26.04.1950
Sameinað þing: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3940)

144. mál, skömmtun á byggingarvörum

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það er nú svo illa stundaður þessi fundur í sameinuðu Alþ., að það mætti fremur kalla hann fund í sundurdreifðu Alþ., og er því kannske ekki ástæða til að fara nákvæmlega út í þetta, en ég verð þó að reifa málið nokkuð. Ég vil taka það fram, að síðan ég lagði þessa till. fram, hef ég orðið fyrir gagnrýni á strætum og gatnamótum fyrir, að ég gengi ekki nógu langt í kröfunni um afnám á skömmtun og að hér þyrfti djúptækari aðgerða. Það, sem hér er farið fram á, er, að hæstv. ríkisstj. láti fara fram athugun á því, hvort ekki sé hægt að afnema skömmtun og létta höftunum á minni byggingarframkvæmdum, og er þetta í samræmi við lögin um fjárhagsráð frá 1947, því að þar var ekki gert ráð fyrir, að ákvæðin um fjárfestingarleyfi næðu til smærri bygginga, en þó var það heimilað, en nú finnst ýmsum, að fjárfestingarathafnir gangi of langt og torveldi um of nauðsynlegar byggingarframkvæmdir. Reglugerð fyrir fjárhagsráð frá 1947 gerði ráð fyrir, að mannvirki, sem ekki kostuðu meira en 10 þús. kr., krefðust ekki fjárfestingarleyfis, og eins með lítil íbúðarhús til eigin afnota, enda mun hafa verið ákveðin hámarksstærð á þeim, svo að þetta ákvæði yrði ekki misnotað; og loks, að útihús og verbúðir, sem ekki kostuðu meira en 50 þús. kr., væru undanþegin þessu ákvæði. Þetta þótti fjárhagsráði ekki nóg, og í ágúst 1947 setti það skömmtun á allar helztu byggingarvörur, svo að þótt byggingarframkvæmdir væru ekki háðar fjárfestingarleyfi, þá væru þær þó að minnsta kosti háðar skömmtuninni. Það verður því að afnema þessi skömmtunarákvæði. Fjárhagsráð gaf í fyrstu út skömmtunarseðla fyrir undanþágum þeim, sem ég gat um áðan, og framan af ári 1948 er talið að þessi leyfi hafi fengizt greiðlega, en í júní 1948 er að mestu tekið fyrir slíkar leyfisveitingar vegna efnisskorts. Og um haustið 1948 var þessu breytt í samræmi við þá venju, sem myndazt hafði, og þetta lagt allt saman undir fjárhagsráð, svo að undanþágurnar voru að heita mátti alveg afnumdar, aðeins ákvæðið um, að eigi þyrfti fjárfestingarleyfi fyrir framkvæmdum, sem eigi kostuðu í efni og vinnu meira en 10 þús. kr., var látið haldast. Þetta náði þó ekki til útihúsa í sveitum, en hafði að heita mátti enga þýðingu vegna skömmtunarinnar. Þannig er þessum málum háttað enn í dag. Nú finnst mörgum, að nú horfi öðruvísi við með takmörkun á athafnafrelsi, sem nauðsynlegt þótti, þegar fjárhagsráð var sett. Byggingar eru nú dýrari og nær ómögulegt að fá lán, svo að það ætti að vera nægur hemill á fjárfestingu manna. Hinu þarf ekki að lýsa, hve miklar tafir, óþægindi og skriffinnsku þetta leiðir af sér, eins og slík opinber íhlutun gerir að jafnaði. Byggingarkostnaður minnkar ekki, heldur vex, og vinnukrafturinn notast verr. Nær ómögulegt er fyrir þá, sem ráðast í minni háttar byggingar, að undirbúa það, sem þarf, svo sem að útvega byggingarefni og ráða til sín fólk á hæfilegum tíma. Það er ekki hægt vegna þess, að menn þurfa að vera vonbiðlar mánuðum og missirum saman um byggingarleyfi og skömmtun, jafnvel að hinum minnstu framkvæmdum. En ég held, að sé ekki sama, hvar á landinu byggja á. Sérstaklega er það annað, hvort er í höfuðstaðnum eða úti um byggðir landsins eða í kaupstöðum og kauptúnum úti á landi. Það má segja, að allt annað viðhorf sé í Reykjavík en annars staðar á landinu í stórum dráttum. Hér fer það mjög í vöxt, að bærinn byggi í stórum stíl íbúðir fyrir margt fólk í einu, en slíkt á sér ekki stað úti um land. Það er líka mikill munur, hvort menn ætla að byggja til að leigja út eða selja annars vegar eða reisa þak yfir höfuðið á sjálfum sér. Það er áreiðanlega allt annað en gróðabrall, sem vakir fyrir almennum borgurum utan Rvíkur, þegar þeir eru að leitast við að koma upp þaki yfir sig. Ég fullyrði ekki, að slíkt sé ekki til hér í Rvík, og það má með nokkrum rétti segja, að margir byggi hér óþarflega stórt, en það á ekki við alla, og margir eru líka hér í Rvík að basla við að koma yfir sig þaki.

Það hefur verið venja í nærliggjandi kaupstöðum, þar sem menn stunda aðallega sjósókn, að nota haustið, þegar lítið er um sjósókn eins og oft er, til þess að koma yfir sig þaki. Þetta hefur verið mjög hagkvæmt — þá hafa menn getað unnið hver hjá öðrum í vinnuskiptum og létt þannig mikið undir með kostnað við bygginguna, þar sem ekki hefði verið um aðra vinnu að ræða á þessum tíma. Þetta hefur líka þann kost, að vinnukrafturinn verður jafnarðbær fyrir þjóðfélagið utan vertíðar eins og á vertíð. Nú hafa fjárfestingarhömlur orðið alvarlegur tálmi í götu þeirra, sem á þennan hátt eru að reyna að bjarga sér. Mörgum hv. þm. mun vera þetta vel kunnugt, þar sem þeim hefur í mörgum tilfellum verið falið að reyna að herja út byggingarefni fyrir þessa illa stöddu skjólstæðinga sína í fjárhagsráði. Jafnvel í smæstu athöfnum, eins og byggingu súrheysgryfja, hafa menn orðið að bíða eftir leyfi mánuðum saman.

