26.04.1950
Sameinað þing: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3844)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef lagt fram brtt. á þskj. 563. Er þar lagt til, að till. orðist þannig, að Alþingi feli ríkisstj. að sjá um, að eigi verði byggt á svæði því, sem er á milli Þingholtsstrætis og Garðastrætis, hafnarinnar og tjarnarinnar í Reykjavík, fyrr en Alþingi og Reykjavíkurbæ ásamt þeim öðrum aðilum, auk skipulagsnefndar, er kvaddir yrðu til að fjalla um málið, hefur unnizt tími til að taka ákvarðanir um, hvernig haga skuli byggð á þessu svæði með tilliti til sögulegra minja þess og fegurðar- og menningargildis þess fyrir framtíðina.

Ég kom nokkuð inn á það við fyrri umr. þessa máls, hvaða ástæður væru til þess, að Alþingi ætti að láta þetta til sín taka, hvernig færi með byggingar á þessu svæði. Mér sýnist, að þær umr., sem farið hafa fram um þessa þáltill., gefi nokkurt tilefni til að vona, að það væri hægt að fá hér á þingi nokkra ákvörðun, sem mætti verða til góðs um byggingar á þessu svæði. Ég man ekki eftir, að hér hafi farið fram umr., sem hafi falið í sér tilfinningu fyrir þeim minjum, sem þetta svæði hefur að geyma. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur einmitt nú á þessu ári að taka ákvörðun í þessu efni, ef á að gera það á annað borð. Nú á næstu árum verður faríð að byggja á þessu svæði stórar og voldugar byggingar, sem mönnum mun vafalaust finnast of mikið í lagt að rífa síðar meir með tilliti til þess að byggja á svæðinu öðruvísi. Á næstu árum kemur þessi gamli miðbær til með að verða byggður með stórum, voldugum verzlunarbyggingum. Þar eru dýrustu lóðir í bænum, og ýmis voldug fyrirtæki hugsa sér að byggja þar mikil hús, svo að miðbærinn verður yfirbyggður af nýtízku húsum, fjögurra til sex hæða og óhugsandi að rútta þeim burt síðar. Ég hef minnzt á það áður, að þegar slík stórhýsi rísa upp allt í kringum dómkirkjuna og alþingishúsið, sem mega heita einu minjarnar um þá gömlu Reykjavík, þá liti þessi hús út eins og kofar, og ég vil undirstrika það, hvað þessar byggingar verða litlar og fátæklegar samanborið við þessar miklu byggingar, sem þarna munu rísa upp. Allur miðbærinn mundi fá á sig sama svipinn og Austurstræti hefur nú, svip kaupsýslunnar, en allt þurrkast út, sem minnir á hinar sögulegu minjar og hina þúsund ára sögu þessarar byggðar.

Ef við ætlum að hindra þessa breytingu, verðum við að stinga fótum við strax. Það, sem hér togast á, er annars vegar kaupsýslusjónarmiðið, en hins vegar ræktin við okkar sögulegu minjar. Ef við látum kaupsýslusjónarmiðið ráða, kemur það til með að setja sinn svip á allan miðbæinn. Hver Íslendingur, sem kemur hingað utan af landi, sér þá það, sem kaupsýslan hefur sett mark sitt á. Miðbærinn hefur ekki verið enn þá byggður nema að litlu leyti. Þess vegna er enn tími til að stinga fótum við og stjórna byggingum hér í miðbænum út frá því sjónarmiði, hvernig við eigum að skila honum til ókomna tímans, þannig að hann verði sem fegurstur og við sýnum sem mesta ræktarsemi gagnvart okkar sögu. Við höfum alltaf verið að bíða lægri hlut í þessum átökum milli kaupsýslunnar og ræktarseminnar við okkar sögu. Það er táknrænt, að einu af húsunum, sem næst á eftir menntaskólanum var mest tengt Jóni Sigurðssyni, var öllu breytt, rifið allt innan úr því og því breytt vegna kaupsýslusjónarmiðsins. Sama er að segja um hús, sem Sigurður Breiðfjörð bjó í. Á sama tíma og við erum að grafa upp bæ Ingólfs, þá látum við okkur standa á sama um minjar frá fyrri hluta 19. aldar, sem síðar meir verða eins mikils virði og minjarnar um Ingólf Arnarson. Á skipulagsuppdrætti Reykjavíkur eru þurrkuð út gömlu timburhúsin við Tjarnargötu, einhver fallegustu hús frá fyrri tímanum í þeim stíl. Við verðum að gera okkur ljóst, að ef við ætlum að verða metnir eins og við höfum verið metnir erlendis, ef við viljum vera metnir sem söguþjóð, þá eigum við að sýna meiri rækt við að varðveita þær fornu minjar, sem hér eru enn þá. 19. öldin er eitt merkasta tímabilið í okkar sögu, ekki sízt síðari hluti hennar, og við verðum að gera það, sem við getum, til að varðveita sögulegar minjar frá þessu tímabili. Þegar Alþingi var endurreist, voru átök um það, hvort Alþingi hið nýja skyldi vera á Þingvöllum eða í Reykjavík. Þá var barizt á móti því af hálfu okkar rómantísku skálda, að Alþingi yrði í Reykjavík, vegna þess að Reykjavík væri hálfdanskur bær. Jón Sigurðsson beitti sér fyrir því, að Alþingi yrði sett í Reykjavík, vegna þess að hann sagði: Við gerum Reykjavík að íslenzkum bæ. — Þetta tókst. Við, sem nú sitjum á Alþingi, getum með löggjöf haft áhrif á, hvernig bærinn er byggður, og okkur ber skylda til að gera það, sem unnt er, til að varðveittar verði þær sögulegu minjar, sem hér eru, og Reykjavík komist eins nærri því og hægt er að koma í staðinn fyrir Þingvöll. Og hvort haldið þið að verði komizt nær því í augum manna, sem koma hingað utan af landi, með því að hér í miðbænum verði eingöngu látin vera 4–6 hæða hús, eða þá með hinu, að við varðveitum hinn gamla miðbæ með þeim sögulegu minjum, sem þar eru?

