18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3365)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs fyrir alllöngu við fyrri hluta þessarar umr., og voru það ummæli hv. flm., sem tilefnið gáfu, en nú man ég ekki lengur þessi ummæli, þó að þau kunni að hafa verið mjög mikilvæg, og mun það kannske vera svo um fleiri. Að því leyti get ég því látið vera að lengja mál mitt með því að vera að elta ólar við þau. Ég vil taka það fram, að hjá hv. flm. kom fram sá megni misskilningur, að hann áleit, að vegna þess að leitt hefði verið heimild til þess að endurgreiða tolla af þessum húsum, þá væri þar með lögð skylda á ríkissjóð að borga þetta. Nú er það vitað, að margir af þeim, sem greiddu þessari heimild atkv., gerðu það eingöngu vegna þess, að hér var um heimild að ræða, en hefðu hins vegar ekki viljað leggja ákveðna skyldu á ríkissjóð í þessu máli vegna fjárhagsástæðna, og það var einmitt vegna þess, hve ótryggt málið var, að heimildarformið var notað, en ekki lögð greiðsluskylda á ríkissjóð. Þetta sýnir, að það fer víðs fjarri, að einstaklingar þeir, sem hér áttu hlut að máli; hafi orðið fyrir neinni brigðmælgi af hálfu hins opinbera, því að það fékkst aldrei neitt loforð fyrir þessari endurgreiðslu, og vegna þeirra breytinga, sem síðar hafa orðið, er enn síður ástæða til þess að veita þeim þennan styrk nú, og auk þess má segja, hvort heldur sem húsin verða talin hagkvæm eða ekki og þó fullyrða megi, að sumir af kaupendum húsanna hafi verið helzt til of ginntir af innflytjendum þeirra, þá hafa síðari atburðir gert það að verkum, að miðað við núverandi verðlag eru þessi hús tiltölulega ódýr og eigendur þeirra sízt verr farnir heldur en aðrir húseigendur, og þar sem Alþingi fékkst aldrei til þess að gefa loforð um þetta á sinum tíma, finnst mér ekki ástæða til þess að greiða þessu frv. atkvæði, þar sem það hefur verið hæpið mál allt frá byrjun. Auk þess er rétt og eðlilegt að gefa hæstv. fjmrh. kost á því að láta í ljós, hvort hann álítur, að hægt sé að bæta þessum greiðslum inn á fjárlögin, en það er enn fremur vitanlegt, að ef þetta verður samþ., þá muni einnig koma til annarra greiðslna, sem sízt minni ástæða er til, og hefur hv. þm. Barð. komið með brtt. um það, en hv. þm. Vestm. einnig bent á nokkur atriði. Má einnig í því sambandi benda á fleiri hliðstæð atriði, og mun það verða gert, ef málið heldur áfram til 3. umr. Ég vil til dæmis minna á það gífurlega tap, sem Sveinbjörn Kristjánsson varð fyrir vegna byggingar rannsóknarstöðvarinnar á Keldum, en þar stendur svo á, að ríkissjóður hefur fengið aukastyrk frá Rockefellerstofnuninni, vegna þess að hlutur ríkisins reyndist dýrari, en í upphafi hafði verið gert ráð fyrir. Hins vegar hefur ríkið ekki viljað viðurkenna sams konar rétt til handa Sveinbirni Kristjánssyni, og hefði það þó átt að vera augljóst, að einstaklingur mundi ekki síður þurfa aukinn styrk heldur en ríkið. En þessu hefur verið neitað og það byggt á samningi. Þetta er lögfræðilega rétt, og viðkomandi á ekki rétt á endurkröfu, en ef það á að fara inn á þá braut að endurgreiða tolla þá, sem hér er farið fram á í frv., jafnfráleitt og það nú er, þá verður heldur ekki staðið á móti þeim kröfum hliðstæðum, sem nefndar hafa verið. Þannig held ég, að nægileg dæmi muni koma upp, ef frv. á sér lengri lífdaga heldur en þessa 2. umr.

Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál lengur núna, því að það er svo langt um liðið síðan fyrri hl. umr. fór fram, og nenni ég því ekki að vera að elta ólar við hv. flm. nú, eins og ástæða hefði verið til, ef það hefði verið gert í beinu framhaldi af ummælum hans.