28.04.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (3264)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson) :

Virðulegi forseti. Ég fer nú að þreytast á því að eiga orðastað um þetta mál við hv. þm. Barð., því að það fer nú að verða klippt og skorið, og ég held, að hvorugur sannfæri hinn. Það er leiðinlegt, hvað þessi hv. þm. tekur oft rangt eftir því, sem sagt er. A. m: k. hafði hann rangt eftir það, sem hann taldi nú í síðustu ræðu sinni, að ég hefði sagt um hann. Hv. þm. sagði m. a., að ég hefði borið á sig, að hann úthlutaði fé og hagaði yfirleitt störfum sínum eftir pólitískum ástæðum. Þetta sagði ég ekki, heldur, að bæði hann og hv. 11. landsk. gætu ekki hugsað sér, að þeir menn, sem nefndir eru í frv., gætu starfað á öðrum en pólitískum grundvelli. Ég held nú, að það mundi reynast erfitt að finna þann stað á landinu, sem síma væri úthlutað á, að ekki mætti telja það af pólitískum ástæðum. Náttúrlega mundu þessir hv. þm. ekki telja það pólitískt, ef þeirra flokksbróðir ætti í hlut, heldur sérstaklega ef það væri framsóknarmaður. Ég vil nú segja það að, að óreyndu treysti ég núverandi símamálarh. eins vel og þeim, sem undanfarið hafa fjallað um þessi mál, þótt hann sé sjálfstæðismaður, en efast satt að segja um, að hann ákveði um þessi mál í einstökum atriðum.

Um meðferð mína á málinu, þar sem hv. þm. Barð. var að gefa skýringu á því, að mér skildist, að hann deildi ekki á mig sem forseta, heldur sem nefndarformann, þá verð ég að segja það, hvort heldur sem um er að ræða aðstöðu mína sem forseta eða sem nefndarformanns, að þá er mér alveg óskiljanlegt, hvernig ég hefði átt að fara öðruvísi að. Ég hef margsinnis gefið hæstv. fjmrh. kost á að hafa afskipti af málinu. Ég get ekki kúgað einstaka ráðh. til þess að taka þátt í meðferð mála. Hv. þm. veit, að ráðh. hafa málfrelsi og tillögurétt í báðum d., svo að hæstv. fjmrh. hefur haft kappnóg tækifæri til þess að lofa hv. d. að heyra sína skoðun á málinu, og því ekki um neitt að sakast við mig í því efni. Og að öðru leyti út af því, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Barð. og fleirum, að þeir virðast telja, að ráðh. eigi að segja þinginu fyrir verkum, þá vil ég algerlega mótmæla því og tel, að það sé þingsins að segja þeim fyrir verkum. Hér er nú hæstv. fjmrh. staddur nú, og hér með skora ég á hann að láta í ljós álit sitt á málinu. Ég skal svo ekki þreyta umr. um þetta lengur.