19.01.1950
Efri deild: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Forseti. Vegna þess að mér finnst þessi brtt. hv. 1. þm. Eyf. vera óvenjulegs eðlis, og það jafnvel á þessum styrkjatímum, þá vildi ég ræða þetta mál nokkuð. Ég tel hér vera nokkurn mun á, hvort hjálpa eigi sjómönnum með sérstökum ráðstöfunum, þegar almennur aflabrestur hefur eyðilagt veiðarnar, eða hvort er um að ræða hæpnar veiðitilraunir á fjarlægum miðum. Þegar aflaleysisár koma, þá er það þjóðarógæfa, sem eðlilegt má telja, að þjóðin öll beri byrðarnar af, eins og þegar síldveiðarnar brugðust á afliðnu sumri, sem er og fimmta sumarið í röð, sem slíkt gerist. Það er vart hægt að gera ráð fyrir því, að þeir menn, sem þá atvinnu stunda, geti risið undir þeim skakkaföllum, sem slíkur aflabrestur leiðir af sér. Þá er eðlilegt, að reynt sé að hlaupa undir bagga til þess að afstýra vandræðum. Hitt er svo allt annað mál, þegar einstakir atvinnurekendur skera sig út úr og gera tilraunir til þess að fara eftir nýjum leiðum við veiðarnar. Það kann að vera, að í sumum tilfellum væri það ekki óeðlilegt, að slík viðleitni nyti einhverra styrkja, en það yrði þá að vera um það samið fyrir fram. Það yrði að vera áður, en ævintýrið hefst, því að varla hefðu ævintýramenn þessir hug á því að skila ríkinu gróðanum eftir á, ef vel hefði nú tekizt í gróðabralli þeirra og gróði fengizt af tilrauninni. Sá gróði kemur ekki í ríkiskassann, nema þá sá hluti hans, sem skattalöggjöfin mælir fyrir um. En einmitt vegna þess, að þegar menn ráðast í slík ævintýri og vita jafnvel fyrir fram, að um mikla áhættu er að ræða, þá verða þeir að gera sér grein fyrir því, að í slík stórræði er vart farandi, nema leita aðstoðarinnar fyrir fram, ef þeir telja sig ekki vera þess umkomna að standa undir tapinu. Þetta er mjög ólíkt því og þegar um er að ræða almennan aflabrest. Hér eru menn að ráðast út í hæpna tilraun, þar sem eins líklegt er, að tap verði um að ræða, jafnt sem gróðamöguleikana. Þess vegna er það, að ef þeir geta ekki staðið undir Gapi, þá eiga þeir að koma fyrir fram og spyrja um styrk, en ég tel það vera mjög hæpna aðferð að koma eftir á til ríkisins og beiðast þess, að það borgi tapið. Mér eru ekki kunn einstök atriði þessarar útgerðar við Grænland, og gat ég ekki greint í hinni greinargóðu ræðu hv. frsm., að hér væri um neinar sérstakar ástæður að ræða. Hv. frsm. sagði, að ef skipið hefði selt afla sinn til útlendra veiðileiðangra, þá hefði ekki orðið tap á útgerðinni. Hver ætli hafi bannað það? Ef útgerðarmaðurinn hefur fyrir fram selt afla sinn til Útvegs h.f., eða annað, fyrir lægra verð en honum bauðst, þá má hann sjálfum sér um kenna, hvernig til hefur tekizt. Hitt er svo annað mál, að hann hefði samkv. l. um meðferð gjaldeyris orðið að gera grein fyrir honum og skila til bankanna. Í þessu sambandi má minna á, að einn þeirra útgerðarmanna, sem fóru, út í ævintýri við veiðar á miðum Grænlands, er nú sóttur til saka, ekki fyrir það, hvar hann hafi selt afla sinn, heldur fyrir það, að hann hafi ekki skilað gjaldeyrinum. Þetta er tvennt ólíkt. Mér finnst, að till. sem þessi eigi ekki heima hér. Ætti frekar við að bera þetta mál fram í sérstöku frv. en sem lið í þessu frv. Á þessu stigi málsins vil ég ekki segja um það, hvernig ég snýst í afgreiðslu slíks máls sem þessa, en ég treysti mér ekki að mæla með því, að því verði blandað í þetta mál, sem hér liggur fyrir þessari hv. þd. Að hinu leytinu áskil ég mér rétt til þess að mynda mér sjálfstæða skoðun varðandi þetta mál, þegar um er að ræða, að það komi eitt fyrir sig.