11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmnrh. (Jóhann Jósefsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir fljóta afgreiðslu málsins. Það var ekki hægt að ætlast til þess, að n. hefði skjótari vinnubrögð, en eftir atvikum tel ég það vel farið, að n. hefur sýnt svo einlægan vilja í því að leiða mál þetta til lykta sem fram hefur komið. — Um aðalatriði málsins skal ég ekki ræða hér. Ég tók það fram í framsöguræðu í öndverðu, hvað til grundvallar lægi, að þetta væri fram borið sem bráðabirgðalausn, sem ekki mætti dvelja. Ég heyrði það á framsöguræðu hv. 1. þm. Eyf., að við erum sammála í því efni, og ég tók enn fremur eftir því, að þm. tók það fram, að því er mér virtist sem sína skoðun, að hann teldi, að alveg væri bráðnauðsynlegt að reyna að hverfa af þeirri braut, sem Alþ. hefur hingað til neyðzt til að ganga í þessum efnum, og að nauðsynin væri brýn fyrir því, að áður en þetta tímabil er liðið, sem nefnt er í frv., fram að 1. marz, verði náð samkomulagi um varanlega lausn fyrir bátaútveginn og fyrir annan útveg og útflutning og útflutningsframleiðslu, og er það í fullu samræmi við það, sem ríkisstj. hefur haldið fram og vill stefna að. — Þá verður því enn fremur ekki móti mælt, að það er hverju orði sannara, sem hv. frsm. tók fram um þann fjárhagsgrundvöll, sem fyrir liggur, að það vægasta, sem um hann er hægt að segja, er það, að hann sé mjög veikur, og tel ég ekki undarlegt, að einmitt hv. frsm. fjhn. þessarar d. líti með raunsæi á þau mál. Þá lýsti hv. frsm. enn fremur því, í hvaða voða hann teldi málefni þjóðarinnar hvað þessi mál snertir, og það mundi hafa áhrif á svo að segja alla efnahagslega byggingu okkar, ef ekki tækist innan skamms tíma að ná fram heildarátaki til þess að finna aðra og heppilegri lausn, en hér liggur fyrir. Í þessum atriðum öllum er ég, og ég þori að segja ríkisstj. öll, mjög sammála hv. frsm. fjhn.

Ég skal ekki að óreyndu efna hér til neinna málalenginga um þetta frv. og vil þá vona, að þetta mál fái þá afgreiðslu, núna áður en þessi dagur er með öllu liðinn, sem Alþ. þykir hlýða, því að það er betra fyrir bátaútveginn og þá, sem að honum standa, að fá að vita hið fyrsta vissu sína í þessum efnum, heldur en að bíða lengi í óvissu eftir ákvörðun Alþ. — Ég segi eins og hv. frsm., að því er snertir brtt., sem hér liggja fyrir, að ég skal ekki að svo komnu gera þær sérstaklega að umræðuefni, þar sem ekki hefur verið fyrir þeim talað. Ég lýsti því nokkuð í öndverðu, að mér hefði ekki þótt ákvæðið um sérstaka kreppuhjálp fyrir síldarflotann eiga heima í þessu frv., en það er nú komið þarna inn og búið við, að það sitji þar áfram, úr því sem komið er. — Aðrar brtt. vil ég fyrir mitt leyti ekki gera að umtalsefni að svo komnu. Ég geri ráð fyrir, að fáar þeirra muni verða að stórfelldu umræðuefni í d., og vona, að atkvæði geti á sínum tíma skorið úr um, hvað hv. d. þykir rétt að láta verða ofan á, að því er þetta mál snertir. Í rauninni hefði ég talið, að heppilegast hefði verið, að þetta mál hefði getað komizt út úr þessari d. án breyt., því að ef það þarf að fara aftur til Nd., þá veldur það nokkrum töfum og alltaf óvissa yfir því, hvað fram kann að koma af nýjum brtt., ef farið er að senda málið milli deilda. En það er vitaskuld á valdi þessarar hv. d. að ráða því, og verður ekki um sakazt, hversu sem fer, og mun ég því að svo mæltu bíða átekta.