14.03.1950
Neðri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Því fer mjög fjarri, að fjhn. hafi athugað þetta frv. svo sem vera bæri, þannig að verk okkar í fjhn., sem áttum að vinna að því að fara gegnum þetta frv. og rannsaka það niður í kjölinn, hefur alls ekki verið slíkt sem ég hefði viljað óska eftir af hálfu fjhn. Hefur það að nokkru leyti ráðið, að stjórnarflokkarnir lögðu ákaflega mikið upp úr að fá frv. sem fyrst út úr n. aftur. Það hafði einnig mikil áhrif á störf n., að þeir tveir flokkar, sem nú hafa myndað ríkisstj., hafa allan tímann verið að semja sín á milli einmitt um þetta frv.

Ég hélt við 1. umr. þessa máls ýtarlega ræðu um afstöðu Sósfl. til þess. Ég hygg ekki þörf að fara að endurtaka nokkuð af því hér, enda er ekki til þess ætlazt samkvæmt þingsköpum, að mál séu rædd almennt við 2. umr., heldur einstakar gr., og mun ég því ræða hina teknísku hlið frv. meira en ég gerði við 1. umr.

Kem ég þá fyrst að 1. gr. frv., þar sem ákveðið er, að gengi íslenzkrar krónu skuli í framtiðinni miðað við dollar. Það er náttúrlega höfuðdeilumál í þessu sambandi, hvað gengið er skráð hátt, en það hef ég áður rætt ýtarlega við 1. umr. og fer því ekki mikið út í það nú, en hitt vil ég gagnrýna, að í þessum málum, við hvað skuli miða gengi íslenzkrar krónu, hefur ríkt óþolandi hringlandaháttur bæði hjá núv. hæstv. ríkisstj. og þeirri, sem sat þar áður. Með lögum frá 1940 var svo ákveðið, að gengi krónunnar skyldi miða við dollar, en þessu var breytt með brbl. á síðasta hausti og ákveðið, að krónan skyldi fylgja pundi, og var þessi ráðstöfun rökstudd af hæstv. fyrrv. fjmrh. með því, að við hefðum svo mikil viðskipti við Breta, að við yrðum að láta krónuna fylgja gjaldmiðli þeirra, og er nokkuð til í þeim rökstuðningi. En nú eru rök hæstv. fjmrh. allt í einu látin verða ógild og einskis virði vegna þess, að skrifstofumaður frá amerískum banka útbýr frv. um þetta efni og segir, að samkvæmt reglum gjaldeyrissjóðsins skuli íslenzka krónan fylgja dollar, og er hann þar með látinn kollvarpa rökum fyrrv. hæstv. fjmrh. um, að nauðsynlegt sé, að krónan fylgi pundi. Ég verð að átelja þennan hringlandahátt, því að nauðsynlegt er, að festa sé í þessum málum.

