir mörg lán, sem þessum sömu einstöku mönnum þættu mjög orka tvímælis.

Svo var það viðkomandi því, að það hefðu verið mjög litlar og óeðlilega litlar afborganir af lánum árið 1948. Það má vel vera, að þetta sé alveg rétt. Mér fannst samt frásögn hv. þm. af þeim hlutum ekki fyllilega tæmandi. Þannig var ástatt samkvæmt gögnum, sem við höfum frá árslokum 1948, að rúmlega 4.127 þús. kr. lán var hjá Fiskiðjuveri ríkisins, en þá upphæð tei ég sérstaks eðlis, og það er engin afborgun af henni á þessu ári. En ef hún er dregin frá þessari upphæð og það, sem hefur verið afskrifað sem tapað, þá er eftir 2.800 þús. kr., en afborgun er 191 þús. kr., eða 7% af þessari upphæð, eða 1/14 hluti. Það má vel segja, að það sé óeðlilega lítil afborgun, en hinu má þó ekki gleyma, þegar því er slegið föstu, hversu geysilega erfið aðstaða er nú hjá viðkomandi atvinnuvegi.

Ég get ekki varizt því, að mér finnst koma nokkuð fram í áminnztu nál. hv. minni hl. sjútvn., að þessi hv. þm. telji verkefni sjóðsins samkvæmt 4. gr. svo mikils verð, að ef þau væru rækt svo sem vera ætti, þá væru verkefnin samkvæmt 5. gr. allt að því óþörf. Þetta hélt ég þó, að okkur báðum, mér og hv. þm. Barð., sem höfum nokkra þekkingu á ástandinu úti á landi, ætti að vera ljóst, að ekki fær staðizt. Þörfin fyrir starfsemi sjóðsins samkv. 5. gr. hefur aldrei verið brýnni en nú, svo mjög sem bátaútvegurinn og honum tengd fyrirtæki eru aðþrengd orðin fjárhagslega.

Hv. þm. telur, að það eigi að setja ný l. og reglur um skiptingu tekna sjóðsins á milli hinna tvíþættu verkefna stofnunarinnar. Má vel vera, að það sé athyglisvert, ég skal ekkert um það segja að svo komnu máli.

Mér finnst dálítið villandi hjá hv. þm., þegar hann sagði, að stjórn Fiskifélagsins legði ákveðið til, að lánastarfsemi fiskimálasjóðs væri sameinuð starfi fiskveiðasjóðs. Í bréfinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi sínum í gær samþykkti félagsstjórnin að mæla með frumvarpi þessu, en vill þó í því sambandi benda á, hvort ekki gæti til mála komið að færa útlánastarfsemi þessa yfir í fiskveiðasjóð.“

Hér er aðeins bent á þetta sem hugsanlegan möguleika.

Þegar l. um fiskimálasjóð voru sett í upphafi, var ástæðan sú, að rétt þótti að hafa skýra markalínu milli þess, sem var venjuleg bankastarfsemi, og þeirra lána, sem gert var ráð fyrir, að fiskimálasjóður veitti. Ég held, að það sé ekki rétt að hverfa frá þessu atriði. Ég skal að vísu viðurkenna, að með þeirri hækkun á hámarki einstakra lána, sem nú er gert ráð fyrir í reglunum, verða þessi mörk ógleggri, en þau voru samkvæmt upphaflegu l. um fiskimálasjóð. En ég tel, að till. um þessa hækkun hafi fram komið af breyttum ástæðum og brýnni þörf og það geri frv. frambærilegt, eins og á stendur, þó að það auðvitað engan veginn geri það óþarft að taka málið til nýrrar athugunar síðar, ásamt öðrum skyldum lögum.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að að minni hyggju þá er kjarni málsins sá að bæta úr þörf dreifbýlisins, einkum og sér í lagi þeirra staða, sem eru útgerðarhæfir og hafa brýnasta þörf fyrir aukið fjármagn. Afgreiðsla þessa litla frv. hygg ég, að fari eftir því, hvern skilning hv. þm. sýna þessu atriði.