20.03.1950
Efri deild: 79. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (3356)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja umr. mikið, en vil þó aðeins svara nokkru af því, sem kom fram við umr. síðast. Frsm. n., hv. fyrri þm. Eyf., skipti umr. um málið í tvo kafla. Annar kaflinn var ádeila á meiri hl. fjhn., en hinn efnislegar umr. um málið. Ég vil nú benda á, að málið var aðeins tekið fyrir á tveimur fundum í n. Annar þeirra var haldinn 13. jan. og þá engin ákvörðun tekin, hvorki efnislega um málið né ákveðið að senda það til umsagnar ákveðinna aðila. Nú er það hins vegar ljóst, að þegar um svo mikið fjárhagslegt atriði er að ræða eins og í þessu máli, hefði verið eðlilegt og sjálfsagt að senda það til umsagnar ákveðinna aðila, t. d. þáv. fjmrh., en ekkert slíkt var þó gert. Og sérstaklega hefði verið nauðsynlegt að ræða þetta mál og afgreiða ásamt þrem öðrum skyldum málum, sem tvinnast öll saman, en það eru, eins og ég hef áður tekið fram, endurgreiðsla á tollum af Svíþjóðarbátunum, endurgreiðsla á tollum til þeirra, sem byggðu bátana innanlands, og greiðsla vegna rýrnunar á saltfiski 1947. Öll þessi mál voru rædd sameiginlega í fjvn. á sínum tíma, og var það gert vegna þess, að ekki þótti fært að gera efnislega upp á milli þeirra og slíta þau í sundur. Síðan er málið tekið aftur fyrir í n. 28. febr., og voru þá aðeins mættir þrír hv. nefndarmenn, en einn þeirra vildi ekki að svo komnu máli taka afstöðu til málsins. Þessi afgreiðsla er slík, að mér finnst hún, vægast sagt, mjög ólík hæstv. forseta, jafnábyrgum manni og honum, að hann skuli leyfa sér að afgreiða þetta mál alveg óupplýst með aðeins þrem mönnum mættum á fundi og gefa síðan út nál., sem er, eins og hæstv. forseti segir sjálfur, aðeins byggt á einhverju loforði, sem Alþingi á að hafa gefið á sínum tíma. Ég hef hér aðeins dregið fram staðreyndir, en er ekki að ásaka hv. fjhn. fyrir vinnubrögð hennar yfirleitt.

Þá vil ég víkja efnislega að málinu. Hv. þm. sagði, að þegar hann hefði skrifað upp á víxil, þá vildi hann standa við sínar skuldbindingar, og hér hefði Alþingi skrifað upp á víxil, sem því væri skylt að láta greiða. Þetta tel ég vera algeran misskilning hjá hv. þm. Alþingi hefur aðeins heimilað ríkisstj. að greiða þetta, og ríkisstj. hefði bakað sér ábyrgð, ef hún hefði greitt þetta í heimildarleysi. En með heimildarsamþ. á Alþingi var því aðeins skotið til ríkisstj. til athugunar, hvort hún teldi fært að greiða þetta eða ekki. Af þessum ástæðum er það alveg rangt, að Alþingi hafi skrifað upp á nokkurn víxil. Eftir að heimildin hafði verið samþ. á Alþingi, var þetta athugað af hæstv. ráðh., og þótti honum ekki ástæða vera til að greiða þetta. Nú er það vitað, að ráðh. taka það alltaf á sig að gera eitthvað eða láta vera að gera það. Vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis geta þeir svo bakað sér ábyrgð, sem getur orðið til þess, að þeim er vikið úr stöðunni eða jafnvel dregnir fyrir landsdóm. Ef nú hlutaðeigendur væru þeirrar skoðunar, að hér hefði verið gefið loforð, sem ríkisstj. hefði svo svikið, gætu þeir hafið mál á hendur fyrrv. ríkisstj. eða einstökum ráðh. og sótt rétt sinn hina lagalegu leið. En þeir mundu bara tapa málinu, og það vita þeir, vegna þess að Alþingi hefur aldrei skrifað upp á neinn víxil fyrir þá. Þetta ættu hv. þm. einnig að vita og þá ekki sízt hv. 8. þm. Reykv., sem er lögfræðingur. Það eru því alröng rök, sem hv. fyrri þm. Eyf. byggir afstöðu sína til málsins á. Þá sagði hv. þm., að hvort sem Alþingi á sínum tíma hefði gert rétt eða rangt, þá ætti það að standa við skuldbindingar sínar, og minntist í því sambandi á það, sem ég hefði sagt um benzínskattinn. En ég talaði bara aldrei um benzínskatt, heldur um skattalöggjöfina, og er hún að vissu leyti mjög hliðstæð þessu. Hvað er það t. d. annað en að svíkja gefin loforð skattþegnunum til handa, þegar Alþingi s. l. 1augardag samþ. lög, sem skipa fyrir um nýjar skattaálögur? Slíkar ráðstafanir hefur hv. frsm. verið með í að samþ. svo til á hverju þingi, og ætti það því ekki að koma við neina kviku í honum, þótt dregið væri nú til baka eitthvað, sem gefin hafa verið hálfgildings loforð um eða minna en það. En þá, sem ekki hafa dregið undan skatti og safnað fé eða eignum, þrátt fyrir hin ströngu skattaákvæði, þá menn svíkur nú Alþingi með því að taka stórkostlegan skatt af fé því, sem þeir hafa safnað, en hefðu kannske ekki gert, ef þeir hefðu vitað um skattaákvæði 1950. Það eru því ekki rétt rök, sem hv. þm. færir máli sínu til stuðnings, og hlýtur eitthvað annað en þetta að valda fylgi hans við það.

