27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) — ætla ég —, hann sendi mér hér tóninn í kvöld út af einu atriði sérstaklega; hann spurði út af því, sem ég hafði rætt um nauðsyn á íbúðarhúsabyggingum og á því, að þar væri haganlega á haldið og enn haganlegar, en verið hefði og að það væri látið sitja fyrir að byggja smáíbúðir, til þess að hægt væri að sýna meiri árangur, en ella í baráttunni við húsnæðisleysið, án þess að leggja í meiri framkvæmdir í heild, en fært væri vegna efnis og vinnuafls, — í þessu sambandi spurði hv. þm. mig um það með nokkrum þjósti, hvað ég hefði gert í þessum málum, þegar ég sat í ríkisstj. nú síðast. Ég vil aðeins benda honum á, að sú ríkisstj. gerði fyrst ráðstafanir til þess að koma á stað fjárfestingareftirliti, í stað þess að áður var það ekki til. Á dögum stjórnar þeirrar, sem fulltrúar úr flokki hv. 2. þm. Reykv. áttu, sæti í, máttu menn byggja eins og þeir vildu, eyða efni eins og þeim sýndist og sóa vinnuafli eins og þeim gott þótti. Á þeim árum var byggt svo mikið af lúxushúsnæði, að ef það fé, sem þannig var varið í óþarfabyggingar, hefði verið sparað og það efni og það vinnuafl notað í annað, þá hefðu engin húsnæðisvandræði þurft að vera hér til. Þetta er sagan af afskiptum flokksbræðra hv. 2. þm. Reykv. af þessum málum, þegar þeir voru þar ráðandi. En í tíð fyrrv. stjórnar var breytt um stefnu og bannað að byggja lúxusíbúðir, og fyrir bragðið hefur verið hægt að byggja miklu meira af hagkvæmum íbúðum en annars hefði verið. Læt ég svo þetta nægja um það, sem þessi hv. þm. vék að mér.

Hv. 2. landsk. þm. talaði hér í kvöld. Ég ætla ekki að svara því, en varð undrandi á því að hlýða á þá ræðu. Hann sagði — og var mjög daufur í dálkinn — orð eins og þau, að útgerð nýsköpunartogaranna væri vonlaus, og manni skildist, að það væri sama hvað gert væri í þá átt að rétta þar til hjálparhönd, allt væri vonlaust. Það kveður nú nokkuð við annan tón hjá þessum þm. en áður hefur verið, og mætti þar nú fyrr rota en dauðrota. — Ég gat ekki stillt mig um að benda á þetta, en annars finnst mér ræða hv. þm. haldin til þess að reyna að leyna því, hve ánægður hann væri með það í raun og veru, ef gengið yrði lækkað. Mér fannst bara hv. þm. ganga heldur illa að skilja það áður fyrr.

Ég vildi svo að lokum segja nokkur orð út af ræðum ráðherra þeirra tveggja, sem talað hafa. Þeir hafa sagt, að það væri illa til fallið að hnýta inn í þetta mál þrætumálum að óþörfu, og var því sérstaklega haldið fram af hæstv. landbrh. Ég held, að þessir ráðh. verði að endurskoða þennan hugsunarhátt sinn og veita enn meiri athygli, en þeir hafa gert, að gengislækkunin er ekki nema einn liður í þeirri stefnu, sem framkvæma verður, ef vel á að fara og hún á að koma að nokkru gagni. Þessir ráðh. hafa verið að tala um það, að í frv. væri nú sitt af hverju tiltekið, sem þyrfti að vera. En þessir ráðh. mega ekki álíta, að þeir séu óskeikulir eða hafi einir leyfi til að hafa skoðanir um það, hvað nauðsynlegt sé að gera, um leið og gengislækkun verði framkvæmd, ef vel eigi að fara, né heldur geti tekið sér það vald að álíta, að það, sem þeir hafa sett í frv., sé nákvæmlega það, sem þar eigi að vera, og það, sem menn kunni að stinga upp á þar fram yfir, sé gert til þess að draga óviðkomandi deiluatriði inn í málið, eins og þeir hafa minnzt á. Ég held, að það sé nauðsynlegt að endurskoða þetta gaumgæfilega og gera sér grein fyrir því, að málið er talsvert víðtækara en frv. gerir ráð fyrir.

Þá sagði hæstv. landbrh., að ekki hefði verið vit í því fyrir stjórnina að biðjast lausnar, þegar hún varð sammála um, hvað fyrir skyldi leggja og hvaða úrlausnir væru heppilegastar. Þetta sýnist mér benda á algeran misskilning hjá ráðh. Ég skal ekki fara langt út í það, því að ég ræddi það hér í dag, en mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að afhenda þinginu umboð sitt, þegar hún sá, að hún gat ekki tryggt þessu máli fyrir fram stuðning í þinginu, og hefði hún þá gert málinu meira gagn, þannig að það gæti þá vigtað sig, hvort ná mætti samtökum innan þingsins um að tryggja málinu framgang. Landbrh. sagði, að þessi hugsunarháttur væri hneyksli og byggðist á þeim misskilningi, að ekkert stórmál mætti leggja fyrir Alþ. án þess að um það væri makkað áður milli flokka. Þetta er misskilningur hjá landbrh., að þessi skoðun mín sé byggð á þessu, heldur byggist hún á því, að þessi úrlausn, þessi stórfellda gengislækkun, er svo sérstaks eðlis, að hana á ekki að leggja fram, nema vitað sé um örlög hennar fyrir fram, þar sem hún getur haft mikil áhrif á allt fjármálalíf þjóðarinnar. Þessi ráðstöfun hefur því sérstöðu að þessu leyti, að ganga þarf í það fyrir fram að vita, hvort hún hefur stuðning eða ekki, og á þetta ekkert skylt við það, að ekkert stórmál megi leggja fram, áður en makkað hafi verið um það fyrir fram. Þetta vildi ég aðeins taka fram að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði, að hæstv. ríkisstj. hefði einnig haft það í hyggju, að það væri ábyrgðarlaust af hennar hendi að stofna til stjórnleysistímabils með því að segja af sér án þess að vita, hvað við tæki. Þess þurfti nú ekki við, því að það var hægt að mynda ráðuneyti í staðinn. En þó að það hefði ekki verið hægt, er þessi skoðun ráðh. byggð á algerum misskilningi, byggð á þeim misskilningi, að hann virðist ekki hafa áttað sig á því, að í landinu er algert stjórnleysi og gæti ekki fullkomnara verið, en það er. Sjá menn þetta bezt af því, að ríkisstj. skuli hafa lagt út í að fleygja fyrir Alþ. öðru eins frv. og hér er á ferðinni, án þess að hafa tryggt sér nokkurn meiri hl. til fylgis við það. Slíkt getur ekki gerzt í landi, þar sem ekki ríkir algert stjórnleysi. Hér var því ekki úr háum söðli að detta, og er það mikill misskilningur, að ekki geti ríkt stjórnleysi, þó að nafninu til ríki einhver stjórn. Hún stjórnar í raun réttri ekki landinu, og þá er stjórnleysi ríkjandi. Það er einmitt á þessu, sem ég byggði þá skoðun, sem kom fram í dag af minni hendi um, að það hefði verið skemmtilegra og betur viðeigandi fyrir hæstv. ríkisstj. að viðurkenna þetta með því að fara frá, en að berja höfðinu við steininn og látast stjórna landinu, þegar hún sá það sjálf, að hún gat það ekki.