10.01.1950
Neðri deild: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það fór svo við 2. umr. þessa máls, að brtt. sú, sem ég var meðflm. að, um að tryggja bátaútveginum þetta lágmarksverð allt árið, svo framarlega sem ekki yrðu aðrar breyt. gerðar, eins og gert var ráð fyrir að hugsanlegt væri, var felld. Hins vegar var sett ákvæði inn í þetta frv. um ríkisábyrgð fyrir bátaútveginn, um að ábyrgjast kjötframleiðendum það, sem á kynni að vanta, svo að þeir fengju fyrir útflutt kjöt á tímabilinu 31. ág. 1949 til 1. sept. 1950 það verð, sem lagt er til grundvallar verðlagningu landbúnaðarvara. Það þykir sjálfsagt að slá því föstu á sama augnabliki, sem verið er í frv. um ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins að fella það að tryggja bátaútveginn allt árið, að ábyrgjast kjötframleiðendum, svo framarlega sem þeir kynnu að finna upp á því að flytja út kjöt, það, sem kynni að vanta á, að þeir fengju tilskilið verð í innanlandsviðskiptum. Það er sagt, að ekkert kjöt verði flutt út, en verði gengið fellt um 50% í næsta mánuði, með samkomulagi Framsfl. og Sjálfstfl., og kjöt síðan skammtað hér á landi, væri þá ekki hugsanlegt, að einhverjir fyndu upp á því að flytja út kjöt? Ætli framsóknarmönnum gæti ekki dottið slíkt í hug? Ég hef minnzt á þetta meðfram til gamans, til að sýna samræmið, sem er við meðferð þessara mála hér í þessari hv. d. Ég álít það mjög miður farið, að þetta skuli hafa verið afgreitt á þennan hátt, og yfirleitt allt, sem fram hefur komið við 2. umr,. málsins. Ég hef í raun og veru frekar en áður ástæðu til að óttast, að hin nýja leið, sem lagt verður inn á í febrúarmánuði n.k., verði mjög stórkostleg gengislækkun, sem meðal annars mundi hafa þær afleiðingar, ef um 30 til 50% gengislækkun yrði að ræða, að það minnkaði raunverulega kauptryggingu sjómanna, svo að maður tali ekki um kaup launþega í landi. Þegar verið er að tala um að tryggja útveginn og tryggja það, að menn fáist á skipin og að sjómenn og útgerðarmenn geti haldið skipum sínum úti allan tímann, þá er alveg fráleitt að afgreiða þessi mál svona. Ég gat þess við 2. umr. málsins, að ég mundi íhuga það, hvort ég ætti að koma með einhverjar till. um, að útgerðin yrði á einhvern hátt tryggð, hvað það snertir að geta fengið lán út á þessa ríkisábyrgð. Því var lýst yfir við 2. umr. málsins, að svo framarlega sem 14. gr. frv. yrði felld, þá yrði hætta á, að t.d. Landsbankinn liti öðruvísi á þetta mál. Við vitum, að bankastjórarnir gera ekki allt of mikið með ríkisábyrgð, og það hefði verið gott að fá upplýst, hvernig nú yrði litið á þetta af þeim, hvort útgerðinni verður lánað eins og hún þarf og hvort haldið yrði áfram að lána, jafnvel þó að hraðfrystihúsin gætu framleitt 27 þús. tonn af freðfiski, eins og reiknað er með nú. Ef bankarnir lána ekki út á slíkt magn, þá er aðeins um tvennt að ræða, annaðhvort að skylda þá til að lána eins og með þarf eða að gefa útflutninginn frjálsan og gjaldeyrinn fyrir hann, þegar ekki fengist lengur lán út á það, sem framleitt væri. Ekkert af þessu hefur fengizt rætt hér og ég sé ekki ástæðu til að koma með till., meðan allt útlit er fyrir það, að enginn möguleiki sé til þess að fá þingmeirihl. í Nd. til að afgreiða málið þannig, að séð sé fyrir fjárhagslegum grundvelli um leið og fiskábyrgðin er samþykkt. Ríkisstj. fæst ekki sjálf til að ræða efnahagslegan grundvöll fyrir allri þessari flskábyrgð, markaðsmálin. Sé það að fara út í kviksyndi að afgreiða málið án tekjuöflunar, þá er það að stofna öllum þjóðarbúskapnum í gjaldþrot að afgreiða þetta mál án þess að hafa meira fyrir sér en nú er viðvíkjandi markaðsmálum okkar. En ég veit, að þetta er talað fyrir daufum eyrum, og læt ég því útrætt um málið almennt.

