10.03.1950
Neðri deild: 63. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég mun hér með fáum orðum fylgja úr hlaði nál. minni hl. fjhn. í þessu máli, okkar hv. þm. Snæf., en nál. er á þskj. 405. Ég mun ekki á þessu stigi málsins fara út í aðalefni þessa máls, en vitna í þeim efnum til þeirrar ýtarlegu framsöguræðu, sem hér var haldin af flokksbróður mínum við 1. umr., og einnig til hinnar ýtarlegu álitsgerðar, sem þessu máli fylgir.

Það eru einstök atriði, sem sérstaklega hafa komið til umr. í fjhn. og nokkur vafi ríkti um skilning á, sem ég vil víkja að út frá einstökum atriðum, sem fram hafa komið í viðræðum í sambandi við álitsgerðir þeirra, sem frv. var sent til, og í viðræðum við fulltrúa frá þessum aðilum.

Áður en ég held lengra, verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv., að annar þeirra hagfræðinga, sem af hæstv. ríkisstj. voru fengnir til þess að vinna að þessu máli, hefði komið á fund fjhn. — hann var nú reyndar á fleiri fundum n. — og að á þessum fundi hefðu komið fram atriði, sem í raun og veru hefðu rifið niður alla álitsgerð hagfræðinganna, og hagfræðingurinn hafi engu orði getað svarað. Þetta er algerlega fyrir utan minn skilning. Það biður sjálfsagt þess tíma, þegar þessi hv. þm. lætur til sín heyra um málið við þessa umr., að hann geri grein fyrir, í hverju hann telur þetta vera fólgið, eða hvað hann á við með þessum orðum. Hann hélt hér þriggja tíma ræðu við 1. umr. um málið og gleymdi þá að geta um þetta atriði, en það er þá gott, að maður á von á að heyra um þetta við 2. umr. En ég kannast ekki við það, sem hv. þm. sagði hér nú síðast, og vísa því á bug.

Við hv. þm. Snæf. myndum minni hl. n. í þessu máli. Það komu til fjhn. tilmæli um að hraða athugun þessa máls. Og ég veit, að hv. þm. skilja, að það er eðli málsins sjálfs, sem krefst þess. Frv. var á sínum tíma, strax og fjhn. fékk það til meðferðar, sent vissum aðilum til umsagnar, og vorum við nm. allir sammála um að leggja áherzlu á skjóta afgreiðslu málsins. Og þessum aðilum var ætlaður einn dagur til að svara, og ætluðum við þeim skemmri tíma til að svara en hv. 2. þm. Reykv. óskar nú að fá í viðbót til að búa út sitt nál. Þeir urðu allir við því, og höfum við birt prentaðar álitsgerðir þessara aðila með þessu nál. Þykir mér rétt að víkja að nokkru, sem þar kemur fram. Það kemur fram þar, að sumir aðilar hafa sent fulltrúa á fund fjhn. til viðræðna um málið. Sendir voru til viðræðna fulltrúar frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Og til viðbótar við það álit, sem fram kemur í fskj. I. með nál., frá samtökum útvegsmanna, þá reifuðu þeir nokkur atriði sérstaklega á fundi fjhn., sem mér þykir rétt að fram komi hér í hv. d. Eins og kemur fram í bréfi frá L.Í.Ú., þá lögðu þeir til, að frv. þetta væri samþ. í aðalatriðum, og í sjálfu bréfinu eru engar brtt. gerðar við frv. En þessir hv. fulltrúar frá samtökum útvegsmanna létu í ljós atriði, sem þeir töldu skipta nokkru máli að væri hægt að breyta í meðferð málsins, og afhentu n., áður en þeir fóru, minnisblað um þessi atriði, sem þeir lögðu fyrir okkur. Og það eru einmitt þessi atriði, sem ég nú skal greina. — Þeir leggja áherzlu á það, að inn í þetta frv. komi ákvæði, sem tryggi útgerðinni lága vexti, m.ö.o., að sú 12. gr., sem var í fiskábyrgðarlögunum, verði sett inn í þetta frv., um, að vextir af rekstrarlánum útgerðarinnar og þeirra fyrirtækja, sem vinna úr sjávarafurðum til útflutnings, megi ekki vera hærri en 4%, enda fari lánin ekki yfir 85% af áætluðu útflutningsverði. — Við sáum ekki ástæðu til að taka þetta inn í frv. En ríkið tók á sig ábyrgð á fiskverði. Og að tilstuðlan ríkisins með ýmsum sérstökum lánum hefur verið reynt að hjálpa sjávarútveginum í þessu tilliti. En þær ráðstafanir, sem hér er stefnt að að gera, eiga einmitt að miða að því að koma rekstri sjávarútvegsins á arðbæran grundvöll. Þetta ætti því frekar að vera samningsatriði milli útvegsmanna og bankanna heldur en löggjafaratriði. Og kann sitt að sýnast hverjum um það. En við höfum ekki eftir þessum óskum tekið þetta inn í frv. — Þá bentu þeir á það, þessir fulltrúar frá L.Í.Ú., að útflutningsgjaldið, sem lagt er á hvalafurðir samkv. 11. gr. frv., væri nokkuð hátt á lagt 10%, og lögðu til, að það yrði sett á hvallýsi og mjöl 8%, þar sem rekstur hvalveiða hefði gengið verr á síðasta ári en áður, og að hvalkjöt skuli undanþegið gjaldinu. Það kann vel að vera, að þetta sé rétt hjá þeim og að það þurfi að athuga þetta við meðferð málsins. En fyrir fjhn. hefur ekki verið lögð rökstudd álitsgerð. Þess vegna hefur okkur ekki þótt rétt á þessu stigi málsins að flytja um þetta brtt. — Þá leggja þeir til, að tryggt verði, að bankarnir láni fyrst um sinn a.m.k. eins háan hundraðshluta út á sjávarafurðir, miðað við áætlað söluverð, og þeir lánuðu áður, miðað við ábyrgðarverð. En n. fannst þetta framkvæmdaratriði, en ekki löggjafaratriði. — Þá lögðu þeir til, að rýmkað yrði á verzlunarhöftum svo fljótt sem frekast væri unnt og telja það allra þýðingarmest til að auka velmegun þjóðarinnar. Þetta vildi ég láta koma fram í viðbót við álitsgerð útgerðarmanna.