Ég vil þá koma örlítið að því, sem hv. flm. sagði. Hv. þm. sagði það vera forsögu þessa máls, að menn hefðu farið að leita fyrir sér um að fá ódýrari hús en til þess tíma höfðu tíðkazt. Þetta má vel vera rétt. En sannleikurinn er sá, að málið var ekki undirbúið sem skyldi og því þrykkt í gegnum þingið mest óathuguðu. Á þetta var m. a. bent allrækilega bæði af mér og öðrum á þeim tíma, sem töldum vera af þessu mjög vafasaman hagnað. Ég vil benda á, að það að byggja á annað hundrað timburhús í einum hnapp hlýtur að auka brunahættuna í bænum og þar með hækka brunatryggingagjöldin ekki einungis af þessum húseignum, heldur af öllum húseignum í bænum. Svo það eru ekki eigendur sænsku húsanna einir, sem ættu að fá endurgreiðsluna í sinn hlut, ef út á þá braut væri farið. Þetta kom einmitt í ljós, þegar n. athugaði málið. Það var því frá þjóðhagslegu sjónarmiði rangt og fyrir fólkið sjálft óhagstætt að kaupa þessi hús. Hv. flm. segir, að það hafi örvað innflutninginn, að þessi heimild var veitt. En þetta er rangt, því að það var búið að panta húsin og flytja þau flest inn, þegar fyrrgreind heimild var veitt. Ég vil nú spyrja í sambandi við þetta, hvernig hugsar flm. sér, að önnur gr. frv. verði framkvæmd? Þar segir með leyfi hæstv. forseta: „Þeir, sem eru eigendur húsanna, þegar lög þessi öðlast gildi, skulu fá tollendurgreiðsluna.“ En hvað um þá menn; sem fluttu húsin inn, en eru búnir að selja þau? Er það ætlun hv. flm., að öll upphæðin, 800 þús. kr., eigi að skiptast milli þeirra, sem í upphafi fluttu húsin inn og eiga þau enn, svo að hlutur þeirra hækki hlutfallslega, eða er það ætlunin, að upphæðin skiptist jafnt á öll húsin? Hvað eru þá mörg hús seld, og er ætlazt til að endurgreiða toll af þeim líka? 2. gr. segir ekkert um það. Ef ekki á að endurgreiða tollinn þeim mönnum sem hafa selt húsin, af því að þeir hafa selt þau fyrir hærra verð, þá er sjáanlegt, að þeir, sem eiga húsin, hafa meira verðmæti. Það er óhætt að ákveða með 2. gr. að greiða eingöngu fé til þeirra manna, sem nú eiga húsin, en ekki til þeirra, sem hafa selt þau. Ég held, að það sé ekki ástæða til að endurgreiða tollinn, en ef hann er endurgreiddur, þá held ég, að það sé sjálfsagt að endurgreiða hann öllum, líka þeim, sem hafa selt, og ef hv. flm. ekki neitar því, þá viðurkennir hann, að húsin séu meira verðmæti heldur en þau kostuðu, sem er alveg rétt, og þess vegna er engin ástæða til að endurgreiða tollinn, vegna þess að þessir menn, þrátt fyrir þennan toll, hafa meira verðmæti í höndunum í dag heldur en þeir höfðu áður.

Hv. þm. spurði, hvers virði þessi heimild væri, og vildi láta líta svo út sem hér sé ekki um það að ræða, hvort eigi að greiða þessum mönnum tollinn, heldur hvort Alþ. eigi að standa við sín loforð. Ég get upplýst, að þessi heimild er þess virði sem hver ríkisstj. metur hana. Það er ekkert nýtt, að heimild hafi fallið niður og ekki verið notuð, af því að viðkomandi aðili hefur ekki viljað bæta því á ríkissjóðinn. Ég veit ekki betur, en að á þessu ári hafi verið heimild til að greiða öll áfallin sjóveð báta frá síðustu síldarvertið, en það er ekki farið að greiða einn eyri. Heimild er einskis virði, ef ríkissjóður hefur ekki fé, en ef það er sett inn í l., eins og hér á að gera, þá er það allt annað atriði, því að þá er það skuldbinding og hægt að taka fjármuni ríkissjóðs og selja á uppboði. Það er sá reginmunur á heimild og lagafyrirmælum, og þarf ég ekki að taka hv. flm. í svona barnatíma, sem er nýlega komin frá lagaskólanum. Nú hefði ég hugsað, ef á að samþ. frv., að það þyrfti að breyta 1. gr., að það sé ekki ríkisstj., heldur ríkissjóður, sem á að greiða þetta, nema hv. flm. ætlist til, að núv. ríkisstj. greiði það af sínum tekjum, og þykir mér merkilegt, að form. fjhn. skuli ekki hafa athugað þetta atriði, því að sjálfsagt er ekki ætlazt til, að ríkisstj. greiði þetta úr sínum vasa.

