06.05.1950
Efri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (3417)

129. mál, kaup á ítökum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. þetta og sent það Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar. Búnaðarfélagið hefur sent n. umsögn og bendir á, að svo gæti farið, að það sá meira virði fyrir jörð að fá að halda ítaki, en fyrir jörðina, sem það er úr, að kaupa það aftur, og gæti því verið rangt að selja ítakið. N. hefur fallizt á þetta og flutt um það brtt. á þskj. 637. — Þá leggur n. til, að framan við frv. komi ný grein, þar sem skilgreint er, hvað ítak sé. Ekki er þessi skilgreining þó tæmandi, en nærri mun láta, að svo sé. Þó munu vera einhver ítök, sem þar eru ekki talin. — Þá þótti réttara að breyta niðurlagi 3. gr., svo að ekki leiki á því vafi, hvernig fara á með ítök skv. 2. gr. Það á að fara með þau mál eins og landamerkjamál, og kemur það skýrt fram í brtt. n. — Loks leggur n. til eftir ábendingum Búnaðarfélags Íslands, að inn í frv. komi ný gr. um það, að þegar ítakseigandi lítur svo á, að missir ítaksins skerði verulega aðstöðu til búrekstrar á jörðinni og hann mótmælir sölunni, þá sé ekki skylt að selja það, nema tveir dómkvaddir menn telji, að ítakið komi að betri notum með því heldur, en liggja áfram undir jörðina, sem hefur nýtt það. Kostnaður við það mat skal greiðast af þeim aðila, sem matsins óskar. Með þessum breytingum vænti ég að frv. verði samþ. hér í hv. d., þótt ég geri ekki ráð fyrir, að það verði að l. á þessu þingi.