Út af 2. gr. er fyrst að segja, að með henni er valdið til gengisskráningar tekið af Alþingi og fengið í hendur Landsbankanum og ríkisstjórninni. Þetta er mjög varhugavert, sérstaklega með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengin er hér á landi, að þá og þegar geta verið myndaðar utanþingsstjórnir, og sá möguleiki er alltaf til fyrir ríkisstj. að gera þær ráðstafanir, sem Alþingi alls ekki vildi, en gæti varla með nokkru móti riftað eftir á. Þetta ákvæði ætti því að fella burt. Þá vil ég benda á, að hrein hugsunarvilla er í síðari málsgr. þessarar gr. hjá hagfræðingunum. Þar er talað um, að Landsbankinn skuli athuga gengisskráninguna, ef almennar breytingar verða á kaupgjaldi í landinu, en áður í gr. er gert ráð fyrir að miða ráðstafanirnar við það að viðhalda jafnvægisgengi. En sem sagt, í síðari hlutanum er gengið út frá því að skrá gengi með tilliti til kaupgjalds. Hagfræðingarnir, sem þetta hafa samíð, virðast halda, að kaupgjaldið ráði því, hvað gengið er hátt, en sú hugsun nær ákaflega skammt, sem telur, að hækkað kaup þurfi að leiða til gengisfalls. Það má hafa mjög hátt kaup, ef tæknistig þjóðfélagsins er hátt, og hátt kaup gerir meira að segja þjóðfélagið venjulega sterkara. En hugsunin, sem að baki þessa ákvæðis liggur, er sú, að það á að nota gengisskráninguna sem svipu á verkalýðinn og launþegasamtökin. Ef þau hækka sitt kaup, þá skal gengið lækka, svo að af launþegunum náist aftur þær kjarabætur, sem þeir kynnu að fá. Það er algerlega óforsvaranlegt að nota gengisskráninguna þannig, enda stangast það við fyrri hluta gr., þar sem stefnt er að frjálsum gjaldeyrismarkaði, þ.e., að gengið verði skráð eftir framboði og eftirspurn, en þá kemur til greina, hve framleiðslutæknin er mikil og hvað mikið búið er að tryggja af mörkuðum, og það er langt frá því, að þessir hlutir markist fyrst og fremst af kaupgjaldi. Fyrri hluti gr. er því í algerri mótsögn við síðari hlutann, og hvað er það, sem markar hið raunverulega gengi? Það er hlutfallið milli útflutnings og innflutnings. Gengi krónunnar á frjálsum markaði fer því eftir því t.d., hvort hér eru góð aflaár eða ekki, en ekki eftir því, hvað kaupgjaldið í landinu er hátt. Um 2. gr. er því í stuttu máli það að segja, að fyrri parturinn er í mótsögn við seinni partinn, seinni parturinn stangast við fyrri partinn, en báðir partarnir stangast við staðreyndirnar og veruleikann, en eru hins vegar góð spegilmynd af hugsunarhætti hagfræðinganna og þeirrar ríkisstj., sem fékk þá til að semja frv.

Viðvíkjandi 3. gr., þá ætla ég ekki að ræða hana ýtarlega nú. Sparifjárbæturnar eru svo litlar, að lítið munar um þær, en Landsbankinn hefur gert þá till., sem ég hygg að flestir nm. í fjhn. muni vera samþykkir, að fella niður tvískiptinguna á uppbótunum og láta þær ná til sparifjár allt til miðs árs 1946, en hugsunin, sem þar liggur á bak við, er sú, að þeir, sem lögðu sparifé sitt í það að kaupa skuldabréf stofnlánadeildar sjávarútvegsins, að þeir lendi inn undir þessar uppbætur. Býst ég því við brtt. þessa efnis við gr., en auk þess um aðra notkun þess fjár, sem fæst vegna gjaldeyrishagnaðar bankanna. — Út af síðasta lið 3. gr. um, að ríkissjóður greiði lausaskuldir sínar við Landsbankann, þá er rétt að benda á, að hann greiði einnig skuldir sínar við Tryggingastofnunina og fleiri opinberar stofnanir.

Um 4. gr. ræddi ég nokkuð við 1. umr., og ekkert hefur komið fram í fjhn., sem dregur úr þeirri gagnrýni, er ég þá flutti fram við gr., en með gr. er nefnt að því að blekkja launþegana í landinu með því að skapa ranga vísitölu, vegna þess að innfluttar vörur verða nú mun minni þáttur í henni, en áður, og ætti heldur að halda áfram með núverandi vísitölu — hún er skárri, þótt slæm sé — en afnema vísitölubindinguna, sem sett var í desember 1947. Ef menn ætla að bæta launþegum að fullu upp, þá er nær að láta gamla vísitölugrundvöllinn standa og afnema vísitölubindinguna, svo skökk og óhagstæð launþegum sem núgildandi vísitala þó er.

Viðvíkjandi 5. gr., þá mun ég bera fram við hana brtt., ef hún helzt í frv. Þar er gert ráð fyrir, að hagstofan skuli reikna út vísitölu til þess að minna á, að kaupgjaldið sé hærra en framleiðsluvísitalan miðað við 1939, og mun ég þá bera fram brtt. þess efnis, að jafnhliða verði látið reikna út, hve þjóðartekjurnar eru miklar miðað við það, sem var fyrir stríð, svo að hægt verði að sjá hlutfallið milli kaupgjaldsins og þjóðarteknanna og sjá, hve hlutfallslega mikinn part þjóðarteknanna launþegarnir í landinu fá miðað við það, sem áður var.