Varðandi umsagnir Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þá er ekki mikið í þeim. Þeir bera fyrir sig stuttan tíma, en það er að því vikið í annarri álitsgerðinni, að þessir aðilar muni hafa skipað sérstaka n. ásamt með hagfræðingum frá hvorum aðila fyrir sig til þess að fara nánar gegnum málið og gera um það álitsgerð frá þeirra sjónarmiði.

Það eru svo nokkur atriði í hinum einstöku álitsgerðum, sem ég vík frekar að síðar í sambandi við einstök atriði, þegar ég fer í gegnum frv. og geri nánari grein fyrir áliti okkar hv. þm. Snæf. Við leggjum til, eins og fram kemur í nál., að frv. verði samþ. í aðalatriðum óbreytt, en áskiljum okkur rétt til að flytja brtt. og fylgja brtt., ef svo ber undir, sem mundu einkum miðast við tekníska framkvæmd þessara mála. En hér er um nokkur atriði að ræða, sem ég tel ástæðu til að reifa til frekari skýringar.

Ég vil fyrst víkja að því ákvæði 1. gr., að gengisskráningin er miðuð við Bandaríkjadollar. Eins og fram kemur í álitsgerð hagfræðinganna, þá er þetta byggt á því, að í stofnskrá alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem við erum aðilar að, er mælt svo fyrir, að gengi sé miðað við gull eða dollar. Það kom að vísu fram innan n. nokkur skoðanamunur á því, að þetta ákvæði væri fullnægjandi, en hér er um teknískt atriði að ræða, og í álitsgerð þjóðbankans kom ekki neitt sérstakt fram um þetta og skiptir það ekki meginmáli, enda þótt sumir teldu eðlilegra, að í slíkum lögum sem þessum væri miðað við mynt þar, sem aðalviðskipti okkar eru, og er bent á, að í brbl. um gengisbreyt. í haust er miðað við verðgildi pundsins. Þetta eru teknísk atriði, sem ég geri ekki ráð fyrir að sé ágreiningsatriði milli manna, en vil láta þess getið í sambandi við umr., sem um það urðu innan fjhn.

Þá er í 4. gr. atriði, sem við ræddum nokkuð, það er útreikningur hinnar nýju vísitölu, þar sem gert er ráð fyrir því, að þær breyt. verði á henni, að miðað sé við húsaleigu í húsum, sem fullgerð eru eftir árslok 1945. Eins og sakir standa nú, er ekki ákveðið mark til viðmiðunar í l., en þetta verður framkvæmdaratriði og kauplagsnefnd yrði falið að reikna út eftir nánari reglum, hvað teljist vera eðlileg húsaleiga í húsum, sem byggð eru eftir þennan tíma, svo að það ætti ekki að þurfa að verða ásteytingarsteinn, þó að ekki sé hægt í þessu frv. að miða við neitt ákveðið mark húsaleigu í þessum húsum. Einnig skal miða við útsöluverð á kjöti án frádráttar á kjötstyrk. En þetta frv. gerir ekki ráð fyrir, að kjötstyrkurinn falli niður, og þess vegna er þetta orðað þannig. Mundi því verða óbreyttur útreikningur þessarar vísitölu, þó að kjötstyrkurinn síðar félli niður.