Það fór svo, að till. hv. þm. V-Húnv. viðvíkjandi lýsinu var felld með jöfnum atkv. Ég hefði viljað fá ákvæði inn í þetta frv. um frjálsan gjaldeyri fyrir þessa svokölluðu frílistavöru, en einmitt á þann hátt, að útgerðarmenn fengju þennan gjaldeyri til mjög frjálsrar ráðstöfunar, og ég álít, að það hefði átt að taka lýsið þar með. Satt að segja treysti ég hinum einstöku útgerðarmönnum og þeirra samtökum til að fá betra verð fyrir hvaða vöru sem er — engin undanskilin — heldur en núverandi einokun. Ég treysti þeim, sem eiga sína hagsmuni undir því að koma ár sinni vel fyrir borð, að ná í betri markaði og betra verð fyrir framleiðslu sína, en núverandi ríkiseinokun hefur tekizt. Ég álít þess vegna, að á meðan ekki fæst stj., sem vinnur samvizkusamlega að því að skapa nýja markaði fyrir framleiðslu okkar, þá eigi að gefa þessa verzlun sem mest frjálsa. Því miður var þessi till. felld við 2. umr., en þá verður að freista þess, hvort ekki er hægt að koma einhverju í þessa átt inn í frv. í Ed., og fengi maður það þá aftur til umr. hér. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að lýsið, á hvern hátt sem það yrði, verði að fylgja þeim vörum, sem útgerðin fær frjálsan gjaldeyri fyrir, en annars væri rétt, eins og lagt hefur verið til, að ríkið tæki einnig ábyrgð á lýsisverðinu. Hins vegar mundi það auka nokkuð útgjöld ríkisins í þessu efni. Ég skal vekja athygli á því, að það verð, sem reiknað er með fyrir þorskalýsi, eftir því sem gefið er upp í fjhn., er 84 £ fyrir tonnið, og sama verði er nú reiknað með fyrir síldarlýsi. Þetta þýðir það, að hætt er að reikna með íslenzka þorskalýsinu sem vítamínvöru, sem framleidd er og seld vegna vítamínsmagns og meðalagildis, heldur er farið að selja það sem iðnaðarlýsi. Ég er sannarlega efins um þær ráðstafanir, sem liggja til grundvallar fyrir slíku, og þess vegna vantrúaður á, að ekki sé mögulegt að skapa betri og öruggari markaði fyrir þetta. En vert er að vekja athygli á þessu. Þessi vara er ein af þeim fáu, sem markaður er fyrir í Bandaríkjunum, og þetta er útreiðin, sem við fáum á þeim markaði. Sú reynsla, sem við höfum á möguleikunum þar með þá vöru, sem við höfum sérstaklega getað selt og er ein af okkar öruggustu dollaravörum.

Að síðustu vildi ég leyfa mér að flytja eina litla till. í sambandi við 14. gr. Það er gengið út frá því að fella niður f-lið 30. gr. l. nr. 100 frá 1948. Þetta mál var nokkuð rætt hér fyrir jólin, og komu þá brtt. frá mér og fleirum við þessa 30. gr., um ;að fella niður viðbótargjöld, sem greinir frá í d-lið og e-lið, þ.e.a.s. viðbótargjöld fyrir innflutningsleyfum af bifreiðavarahlutum og bifreiðavélum, hjólbörðum og slöngum. Þar sem ég veit, að það er mjög mikil þörf á, að þessi aukagjöld verði felld niður, en þau koma sérstaklega hart niður á vörubifreiðastjórum, sem nú búa við mikið atvinnuleysi, þá tel ég sanngjarnt, að það verði gert. Vil ég því leyfa. mér að leggja fram till. um, að niðurlag gr. hljóði svo, að á eftir orðunum „að undanteknum“ komi: d-, e- og f-liðum 30. gr. l. — Þessi brtt. er skrifleg og of seint fram komin, og vil ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.