Það hefur oft verið talað illa um skipulag Reykjavíkur. En fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott, því að ekki er enn búið að fylla allan miðbæinn af stórhýsum, svo að enn er hægt að gera ráðstafanir án þess að verja milljónum króna í það að fara að rífa niður hús, auk þess sem viðbúið er, að þar sem svo er komið, sé erfitt að fá þau rifin niður. Ég held því, að við ættum að samþykkja till. eins og þá, sem ég hef lagt hér fram, og ættum að reyna að koma okkur saman um, hvort við gætum fengið út það góða hugmynd um skipulagningu á miðbænum, að það gæti samrýmzt þeim kröfum, sem gerðar hafa verið í þessum efnum og gerðar verða af afkomendum okkar. Okkur verður álasað, ef við verðum búnir að haga okkur þannig, að ekki verði hægt lengur neinu um að þoka. Það er oft dálítið einkennileg tilfinning, sem við Íslendingar höfum, þegar við tölum við útlendinga, sem að einhverju leyti þekkja til sögu þjóðar okkar. Fyrsta hugmyndin, sem útlendingurinn hlýtur að fá, er þessi: Á þessi þjóð enga sögu? Það er ekkert, sem minnir á það gamla, það er allt svo nýtízkulegt. Við höfum svo að segja flýtt okkur að þurrka burt minjarnar af því gamla, eins og okkur hafi þótt hneisa að því. Öllum kofum og kotum hefur verið rutt úr vegi jafnóðum og ný hús hafa verið byggð í sveitunum, og við verðum í vandræðum með að skilja afkomendunum það mikið eftir af sögulegum minjum, að þeir geti gert sér grein fyrir, hvernig afkoman var og hvernig lifað var hér í byrjun átjándu aldar. Þess vegna væri sérstök þörf á að reyna að stinga hér við fótum. Ég held, að hér á næstu grösum við alþingishúsið og dómkirkjuna verði byggð gífurleg stórhýsi, svo framarlega sem hér verður ekki rönd við reist. Ég get skilið, að þeir, sem hafa keypt lóðir fyrir uppsprengt verð í miðbænum, óski að fá að byggja á þeim. En ég held, að landrými hér í Reykjavík sé það mikið, að hægt væri að bæta slíkum aðilum þetta að fullu, þannig að þeir yrðu ekki fyrir neinu tjóni, þó að þeir hafi eignazt þessar lóðir í miðbænum. Hvað snertir ráðstöfun á þessu svæði, má gera ráð fyrir, að við gætum komið okkur saman um ýmsar góðar hugmyndir um byggð eða öðruvísi not á svæðinu. Það gerði ekkert til, þó að partur af þessu svæði fengi að standa óbyggður, vegna þess að það koma hér kynslóðir á eftir okkur, sem hafa kannske meiri þekkingu en við á fortíð okkar og hafa þá möguleika til þess að ráðstafa slíku svæði þannig, að í sem mestu samræmi væri við sögu okkar. Ég tel það ákaflega illa farið, ef við látum kaupsýslusjónarmið í sambandi við þessar lóðir ráða yfir gerðum okkar og ráðstöfunum í þessum efnum, og við fyrir peningana, sem þessar lóðir kosta, eyðileggjum allt umhverfið kringum dómkirkjuna og alþingishúsið, sem tengt er baráttu forfeðra okkar, eins og nú hefur verið gert með Aðalstræti 10. Ef við breytum þannig, eyðileggjum við það, sem við í öðru orðinu segjum, að sé okkar dýrmætasta eign. Ég held því, að það yrði til nokkurs góðs, að þessi brtt. yrði samþ., og vona ég, að hv. þm. geti fallizt á að greiða henni atkvæði.