Í 9. gr. kynni að gæta nokkuð mismunandi skilnings, og var sérstaklega rætt innan n. í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurða, en þar kem ég að því, að í álitsgerð Stéttarsambands bænda er vikið að því, að bændur fái ekki samkv. frv. verðhækkun, sem stafar af gengislækkuninni, fyrr en 1. sept., þegar verðákvarðanir eru teknar samkvæmt núgildandi l. Í upphafi gr. er svo að orði komizt: „Verð vöru, sem framleidd er og seld innanlands, má hækka sem nemur hærri erlendum kostnaðarliðum og sem nemur innlendum kostnaðarliðum, öðrum en launum.“ Þarna mun vera átt við aðra vöru innlenda en landbúnaðarvörur, og styðst sá skilningur við 2. málsgr. 9. gr., þar sem segir, að ákvæði gildandi l. um verðlagningu landbúnaðarafurða skuli haldast. Skilningur Stéttarsambandsins á þessu atriði er því réttur. Í 1. málsgr. 9. gr., þar sem segir: „tillit má þó taka til þeirra breytinga á launum, sem verða í júlí 1950,“ þá hefði kannske verið nákvæmara að orða það svo: með tilliti til þeirra breyt., sem orðið hefðu í júlí, — því að þá megi taka tillit til launabreyt., sem undanfarna mánuði hafi orðið.

Þá vil ég geta þess í sambandi við 11. gr., að fulltrúi frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda lýsti því sem skoðun sinni við n., að þær aðgerðir, sem í þessu frv. felast til þess að bæta og tryggja rekstur útgerðarinnar, væru þannig, að þær væru tæplega fullnægjandi miðað við 11. gr., þar sem gert er ráð fyrir að leggja framleiðslugjald á afurðir, og þeir bæru nokkurn kvíða fyrir því, að það yrði þeim of þungt í skauti að greiða 25% af sölu, sem er umfram 8.500 sterlingspund brúttó í söluferð. Hann lét í ljós þá skoðun, að þetta gjald, ásamt 10% framleiðslugjaldi í niðurlagi 1. málsgr., mundi verða útgerðinni nokkuð þungt í skauti og það væri þeirra till., að þetta yrði helzt fellt niður, og loks í sambandi við 12. gr., um verðmæti skipa, þar sem gert er ráð fyrir að miða við vátryggingarverð, þá vildu þeir láta miða við kaupverð að frádreginni lögheimilaðri afskrift á 20 ára skipum. — Þetta er til að benda á það, að það kom fram hjá þessum aðila skoðun um það, að það þyrfti að ganga lengra en frv. gerir ráð fyrir til að tryggja, að útvegurinn verði rekinn án rekstrarhalla. Þá kom einnig fram í viðræðum við fulltrúa botnvörpuskipaeigenda, að nauðsynlegt sé að gera leiðréttingu á 7. gr., og sama aths. kom fram við 1. umr., og við höfum gert ráð fyrir því í nál., að við mundum taka upp þessa brtt., en hún er sambandi við laun þeirra skipverja, sem taka laun sín í afla. En þessi laun ná einmitt til yfirmanna, og mundu laun þeirra hækka óeðlilega og stórkostlega miðað við aðra. Þeirra till., sem er á fylgiskjalinu, gengur út á það, að aftan við 7. gr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: „Laun, hluta launa eða aðrar greiðslur vegna skipverja á togurum og fiskflutningaskipum, sem miðaðar eru við hundraðshluta af afla, skal reikna þannig, að greiðslur þessar verði ekki hærri vegna gengisbreytingarinnar í íslenzkum krónum en kjarasamningar ákváðu fyrir gengisbreytinguna. Þó skal kaup þeirra manna, er hér um ræðir, breytast í samræmi við laun annarra skipverja.“

Með þessu móti mundu launabreyt. þessara manna verða í samræmi við aðrar launabreyt. samkv. 7. gr.

Ég held það séu ekki á þessu stigi fleiri atriði, sem ég tel nauðsyn til bera að koma fram með í sambandi við þetta nál. okkar. Það gefst þá tækifæri til þess á síðara stigi málsins, þegar hinar ýtarlegu álitsgerðir annarra nm. koma fram. Ég hef einkum vikið að minni háttar atriðum um framkvæmd málsins, sem við hv. þm. Snæf. höfum tjáð okkur reiðubúna til að verða flm. að, ef það er nauðsynlegt, þótt á síðara stigi verði. En við leggjum til að frv. sé í aðalatriðum samþ. óbreytt.