23.01.1950
Efri deild: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann gaf í sambandi við þetta mál. Og þó að honum fyndist sumt af þessu, sem um var rætt, vera óviðkomandi afgreiðslu þessa máls, svo sem ýmsar uppbætur í sambandi við ábyrgðir og lántökur vegna taps á síldveiðunum 1948, þá má nú segja, að engar fjárlagagreiðslur úr ríkissjóði séu óviðkomandi fjvn. og þessari hv. þd. — Ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir það, sem hann gaf upplýsingar um þau atriði, og verð að fallast á, að hæstv. ríkisstj. hafi á þeim tíma farið með þau mál á eðlilegan hátt, eftir því sem hæstv. ráðh. upplýsti hér. Skal ég ekki gera þau atriði frekar að umtalsefni. Og eftir þessum upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf um útistandandi skuldir, þá virðast kr. 1.236.307,00 vera útistandandi af því fé, sem heimilt hefur verið að veita samkv. því frv., sem fyrir liggur. Hæstv. ráðh. vildi þó ekki upplýsa, hve mikið hefði verið notað af heimildinni. Hann kvað það ekki hafa þýðingu viðkomandi afgreiðslu málsins. En ég leyfi mér að benda á í sambandi við það, að vafasamt hlýtur að vera, hvort heimilt sé að lána þetta fé aftur, sem inn hefur komið sem endurgreiðsla á þessum lánum. Og hafi heimildin verið öll notuð samkv. 2. gr. frv., upp á kr. 2.250.000,00, og ef ekki er heimilt að nota þetta fé til nýrra lánveitinga í sama skyni, — sem ég lít svo á, að ekki sé heimilt að óbreyttum lögum, — þá álít ég. að það þurfi að hækka heimildarupphæðina í 2. gr. frv., svo framarlega að þessi brtt., sem fyrir liggur frá hv. fjhn., verði samþ. Mér sýnist það óhjákvæmilegt, ef nokkurt gagn á að vera í því að samþ. þá till.

Hins vegar teldi ég réttast, úr því sem komið er, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Þetta frv. er flutt til samþykktar á bráðabirgðal., sem búið er að framkvæma eftir, og er í sjálfu sér ákaflega óeðlilegt að blanda inn í það öðrum óskyldum málum. Og ég verð að segja, að ef samþ. verður þessi brtt. frá hv. fjhn., sem hér liggur fyrir, nú við 2. umr., þá neyðist ég til að koma með viðbótartill., sem ég viðurkenni, að á ekki heima í þessu frv., eins og það liggur nú fyrir. Og af því að ég álit, að sú till. eigi ekki heima í sambandi við þetta frv., hef ég hikað við að bera hana fram. En hún á að sjálfsögðu heima í þessu frv., ef því verður breytt á þann hátt, sem hv. fjhn. leggur til. Vil ég nokkuð skýra þetta atriði.

Það er vitanlegt, að árið 1948, þegar skipt var upp fé milli útgerðarmanna, sem ráku síldveiðar á því ári með tapi, þá voru nokkrir aðilar meðal þeirra útgerðarmanna, sem sóttu um lán úr þessum sjóði til þess að leysa út sjóveð á skipum, sem þeir höfðu leigt til síldveiða. Þessum lánbeiðnum var vísað frá, vegna þess að það þótti ekki löglegt eða heimílt samkvæmt bráðabirgðal. að styðja þessa menn á þennan hátt, þ.e. í sambandi við það fé, sem annars látið var til þess að leysa sjóveðin af öðrum skipum. Nú er það svo, að þessir sömu aðilar, sem ekki fengu þessa aðstoð og gátu ekki staðið undir þessum kostnaði, urðu að láta fara fram sölu eða kröfu á hendur skipunum, sem sjómenn áttu, til þess að tryggja sín laun. Og þessi skip hafa síðan legið bundin, a.m.k. sum þeirra, í höfn, vegna þess að ekki hefur verið hægt að leysa út þessar sjóveðskröfur. Og viðkomandi aðilar hafa fengið dóm fyrir kröfunum og beðið eftir, að þessi mál leystust. Ég mun ekki fara frekar út í þetta á þessu stigi málsins. En ef brtt. hv. fjhn. verður nú samþ., mun ég bera fram brtt. við frv. við 3. umr., sem mér sýnist þá eiga eins mikinn rétt á sér eins og brtt. sú, sem hér hefur verið fram borin af hv. fjhn. — Og ég vildi spyrja, hvort hv. form. fjhn. sér, sér ekki fært að taka þessa brtt. til baka, a.m.k. til 3. umr., til þess að séð verði, hvort ekki er hægt að sameina þessar till., annaðhvort í eina brtt. við þetta frv. eða með því að bera fram um þetta nýtt frv., sem mér þætti eðlilegra, eins og málin nú horfa við.

Hv. 1. þm. Eyf. spurði hér í sambandi við þetta við umr.: Hvers vegna eiga sjómenn á síldveiðiskipum að fá sitt kaup, en sjómenn við Grænland ekki sitt kaup? Hér er ekki um það að ræða að tryggja sjómönnum kaup. Þeir fá sitt kaup, með því að láta sjóveðin í viðkomandi eignum verða þeim hjálp til þess, að þeir fái sitt kaup. Hins vegar er hér verið að bjarga útvegsmönnum, sem liðið hafa tap á útgerð. En hér er nákvæmlega það sama um þessa útgerðarmenn að segja, sem ég minntist á áðan, eins og þá, sem gerðu út við Grænland, svo að ég sé ekki, að hægt sé að taka þá útgerðarmenn með, sem hv. fjhn. leggur til, að teknir verði með í þessu efni, en láta samt sem áður hina, sem ég hef talað hér um, ekki njóta sömu fríðinda.

Ég vildi mælast til þess, að hv. form. fjhn. athugaði þetta, áður en málið fer undir atkv.