16.03.1950
Efri deild: 74. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (3353)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég sé mér ekki annað fært, en að hrekja nokkuð af því, sem hefur nú komið fram í málinu, og einnig hygg ég, að það sé nauðsynlegt að fara nokkuð yfir málið almennt, því að langt er nú liðið síðan það var til 1. umr.

Forsaga þess er sú, að hér á Alþingi var farið að ræða um möguleikana á því, að menn gætu byggt ódýrari hús, en hér hafði þekkzt, vegna hins mikla húsnæðisskorts, sem þá var. Komu þá til umr. þessi sænsku timburhús, sem hægt væri að flytja inn í tilbúnum flekum. Var og mikið mælt með þessu af ýmsum hv. þm. N. var sett í málið, til þess að rannsaka, hve mikill ávinningur væri að þessu, og voru menn jafnframt hvattir til að kaupa þessi hús og flytja inn. En það kom í ljós, er farið var að athuga, að efnið í þessum húsum var alls ekki eins vel unnið og ætlað hafði verið og jafnvel mikið af því óunnið. En þrátt fyrir það var það sett í tollskrána undir unnið efni og tollur heimtur af þeim eftir því.

Svo var það litlu síðar og eftir að aðeins nokkur hús höfðu verið flutt inn, að sú heimild, sem hér um ræðir, var veitt og þar með samþ. að endurgreiða tollinn af þessum húsum. Þessi heimild var því að mestu leyti veitt fyrir fram, og í trausti þess, að hún yrði notuð, fluttu menn svo húsin inn. Það er nú kannske rétt að staldra svolítið við heimildina, því að mér hefur heyrzt á tveim hv. þm., að þeir teldu hana einskis verða. En ég vil geta þess, að almenningur lítur öðruvísi á það atriði. Þegar Alþingi samþykkir heimild til hæstv. ríkisstj., er og hefur almennt verið lítið svo á, að það sé sama og skipun frá Alþingi til ríkisstjórnar. En um það, hvort þessi skilningur sé réttur, mun nú atkvgr. í hv. d. skera úr. En sem sagt, strax í byrjun er það ákveðið af Alþingi, að ríkisstj. skyldi endurgreiða þennan toll. Þeir tveir hv. þm., sem talað hafa hér á móti málinu, hafa mikið lagt upp úr því, að þessi endurgreiðsla á tollinum sé talin svo ósanngjörn, að þess vegna komi hún ekki til greina. En í bréfi því frá tollstjóra, sem hv. þm. Barð. var að lesa upp úr máli sínu til stuðnings, koma hvergi fram þau gögn, sem geri það óeðlilegt að endurgreiða þetta. Hitt liggur fyrir, að skýrslusöfnun um málið er fyrst framkvæmanleg, þegar lög sem þessi hafa verið samþ.

Um það, hve mikið falli í hlut hvers manns af þessu, var rætt hér við 1. umr. Nú segir hv. 11. landsk., að það muni verða 20, 30 eða jafnvel 40 þús., en ég vil upplýsa hv. þm. um, að það verða aðeins 7–8 þús. kr. Ég vil einnig upplýsa; að margir þessara manna hafa orðið að taka stór og þungbær lán, og þótt peningamennirnir telji þessa endurgreiðslu á tollinum ekki miklu varða fyrir hvern einstakan, þá er það nú svo, að þeir binda við hana miklar vonir.

Um störf n. vil ég segja það, að hún komst fljótt að þeirri niðurstöðu, að þessi hús mundu ekki verða eins góð og þetta eins mikil happakaup og sagt hafði verið, en hæstv. þáv. ríkisstjórn gerði ekkert til þess að stöðva innflutning húsanna þrátt fyrir þessa niðurstöðu nefndarinnar. Má því segja, að hún hafi með því bundið sér nokkurn siðferðislegan bagga. — Ég vil svo undirstrika það, sem hv. fyrri þm. Eyf. sagði viðvíkjandi ræðum þeirra hv. 11. landsk. og hv. þm. Barð. Einnig vil ég undirstrika, að hér er um að ræða greiðslu, sem mennirnir, er keyptu húsin, áttu ekki von á að þurfa að greiða og Alþingi hefur lofað að endurgreiða, og því loforði munu þeir treysta, þótt seint sé orðið, þar til annað kemur fram. Ég vil og taka það fram, að það voru fleiri en eigendur húsanna, sem töldu fyrrgreinda heimild vera loforð af hálfu Alþingis. Það gerðu einnig nokkrir hv. þm. í Sþ., er þeir gerðu þá grein fyrir atkv. sínu, þegar það kom til atkv. við fjárlagaumr. að setja þessa heimild á heimildargrein fjárlaganna, að þeir teldu þessa heimild þegar vera fyrir hendi. Þeirra skilningur var sá sami og almennings, að undirrituð áskorun rúml. 30 þm. væri heimild, sem bæri að framkvæma, og vona ég, að sá skilningur verði framvegis lagður í heimildarsamþ. Alþingis, eins og hingað til.