Um 7. gr. skal ég ekki ræða ýtarlega, en vil þó geta þess, að ef frv. verður að l., þá á tvímælalaust að breyta gr. þannig, að vísitöluuppbótin sé borguð mánaðarlega. Það er það eina, sem er nokkur snefill af réttlæti í garð launþeganna, en þetta er allt haft sem flóknast til þess að reyna að blekkja almenning, og síðasta málsgr. í þessari gr. um að svipta þá menn rétti til uppbótar, sem fengið hafa grunnkaupshækkun, á auðvitað að falla burt. Og það kemur úr hörðustu átt, þegar þeir, sem þykjast berjast fyrir frjálsum viðskiptum milli manna, ætla að afnema frelsið í skiptum launþega og atvinnurekenda. En nú á að svipta launþega kaupuppbót, ef þeir geta bætt sín kjör, og nær þetta náttúrlega engri átt.

Viðvíkjandi 8. gr. vil ég taka það fram, að ef hún tekur gildi, þá þýðir það mjög mikið tjón fyrir almenning á þeim réttarbótum, sem hann hefur fengið vegna almannatrygginganna, þannig að styrkurinn samkv. þeim verður mun minni en áður. Það þarf því að gerbreyta þessari gr., ef það er ekki tilgangurinn að gera harðar árásir á þá, sem erfiðast eiga með að verja sig, þar sem eru ýmsir styrkþegar hins opinbera.

Um 10. gr. er það að segja, að verðtollurinn, eins og þar er lagt til, verður í krónutölu hærri eftir gengisfellinguna hlutfallslega miðað við það, sem fyrr var lagt á, en nú, og er þetta hart, að þegar menn segjast vera að reyna að draga úr álögum hins opinbera, þá skuli verðtollurinn raunverulega vera hækkaður. Auðséð er, að allt, sem hagfræðingarnir segja um betri afkomu og minnkandi álögur, verður ekki efnt, nema þessari gr. sé breytt, og mun ég bera fram brtt. um, að hækkanirnar, sem gerðar voru á verðtollinum fyrir tveim árum, verði felldar niður.