Þá er upplýst, að þessi upphæð muni nema 7.000 kr. á hvert hús. Ég verð að segja: getur það verið rétt hjá hv. flm., að þeir, sem byggðu þessi hús, komist í óskaplegan vanda í sambandi við byggingu húsanna, þó að þeir fengju ekki þessar 7.000 kr.? Því að 7.000 kr. er ekki nema lítið brot af þessum 300.000 kr., sem húsin kostuðu. Hér fer eitthvað á milli mála, hafi það skapað þeim óskaplegt fjárhagslegt tjón að fá ekki þessar 7000 kr. Það getur ekki verið afgerandi fyrir viðkomandi aðila, hvort hann fær þessar 7000 kr., svo það þarf ekki að leggja kapp á málið af þeim ástæðum, og þá sérstaklega þegar nú er svo komið, að margir af þessum mönnum hafa selt húsin fyrir hærra verð, en sem nemur 7000 kr. álagi, sem hér um ræðir.

Ég vil líka leyfa mér að benda á, að þegar þetta var til umr. í sameinuðu þingi við afgreiðslu fjárl. 1948, þá bar hv. 1. þm. N-M. (PZ) fram till. við 22. gr. fjárl., sem hljóðar þannig: „Að endurgreiða á árinu toll af sænskum timburhúsum samkvæmt heimild í lögum nr. 44 frá 1946, ef fært þykir vegna tekna ríkissjóðs.“ Þessi hv. þm., sem ekki hefur klipið úr kröfum sínum á ríkissjóð, þegar hann hefur ekki beint borið ábyrgð á afgreiðslu fjárl., tekur hér fram, að þetta skuli gert, ef fært þyki vegna tekna ríkissjóðs. Hvernig er svo farið með þetta mál? Það er fellt með 22:22 atkv. Ég held, að hv. þm. hafi sagt, að margir þm. hafi ekki verið á fundi, en 44 taka þátt í atkvgr., 5 greiða ekki atkv. og 3 eru fjarverandi. Nú er það svo, að af þessum mönnum eru nú 3 ekki á þingi, sem sögðu já, og 4 ekki á þingi, sem sögðu nei, það er öll sú breyt., sem orðið hefur síðan. En þessir menn, sem greiddu atkv. þá, vildu ekki einu sinni endurnýja þessa heimild, þó búið væri að breyta henni í það horf að gera þetta, „ef fært þykir vegna tekna ríkissjóðs,“ og það er m. a. vegna þess, að þá lá skýrt fyrir, hver hætta þetta var fyrir ríkissjóð vegna hins málsins, og eins hitt, að á þessum tíma hafði þáv. fjmrh. svo skýrlega rakið, hvers vegna hann notaði ekki heimildina.

Ég lét þau orð falla um daginn, að svo framarlega sem þetta frv. yrði samþ., þá teldi ég óhjákvæmilegt að bera fram brtt. við frv., þannig að inn væri einnig tekið að endurgreiða tollinn af Svíþjóðarbátunum og auk þess einnig tekið inn að endurgreiða það tjón, sem skipasmiðir hefðu á sínum tíma orðið fyrir í sambandi við samninga, sem þeir gerðu við ríkisstj., sem brugðust vegna þess, að ríkisstofnun dró þessa menn allt of lengi á þeim leyfum, sem nauðsynleg voru til að uppfylla samningana, og í þriðja lagi, að það væri nauðsynlegt að setja inn í frv., að ríkissjóður endurgreiði allt það tap, sem saltfiskframleiðendur hafa orðið fyrir á árinu 1947, á sama hátt og ríkissjóður endurgreiddi það 1948.

Ég vil mælast til þess, af því mér skilst á þessum umr., að þetta mál eigi fylgi til að vera afgr., að hæstv. forseti fresti þessari umr. og gefi mér tækifæri til að bera þessar till. fram, og skal ég þá koma þeim strax inn, því að mér þætti eðlilegra, að þær kæmu strax til atkv. við þessa umr. heldur en það biði til 3. umr. Ég þarf að geta skýrt nákvæmlega frá því, hver muni verða kostnaður ríkissjóðs í sambandi við þessar till., og þess vegna vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann frestaði umr., svo að mér gæfist tími til að athuga þetta. Ég hygg, að hver till. mundi þýða nokkuð á aðra millj. króna útgjöld. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða meira um málið og mun ekki taka til máls aftur, nema sérstakt tilefni gefist til