17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Þetta gefur ekki tilefni til mikilla aths. — Hæstv. forsrh. segir, að það sé ósanngjarnt, að ríkisstj. hefði getað verið búin að gera frv. um þessi málefni. Ég held það gagnstæða. Hæstv. forsrh. segir, að ef ég telji þetta einfalt, — ég hef ekki sagt, að það væri einfalt, — þá mundi ég geta gefið yfirlit yfir ástandið í stórum dráttum, eins og þróunin hefur verið undanfarin ár. Ég mundi treysta mér til þess, en ég mun ekki misnota þolinmæði hæstv. forseta eða níðast á hv. þm. með að halda langa ræðu um það mál nú. En ég vil svara með því að segja hæstv. forsrh., að ef ég hefði tekið að mér að mynda stj., þá mundi ég áreiðanlega hafa gert það með það fyrir augum, að mér væri skylt að semja frv. um þetta efni og leggja það fyrir þingið það snemma, að þingið gæti fjallað um málið fyrir jól, að ég nú ekki tali um til úrslita fyrir áramót. Þetta mundi ég hafa talið mér skylt að gera. Ég hefði aldrei talið mér heimilt að leggja í að mynda stj. án þess að hafa þann háttinn á, og þegar hæstv. ráðh. er að tala um, að hann hafi átt erfitt um að fylgjast með, þá vil ég benda honum á, að hann hefur sér til aðstoðar í þessu efni menn, sem hafa ástæður til að fylgjast fullkomlega með í þessum málum, og ríkisstj. á vitanlega alltaf aðgang að þeim.

Sama er það, að þegar hæstv. forsrh. er að klóra í bakkann með því að tala um, að ég, sem er að halda því fram, að stj. hafi getað þetta, ég hljóti að hafa vitað 6. des., hvað sanngjarnt var að leggja til í þessu efni, þá vil ég svara á sama hátt og áður, að það hefði enginn átt að leyfa sér að mynda stj., eins og ástatt er, nema sá sami hefði kynnt sér ástandið og gert sér ljóst, að hann gæti haft um þessi málefni till., a. m. k. bráðabirgðatill., það snemma, að þingið gæti fjallað um þær á venjulegan hátt fyrir jól.

Ég skal svo ekki halda þessum umr. áfram, enda er ekki ástæða til þess. Ég hef sagt það, sem ég vil segja, en vil aðeins endurtaka það, að mér þykir það mjög miður, að hæstv. ráðh. hefur ekki getað létt af neinu af þeirri óvissu, sem er á þingstörfunum.