Þá kem ég að 11. gr. og þeim atriðum, sem á vissan hátt skipta næstmestu máli, vegna þess að árásir þær, sem með frv. þessu eru gerðar á alþýðu landsins, eru rökstuddar með því, að verið sé að bjarga sjávarútveginum, og ef það sýnir sig, að frv. geti ekki bjargað sjávarútveginum, þá fellur burt höfuðröksemdin fyrir gengislækkuninni. Ef þetta frv. verður samþ., þá þýðir það, að fiskábyrgðin verður afnumin, en í staðinn á bátaútvegurinn að fá þessa gengislækkun. Hvað þýðir nú gengislækkun fyrir bátaútveginn? Hún þýðir hækkun á öllum rekstrarvörum bátaútvegsins, olíum, salti, veiðarfærum og kosti. Ef smáútvegsmenn og ef bátaútvegurinn á að standa jafnréttur eftir, þarf hann að fá 93 aura fyrir hvert kg af fiski, en hvað segja staðreyndirnar um þetta? Það mættu hjá okkur í fjhn. fulltrúar frá L.Í.Ú., og við spurðum þá, hvað hraðfrystihús og saltarar mundu greiða fyrir bátafiskinn, eftir að slíkt frv. sem þetta yrði samþykkt. Þeir sögðust auðvitað ekki geta svarað fyrir hönd þessara aðila, en sögðu sem sitt persónulega álit, — og þeir hafa á þessu góða þekkingu, svo að það ætti ekki að vera neitt fleipur, — að ekki væri útlit fyrir, að hægt yrði að kaupa bátafiskinn hærra verði en 75 aura pr. kg, en þetta þýðir, að bátaútvegurinn á að fá 10 aurum minna fyrir hvert kg af fiski, en hann nú raunverulega fær. Bátaútvegurinn á sem sagt að fá hærra verð á olíu, hærra verð á salti, hærra verð á veiðarfærum o.s.frv., en hann á að fá lægra verð fyrir fiskinn. Þetta eru bjargráðin! Frv. þetta er því bein árás á afkomu bátaútvegsins, og það var þetta, sem hv. form. fjhn. vitnaði í, þegar hann sagði mig hafa haldið því fram, að ég hefði fram að færa upplýsingar, sem kollvörpuðu grundvelli frv., og sé ég ekki annað, en það sé rétt. Það er með þessu frv. verið að ráðast á bátaflotann og afkomu hans stefnt í beinan voða, og ef hann stoppar ekki hér á Suðurnesjum, ef frv. verður samþ., þá er það eingöngu af því, að það borgar sig ekki að hætta, eftir að búið er að leggja svo mikið í kostnað, það sem af er vertíðinni, t.d. með því að flytja mörg skip hingað suður. Gengislækkun er ekkert allsherjarmeðal, og hér hefur verið tekið hringlandi vitlaust lyf, lyf sem skapar meira eitur, en lækningu. Nú munu kannske einhverjir segja, að hraðfrystihúsin og saltararnir muni reyna að nota aðstöðu, sína til þess að græða á bátaútveginum, eftir að þetta frv. verði samþ. Ég skal ekki fullyrða neitt um það og held því ekki fram, að hraðfrystihúsin og saltararnir muni okra á bátaútveginum. Við skulum athuga aðstöðu hraðfrystihúsanna. Hún er sú, að um leið og fiskábyrgðin fellur niður, þá verða þau að kaupa fiskinn á eigin ábyrgð og hafa enga tryggingu fyrir því, hvernig hann selst, og geta jafnvel búizt við því, að svo og svo mikið af fiski liggi hjá þeim lengri tíma og verði jafnvel ónýtt. Svipuðu máli gegnir um saltarana. Þetta þýðir, að þessir aðilar eru komnir út í alla áhættu, sem felst í óskipulagðri markaðsframleiðslu kapítalistisks þjóðfélags, og reyna að velta áhættunni af sér yfir á framleiðendurna, og aðstaðan til þess er fyrir hendi, því að bátarnir hafa ekki um annað að velja, en leggja upp hjá þeim. Það er því viðbúið, þegar fiskábyrgðin fellur úr gildi, að þá skapist togstreita milli bátaútvegsins annars vegar og saltaranna og hraðfrystihúsanna hins vegar. Ég held, að það sé sýnilegt, að fiskábyrgðin sé það fyrirkomulag, sem íslenzki bátaútvegurinn getur ekki án verið. Það er eina tryggingin fyrir því, að bátunum sé haldið úti. Ábyrgðin tryggir bátaeigendum og hraðfrystihúsunum sitt ákveðna verð. Þetta gerir svo það að verkum, að þeir, sem eiga báta og hraðfrystihús, geta rekið þau með minni gróðaálagningu en ella, ef ábyrgðarverðið er tekið af þeim. Ef þessir flokkar, sem standa að núv. hæstv. ríkisstj., ætla að samþ. þetta frv. gegn öllum rökum og gegn öllum aðvörunum, vildi ég mega æskja þess, að það gæti a.m.k. tekið þeirri breytingu, að fiskábyrgðarverðið mætti haldast. Annars er hætta á, að bátaútvegurinn stöðvíst. Þetta frv. er rökstutt með því, að það eigi að tryggja afkomu bátaútvegsins. En ég hef nú sýnt fram á, að það þvert á móti rýrir afkomu fiskimanna. — Nú háttar svo til, að hraðfrystihúsin eru óviss um rekstur sinn, og rekstur þeirra verður enn þá óvissari, ef þetta frv. verður samþ. Eigendur hraðfrystihúsanna vilja nú, að bankarnir láni út á áframhaldandi rekstur þeirra. Það þýðir, að bönkunum verði gert að skyldu að lána hraðfrystihúsunum út á fiskinn. Þetta leiðir svo til þess, að bankarnir koma til með að heimta af ríkinu, að það ábyrgist þessi lán, og verður þetta vægast sagt óeðlilegt. Þetta þýðir, að ríkisábyrgðin heldur raunverulega áfram, aðeins með þeirri breytingu, að nú er ákveðin ábyrgð á lánunum, sem bankarnir veita hraðfrystihúsunum. Þetta skýrir, hvers vegna eigendur hraðfrystihúsanna ætla að fara fram á, að bankarnir láni sér, því að hraðfrystihúsaeigendum og bátaeigendum er ljóst, að ríkisábyrgðin verður að halda áfram til þess að tryggja rekstur útvegsins.

