13.01.1950
Efri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (3337)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég hef nú verið að skrifa skeyti, meðan á þessari ræðu stóð, en ég heyrði það þó í sambandi við þetta mál, að hv. þm. Barð. hefur farið inn á almennar umræður og það almennari umræður, en tilefni er til. En vegna þessara ummæla hv. þm. get ég ekki setið á mér að víkja að þeim nokkrum orðum, en skal hins vegar reyna að hafa það stutt og tefja ekki umr. frekar.

Viðvíkjandi því, að það hafi aðeins verið fyrir atbeina Framsfl., að lög hafa verið sett, sem verka aftur fyrir sig, vil ég spyrja: Er það þá svo, að Sjálfstfl. hafi aldrei samþ. skattalög, sem þannig verka aftur fyrir sig? Mér þætti fróðlegt að vita það hjá hv. þm., ég spyr að þessu sem málflutningsmaður, því að það er gkki lengra síðan en í gær, að ég var að greiða tolla af vörum, sem fluttar höfðu verið til landsins, og ákvæði um þá tolla voru ekki sett fyrr en eftir á, og í gær var verið að samþ. frv. í Nd. um tolla, og eiga þau l. að gilda frá síðastliðnum áramótum. Það eru sem sé ekki einasta skattar, heldur líka tollar, sem settir eru á með þessum hætti. Það er þess vegna ekki hægt að segja annað, en að það sé heldur spaugilegt, þegar hv. þm. Barð. stendur upp og fyllist vandlætingu út af þessum aðferðum, sem hafa þó verið regla hans flokks, ekki einasta um skatta, heldur einnig tolla. Nei, þá finnst mér nú skörin vera farin að færast upp á bekkinn. Og það er ekki hægt að láta það standa í þingtíðindum án þess að benda á, hversu geysimikið blygðunarleysi þetta er, þegar hv. þm. stendur hér upp og segir: Það er ekki okkur að kenna, þó að óreiða hafi verið á fjármálum þjóðarinnar eftir 11 ára fjármálastjórn.

Vitanlega er það þessum flokki að kenna, því að hver hefur haft stjórn fjármálanna á hendi undanfarin 11 ár, nema Sjálfstfl., og einmitt þessi þm. hefur verið formaður fjvn. nú að undanförnu, og það að form. fjvn. sættir sig við þetta ástand í fjármálunum, það er ekki nema viðurkenning á því, að honum finnist ekkert við það að athuga, og ef fjmrh. er ekki ánægður, þá á hann bara að fara, því að ef þeir sætta sig við afgreiðslu fjárl. og sitja áfram, þá er það ekki nema viðurkenning af þeirra hálfu. Ef þetta er ekki viðurkennt, þá er þingræði líka óheilbrigt. Annað er ekki þingræði. Svo að það er rétt, sem hv. frsm. sagði, þegar hann bar hv. þm. Barð. það á brýn, að hann bæri ábyrgð á fjármálaástandinu. Það er alveg rétt, því að einmitt hann og hans flokkur — það er sökudólgurinn. Það þýðir ekki fyrir hann að koma hérna og kalla: Þjófur, þjófur, grípið þjófinn.

Viðvíkjandi því, að ráðh. Framsfl. hafi ekki viljað niðurskurð á útgjöldum umræddra fjárl., þegar um það var rætt, þá var það þó tvísýnt, áður en það var komið til, því að þetta var skorið meira niður til þessara mála í till. og frv. sjálfu heldur en til annarra útgjalda, sem heyrðu undir aðra ráðherra. En í annan stað voru útgjöldin þess eðlis, að mjög hafði verið deilt um þau á Alþ., því að þau voru mestmegnis til framkvæmda úti um land, úti í dreifbýlinu, en það er höfuðnauðsyn að fjárveitingavaldið í landinu stuðli að því að fyrirbyggja það misræmi, sem verið hefur á lífskjörum manna í dreifbýlinu og í kaupstöðunum, og koma þannig í veg fyrir fólksstrauminn úr sveitunum til bæjanna, sem orðinn er jafnægilegur og raun ber vitni, og er nú alveg kominn að því að sporðreisa þetta þjóðfélag, ef svo mætti að orði kveða. Þess vegna var engin ósanngirni í því að beita sér gegn niðurskurði á þessum útgjöldum til framkvæmda í dreifbýlinu, sem áður höfðu verið skorin niður.

En viðkomandi þessum málum er það þó höfuðatriðið, að það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að stjórna, en bera enga ábyrgð. Það er ekki hægt að samræma það þingræðishugtakinu. Það er ekki hægt að stjórna og segja svo, að aðrir beri ábyrgðina á því, hvernig stjórnað er, og það á að mótmæla því, þegar slíkt heyrist hér í þinginu, því að þeir, sem stjórna, þeir eiga líka að bera ábyrgð, en ekki að standa upp og kalla: Þjófur, þjófur. Eða getur hv. þm. bent á það tímabil, þegar við framsóknarmenn höfum haft fjármálaráðherrann, að við höfum sagt, að við bærum þá ekki ábyrgð á fjármálunum? Nei, hann getur það ekki, enda hefur okkur ekki dottið það í hug, og okkur dettur ekki í hug að neita því, að landbrh. beri ábyrgð á landbúnaðarmálum og menntmrh. á menntamálum, kemur það bara alls ekki til hugar. Þetta þekkist hvergi í heiminum, þar sem þingræði er viðurkennt. Hvernig ætli okkur þætti það t. d. hjá hinum Norðurlöndunum, ef fjmrh. stæði upp og form. fjvn. og segðu: Ég ber enga ábyrgð á fjármálunum. — En það mundi engum koma til hugar að gera þetta, hvorki í Danmörku né Svíþjóð, né heldur neinu öðru þingræðisríki. Það mundi aldrei koma fyrir.

Það er búið að grafa þingræðið nóg í sundur, svo að það yrði ófyrirgefanlegt, ef því væri ekki mótmælt, þegar einn þm. stendur hér upp til þess að segja, að ráðh. beri ekki ábyrgð á þeirri stjórnardeild, sem undir hann heyrir.