27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (3256)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Barð. deilir mjög á. mig við allar umr. þessa máls fyrir meðferð mína á málinu. Ég hef áður lýst því, að ég gat ekki fengið meðnm. mína til að taka afstöðu til málsins og gaf því út nál. einn og tók svo málið á dagskrá eftir langan tíma. Ég tel þetta vítalausa málsmeðferð, og sjálfur hefur hv. þm. Barð. krafizt þess, að mál væru tekin á dagskrá án nál. — Út af hinu, að ég hafi ekki rætt málið nægilega við hæstv. fjmrh., þá tek ég það fram, að ég hef skýrt honum frá því, að þess væri óskað í hv. d., að hann segði álit sitt á málinu. Síðan hefur honum sem öðrum þm. verið send dagskrá, en það er nú svo með hæstv. ráðh., að þeirra annríki er mikið, og þeir virðast ekki hafa tíma til að mæta á þingfundum. Sé ég heldur ekki, að það sé hæstv. ríkisstj., sem á að segja Alþingi, hvaða l. það megi setja, heldur á Alþingi að ákveða það sjálft, en ríkisstj. að framkvæma lögin eða segja af sér ella. — Og um þann pólitíska hrekk, sem á að hafa legið til grundvallar frá okkur flm., þá virðist hann dálítið einkennilegur. Í Morgunblaðinu stóð á dögunum, að fellt hefði verið að láta nefnd þriggja framsóknarmanna úthluta símunum, en það getur ekki staðizt, nema póst- og símamálastjóri sé framsóknarmaður. Nú taldi ég um daginn, er málið var til umr., að ég vissi ekki, hvers flokks póst- og símamálastjóri væri, en þá sagði hæstv. dómsmrh., að hann væri kunnur framsóknarmaður. En um hvað var 4. gr., sem hneykslaði svo mjög hv. þm. Barð. og hv. 11. landsk. þm.? Hún var um það að skerða vald þessa manns, sem talinn er framsóknarmaður af þeim, því að ég hygg það satt, þótt hv. 11. landsk. tali mikið um, að hér eigi að taka vald af ráðherra, að þá sé það meira í orði, en á borði. Ég hygg, að póst- og símamálastjóri hafi mestu um þetta ráðið hingað til. Þannig er það, að þeir, sem hafa á hendi forstöðu ríkisstofnana undir ráðherra, þeir ráða kannske eins miklu og ráðherrarnir sjálfir. Það er ekki hægt fyrir ráðherra að afgreiða ýmis smærri atriði. Þannig er nú þetta, en sennilega skilur hv. þm. Barð. ekki þann hugsunarhátt að hafa ekki flokkspólitísk sjónarmið til allra mála. Ég hef áður getið um það mikla misrétti, sem átt hefur sér stað milli héraða við lagningu notendasímanna í sveitunum, en ég taldi það ekki hafa verið af flokkspólitískri hlutdrægni, þar sem sérstaklega hefur verið níðzt á Eyjafjarðarsýslu og Snæfellsnessýslu, því að meiri hlutinn í þeim tveim sýslum hefur ekki fylgt sama pólitíska flokki. Það er annað en flokkapólitík í þessu sem mörgu öðru. Fróðlegt verður sjálfsagt að sjá till. hv. fjvn. um skiptingu fjár til verklegra framkvæmda, og má líklega gera ráð fyrir, að þær verði ekki þannig, að mest sé veitt í þau héruð, sem hafa fjvnm. fyrir þm. eða þá ráðherra. Vonandi er það víðsýnissjónarmið, sem þar ræður. Út af þeim firrum, að hér sé verið að taka vald af ráðh. og þetta sé alveg dæmalaust, þá er einkennilegt að heyra hv. 11. landsk. þm. halda þessu fram. Ég veit ekki betur, en hann sé í n., sem úthlutar fé til íslenzkra listamanna. Eftir hans kenningum nú ætti menntmrh. að gera þetta. En hann er bara svo mikill smekkmaður á listir og hinir nm. sjálfsagt líka, að þeir eru líklega færari til þessa starfs, en nokkur ráðh. eða fjvn. Þó að við séum þrír flm. þessa máls, þá er það svo, að við leggjum mismunandi mikla áherzlu á hin ýmsu atriði frv. Til dæmis hefur það komið fram, að hv.: 1. þm, N-M. (PZ) leggur aðaláherzluna á það, að féð sé veitt árlega og þetta sé bundið svo, að notendasímarnir komist um land allt á 10 árum. Ég vil einnig leggja áherzlu á það, að símarnir komist um allt landið, því að ef fólkið í sveitunum fær ekki svipuð þægindi og fólkið í þéttbýlinu, þá er enn meiri hætta á því, að það hverfi þaðan, en mér er alveg ljóst, að með þetta sem annað verða menn að sníða sér stakk eftir vexti. Framkvæmdirnar hljóta að fara eftir getu ríkissjóðs á hverjum tíma, og þess vegna er ég fús til þess að fylgja till. ,um það, ef hægt væri að vísa að miklu leyti á annan aðila, en ríkissjóð til þess að leggja þetta fé fram. Ég mun samt ekki bera fram till. um það, m. a. af því, að ég hef rætt þetta við hæstv: fjmrh., og hann telur réttara að ráðstafa fé mótvirðissjóðs með sérstökum lögum, en þau ákvæði verði í einstökum öðrum lögum. En það er ekki óhugsandi, þótt þetta frv. verði að lögum, að eitt af verkefnum mótvirðissjóðs verði að standa hér undir. En ég get ekki neitað því, að ég legg ekki síður áherzlu á það, að trygging fáist fyrir því, að það misrétti, sem átt hefur sér stað um lagningu notendsímanna, haldi ekki áfram lengur, og það skal tekið fram, að ég hef að óreyndu enga ástæðu til að væna hæstv. núv. símamálaráðh. um hlutdrægni í þessum efnum. En ráðherrar koma og hverfa og aðalframkvæmdirnar og raunverulega valdið hefur verið hjá þeim aðila hér í bæ, sem sýnist ekki hafa gætt þess að láta borgarana njóta jafnréttis. Því álít ég rétt að setja nefnd í þetta, og hún mætti gjarnan vera ólaunuð, og ef hv. 11. landsk. þm. vildi styðja till. í þá átt, að n. ætti að skila ráðh. till. sínum, þá gæti ég fallizt á það