Landssamband ísl. útvegsmanna hefur sett fram þá kröfu, að vextirnir verði ekki hærri en 4%. Og það er augsýnilegt og nær ekki nokkurri átt að ætla sér að fara að lækka verðið, en hækka jafnframt vextina, verð olíu og veiðarfæra o.s.frv. Ef þessi ákvæði um vextina, um skyldur bankanna til að lána hraðfrystihúsunum og um annað til tryggingar bátaútveginum bætist inn í frv., þá er þegar búið að setja öll aðalákvæði fiskábyrgðarlaganna inn í þessi lög. Þá væri og nauðsyn, sem afleiðing af þessu, að breyta 15. gr. Ég held, að þeir, sem fylgja þessu frv., hafi ekki gert sér nægilega ljóst, að þetta frv. felur í sér harðvítuga árás á bátaútveginn, bæði útvegsmenn og fiskimenn, og samþ. óbreytt mundi það stöðva útveginn. Það er því meira en lítil nauðsyn að breyta þessu frv. — Viðvíkjandi 11. gr. frv. mæltu fulltrúar frá L.Í.Ú. og F.Í.B. gegn henni og töldu ósanngjarnt að leggja framleiðslugjaldið á hverja einstaka söluferð, er færi fram úr £ 8.500 brúttó, og mæltust til, að greininni yrði breytt þannig, að gjaldið yrði lagt á meðalsölu yfir árið, sem væri hærri en £ 8.500 brúttó fyrir hverja söluferð. Enn fremur gagnrýndu þeir 10% gjaldið, og eðlilegast væri að fella það niður. Í raun og veru væri bezt, að 11. gr. félli öll brott. Það nær ekki nokkurri átt að ætla sér að fara að skattleggja rekstur nýju togaranna. Nú hafa t.d. ýmis bæjarfélög, sem berjast í bökkum, reynt að skapa atvinnu í bæjunum með rekstri nýju togaranna. Og það blandast engum hugur um það, að þetta hefur verið nauðsyn. En nú á að fara að skattleggja þessi atvinnutæki fólksins til að greiða hallann af vitlausum ráðstöfunum, sem ríkisstjórnir leggja á þjóðina.

Viðvíkjandi 12. gr. hef ég lýst því yfir, að ég mundi bera fram brtt., og mun ég ekki fjölyrða um það. Ég er ákaflega tortrygginn gagnvart þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur í hyggju að gera, t.d. varðandi þennan eignarskatt. Mér sýnist, að þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að fara í vasa stóreignarmanna, hafi verið hreint „blöff“ eða bein svik. Það er t.d. ekki enn farið að leggja á skattinn vegna eignakönnunarinnar, og svona mætti telja áfram. Í hvert einasta skipti sem byrðar hafa verið lagðar á alþýðuna, hefur verið hnýtt aftan í einhverri grein um það, að nú ætti stórauðmannastéttinni einnig að blæða. Siðan hefur verið látið dankast svona í 2 eða 3 ár að heimta inn þennan skatt af auðmannastéttinni, og þá er það segin saga, að skatturinn er gefinn upp. Þannig er brögðunum beitt til þess að sjúga alþýðuna. Núna á t.d. skv. þessu frv. að leggja skatt á auðmennina, og ef að líkum lætur, verður búið að gefa þann skatt eftir, áður en nýir skattar verða lagðir á alþýðu landsins. Þá er líka hægt að leika sama skollaleikinn aftur og leggja skatt á stóreignamennina. Sá er bara munurinn, að alþýðan kemst aldrei undan að greiða sína skatta, en hins vegar sleppa auðmennirnir ævinlega. Auðvitað er aðferðin góð að leggja skatt á eignastéttina, ef það væri bara framkvæmt. En þessi eignarskattur á að verða eins konar „premía“ til auðstéttarinnar og tryggja það, að hún fái að halda gróðamöguleikum sínum óskertum. Hér er annað, sem ríður meira á að gera, en leggja þessa eignarskatta á. Það þarf að stöðva gróðalindina, þurrka þá lind, sem eignastéttin sækir auð sinn i. Ef það er ekki gert, verða allar ráðstafanir til að ná auðnum af eignastéttinni sýndarráðstafanir. En það er líka það, sem þessir herrar ætla sér að gera, að láta alþýðuna halda, að þeir séu að leggja skattana á sjálfa sig. — Verzlunarstéttin tekur gróða sinn á þurru landi. Framleiðendur og neytendur verða að gjalda auðmannastéttinni þessa fúlgu, því að auðmennirnir verða að hafa sitt. Það, sem nú er að gerast, er það, að heildsalarnir og S.Í.S. ætla að skipta á milli sín verzlunarauðnum. Það þýðir, að hringarnir halda áfram að græða, að heildsalarnir halda áfram að græða, en alþýðan verður að borga brúsann. Eignakönnunarsjónarspilið sýndi glögglega, að auðstéttin ætlar ekki að skipta auði sínum við hina fátækari þegna þjóðfélagsins. Og hér á að halda áfram á sömu brautinni.