Ég ætla ekki hér að láta í ljós skoðun mína á fjárfestingarpólitíkinni. Það gerði ég þegar lögin um fjárhagsráð voru sett og var þá í þeirra hópi, sem ekki höfðu óbrigðula trú á því skipulagi, sem lögin áttu að hafa í för með sér. Það, sem vakir fyrir mér með þessari till., er fyrst og fremst að reyna að fá fram einhverja breytingu á þessum reglum og meðferð ríkisvaldsins á fjárhagsráðsl., svo að betur nýtist athafnaþrá manna. Ég þykist með þessu vilja gera tvennt, í fyrsta lagi stuðla að heilbrigðri þróun í byggingarmálum alþýðumanna og hins vegar vinna þjóðfélaginu gagn með því að gefa þeim, sem þess óska, tækifæri til að vinna við að koma upp yfir sig þaki, þegar ekki er um aðra atvinnu að ræða og þeir að öðru leyti hafa efnalega möguleika til að framkvæma slíkt. Það þykir mörgum ótrúlegt, hvað byggingarkostnaður getur verið miklu lægri utan Rvíkur en í Rvík. Ég veit sjálfur um fjöldamörg dæmi um litlar íbúðir í Vestmannaeyjum og Keflavík, sem eru svo miklu ódýrari en hliðstæðar íbúðir í Rvík, að það er næsta erfitt að skilja. Nú er efnið í flestum tilfellum ekki ódýrara, að minnsta kosti ekki það útlenda. Það, sem ég held að hér komi til greina, er það, að undanfarið hefur mjög farið í vöxt, að menn hefðu mikla samvinnu um slíkar byggingar. Sjómenn í þessum bæjum hjálpa hverjir öðrum, og þegar þeir ganga að verki með kappi og elju, verða allt önnur vinnubrögð, en við margar byggingar hér í Rvík, auk þess sem hinar ströngu reglur um fagvinnu gera húsin hér miklu dýrari, en ella mundi verða, ef lagtækir menn fengju sjálfir að annast þau störf, að vísu undir eftirliti fagmanna.

Ég hygg, að það muni ekki ofsagt, að venjuleg þriggja herbergja íbúð með eldhúsi, baði og kjallara, byggð utan Rvíkur, muni vera 1/3 ódýrari, en hér í Rvík sjálfri. Það kann einhver að segja, að þetta komi ekki þessu máli við, sem hér er til umr. En mér finnst þessi samanburður dálítið athyglisverður og full ástæða til þess að gefa honum gaum einmitt í sambandi við þetta mál. Um útihús, bæði til sjávar og sveita, verð ég að segja það, að það er næsta hjákátlegt, að sækja þurfi um leyfi til slíkra bygginga til Rvíkur. Sama er að segja um nauðsynlegar verbúðir. Menn eru yfirleitt ekki að leika sér að byggja slík hús, og ætti því að vera óþarfi að setja nokkrar hömlur við þeim. Ég held líka, að reynslan hafi sýnt, að allar þessar hömlur eru næsta óheppilegar, og stundum verða þær til þess, að ýmsir fara að sækja um leyfi án þess að hafa nokkra möguleika til að nota þau. Hins vegar held ég að ekki ætti að vera nokkur hætta á ferðum, þó að slakað væri á þessu og þeim, sem þess óska og hafa til þess möguleika, verði leyft óhindrað að koma sér upp íbúðum. Eins og ég sagði í upphafi, finnst ýmsum sjálfsagt ekki nægilega langt gengið með þessari till., en það ætti þó alltaf að vera nægilega langt gengið til að vekja til umhugsunar um þessi mál, svo að menn sjái, í hvert óefni er komið. Eitt dæmi af mörgum get ég nefnt um það, hvernig þessar hömlur eru í framkvæmd varðandi smávægilegar, en þó mjög nauðsynlegar framkvæmdir. Þegar ég var á ferð í Eyjum um páskana, hitti ég mann, sem bað mig að herja út leyfi fyrir sig fyrir einni súrheysgryfju. Hann kvaðst hafa sótt um þetta leyfi til fjárhagsráðs í desember, en ekki fengið svar um það, hvort leyfið væri veitt, og auðvitað hafði hann ekki tíma til að fara sjálfur til Rvíkur bara vegna þessa leyfis, enda sýnist það nú harla óþarft. Hver maður með opin augu hlýtur að sjá, að þetta getur ekki gengið og hér verður að verða breyting á. Hæstv. stjórn ætti nú að láta athuga þetta mál og bæta úr því eftir föngum. Það er áreiðanlega kominn tími til að slaka á ýmsum hlutum í sambandi við minni háttar fjárfestingar. Hitt er sjálfsagt nauðsynlegt, að hafa eftirlit með óhóflegum byggingum, bæði hjá einstaklingum og hinu opinbera, þar sem mikið efni þarf til, en það á bara að vera auðvelt, þó að ekki sé heft sjálfsbjargarviðleitni þeirra, sem eru að reyna að koma yfir sig þaki.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en legg til við hæstv. forseta, að till. verði vísað til 2. umr. og allshn. — held að hún hæfi bezt til að fjalla um málið.