09.05.1950
Efri deild: 103. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (3444)

158. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Eiríkur Einarsson:

Ég var fjarri, síðast þegar þetta mál var rætt, og hefur mér verið bent á, að mér bæri skylda til að bera vitni um afstöðu mína í þessu máli. Það er ekki langt frá að segja, að það var komið með vélritað skjal, sem hv. form. landbn. kom með og afhenti mér það vingjarnlega. Ég kinkaði mínum gráa kolli til samþykkis, að ég hefði móttekið það, en hef þar hvorki neinu að játa né neita. Annars verð ég að segja það, að hann var greiður í spori, formaðurinn, eins og viljugur foli, þegar hann lagði þetta fram, og hann hefur sjálfsagt gert það í trausti þess, að nm. samþ. það, og munu að því leyti geta valdið misskilningi þessar tiltektir hans. En ef ríkisstj. eða Búnaðarfélag Íslands beiðast þess, að mál sé borið fram, finnst mér hart að verða ekki við því að bera það fram, hvort sem ég er með því eða móti. Búnaðarfélagið er svo virðuleg stofnun, að mér finnst, að það megi að þessu leyti njóta sömu virðingar og hæstv. ríkisstj. En það er ekki farið að ræða málið enn, svo að hér er bara um form að ræða.

Svo vil ég ekki lengja frekar umr. um málið.