04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3745)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér virðist sem hv. flm. þessarar till. leggi allt kapp á að fá mig til þess að vera á móti till., en ekkert af því, sem ég hef sagt um málið, er hægt að leggja þannig út. Hins vegar hef ég nefnt þá örðugleika, sem eru á framkvæmd málsins, og ég rakti forsögu þess, og sjálfur á ég nokkra forsögu í þessu máli, því að á sínum tíma var það ég, sem í síldarútvegsnefnd hafði forgöngu í því, að sem mest yrði smíðað hér af tunnum, og það var áður en þessi hv. þm. var farinn að hreyfa sig í þessu máli, og ég tek því ekki þegjandi, þegar því er slegið fram, að ég sé á móti málinu.

Viðvíkjandi verðinu, þá er alveg rétt það dæmi, sem ég tók, því að í haust áttu Vestmannaeyingar kost á að fá frá Þýzkalandi tunnur, sem voru 4–5 sinnum ódýrari en hinar íslenzku. Þetta stendur því óhrakið. En það eru býsna margir, sem hafa orðið að súpa seyðið af því að kaupa þessar dýru tunnur og flytja þær hingað suður, og ríkisstj. beitti sér fyrir því í haust, óbeðin af þessum hv. þm., að þrýsta niður flutningskostnaði á tunnum með skipum Eimskipafélags Íslands.

Í þessu máli — sem svo mörgum öðrum tjáir ekki að ræða eingöngu það, sem er æskilegt, heldur það sem er, og það, sem er hægt að gera, og það mun koma í ljós, hvað sem hv. þm. segir, að kvartað hefur verið yfir bæði verði og gæðum þessara íslenzku tunna. Það er vissulega æskilegt, að við gætum búið til sjálfir allar þær tunnur, sem við þurfum að nota, en eins og nú er háttað markaðsmálum okkar, þá þolir atvinnuvegurinn ekki að kaupa miklu dýrari tunnur hér en hægt er að fá erlendis. En við skulum vona, að það markmið náist, sem síldarútvegsnefnd vildi veita sinn stuðning til, það markmið, sem fyrrv. atvmrh. einnig vildi ná, að hægt sé að búa til hér þær tunnur, sem við þurfum, þannig að allir geti vel við unað. En til þess, að svo megi verða, þarf margt og mikið að breytast frá því, sem nú er.