Þá vil ég minnast á það, sem sagt er að eigi að vera grundvallarstefna og tilgangur frv., en það er að skapa frjálsa verzlun í landinu. Ég hef leitað með logandi ljósi að einhverjum ákvæðum, sem tryggja ættu frjálsa verzlun. En ég hef hvergi séð örla á neinu í þá átt. Ég held, að ef þeir, sem að þessu frv. standa, meina eitthvað með þessum orðum sínum, þá ættu þeir að setja inn ákvæði, sem gæfi Íslendingum að einhverju leyti eitthvað af verzlun sinni frjálst. Hvers vegna er ekki hægt að leyfa Íslendingum að leita sé einhverra markaða sjálfir? Það væri ekki ósennilegt, að hægt væri að skapa hagkvæmari viðskiptasambönd með því.

Nú rekast á tvö kerfi í okkar þjóðarbúskap, sósíallsminn og kapítalisminn. Þessi tvö kerfi eru óheppileg í þessu þjóðfélagi með tilliti til framleiðslunnar o.fl. Það kerfi, sem meiningin var að koma á, var að hafa nokkurn áætlunarbúskap á kostnað einstaklingsframtaksins. Þetta fyrirkomulag hefur þann kost að veita nokkurt öryggi á vissum sviðum, en lamar auðvaldsfyrirkomulagið skiljanlega. Hér í frv. er talað um það, að það eigi að létta af höftum, en það, sem tryggi framkvæmd þess, er hvergi að finna. Það á einmitt skv. þessu frv. að viðhalda sama haftakerfinu og hingað til. En hins vegar verður afleiðingin sú, að það litla öryggi, sem fiskimenn höfðu, er ekki lengur til, en frelsið, sem örlar á í greinargerð frv., sést ekki í frv. sjálfu. Hér er verið að lögfesta einokunarklíku, sem á að ráða innflutningi og útflutningi landsmanna. Það á sem sé að viðhalda einokuninni á innflutnings- og útflutningsverzluninni og tryggja þannig áframhaldandi gróða á kostnað fiskimanna og bænda.

Ég vil segja viðvíkjandi þessu máli, að ég hef hugsað mér, ef ekki koma fram till. frá öðrum, er ganga í líka átt, að bera fram brtt.

Ég legg til, að þetta frv. sé fellt. Sú leið, sem Alþ. ætti að fana, er allt önnur; frumvarpið, sem líkja má við læknislyf, sem gefa á inn við sjúkdómi, er hringlandi vitlaust. Hagfræðingarnir hafa „analyserað“ sjúklinginn og ætla nú að fara að skera hann upp við allt öðrum sjúkdómi, en hann gengur með. Er þá von, að lækningin heppnist vel? Ég þykist nú sjá af yfirlýsingum hæstv. ríkisstj., að frv. þetta eigi að samþ., hvað sem það kostar. Ég mun bera fram brtt. við 2. eða 3. umr. málsins, og læt því lokið þessari framsögu.