17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 3. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil taka mjög eindregið undir þau ummæli hv. þm. Ísaf., að framkoma hæstv. ríkisstj. við meðferð þessa máls sé engan veginn eins og vera ber og í ýmsum atriðum beinlínis ámælisverð. Í gær urðu alllangar umr. við 2. umr. málsins. Til hæstv. ríkisstj. var beint ýmsum fyrirspurnum um það frv., sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. lagði fram og hæstv. núverandi ríkisstj. hefur gert að sínu máli. Við þetta frv. eru gerðar ýmsar mjög mikilvægar aths., en hæstv. ríkisstj: sér ekki ástæðu til annars, en að láta þær sem vind um eyru þjóta og gerir ekki tilraun til þess að svara þeim eða hrekja þær í nokkru verulegu atriði. (Viðskmrh.: Er ekki bezt að hafa þær óhraktar?)

Ef í þögninni felst viðurkenning hæstv. ríkisstj. á því, að það sé ekki hægt að hrekja aths. okkar við frv., þá tek ég henni með ánægju. En mig langar til að ganga úr skugga um, hvort svo sé. Á það má og benda, að það, sem hefur orðið til þess að tefja mál þetta, er, að staðið hefur á till. frá hæstv. ríkisstj. eða þeim minni hlutum í fjhn., sem hana styðja. Málið hefur hins vegar ekki verið tafið með málþófi eða neinu slíku.

Annars er ástæða til þess að vekja athygli á því, að frv. þetta hefur sízt batnað við þær breyt., sem gerðar hafa verið á því að undirlagi hæstv. ríkisstj. við 2. umr. Frv. hefur batnað í fáum atriðum, en versnað í mörgum. Það, sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni í þessu tilliti, eru ákvæði 3. gr., eins og hún er nú, um ráðstöfun á gengishagnaðinum. Ég vakti athygli á því í því nál., sem ég skrifaði um þetta mál, og líka í framsöguræðu minni, að gengishagnaðurinn, sem fram kemur við endurmat á erlendum inneignum bankanna, er alveg sérstaks eðlis. Hér er um að ræða reikningslegan hagnað einungis. Hér er alls ekki um að ræða greiðsluhæfar tekjur í neinum skilningi. Einmitt vegna þessa er það dálítið undarlegt, að þeir ágætu hagfræðingar, sem undirbjuggu þetta frv. upphaflega, skyldu leggja til að verja hluta af þessum gengishagnaði til þess að bæta upp sparifé landsmanna, m.ö.o. til þess að skapa nýjan kaupmátt í landinu. Hér er ekki um að ræða neinn raunverulegan kaupmátt. Jafnhliða gengisbreytingunni verða ekki til nein verðmæti, sem hægt sé að kaupa fyrir þennan gengishagnað. Ef þessum gengishagnaði er veitt út í hagkerfið, getur það ekki annað en aukið verðbólguna, sem fyrir er, en nauðsynlegt er að draga úr, enda þótt upphæðin, 10 millj. kr., sem á að ráðstafa til greiðslu sparifjáruppbóta, sé að vísu ekki svo há, að ástæða sé til þess að óttast mjög mikil verðbólguáhrif af henni. En meginreglan er jafnröng fyrir það. Hagfræðingarnir munu hafa talið, að ekki væri ástæða til að ætla, að þessar sparifjáruppætur yrðu teknar út þegar í stað, og mundu því ekki koma fram sem aukning á kaupmætti þeim, sem fyrir væri, heldur mætti búast við, að þetta yrði líkt og vextir lagt við sparifjárinneignina í heild og væri þar óhreyft. Þetta munu hafa verið höfuðrök þeirra fyrir því að leggja til að taka sparifjáruppbótaféð af gengishagnaðinum. Nú hefur hér aftur á móti verið breytt um stefnu í þessu efni. Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt til, að gengishagnaðinum öllum skuli þegar í stað verða varið til útlána í ákveðnum hlutföllum samkv. 3. gr. Að vísu á hér að vera um bráðabirgðalán að ræða, sem eiga að endurgreiðast, eftir því sem stóreignaskatturinn innheimtist. En samkv. reynslu um álagningu eignarskatta hér á landi má búast við, að það taki ár eða skipti árum, þangað til þessi skattur verði lagður á. Svo liður enn tími, þangað til skatturinn innheimtist. Og þá er augljóst, að hér er verið að stofna til aukningar á verðbólgunni í landinu, með því að veita út í hagkerfið nýjum kaupmætti, sem engin raunveruleg verðmætissköpun samsvarar. Hér er verið að taka hreinan bókfærsluhagnað, sem e.t.v. nemur 15–20 millj. kr. og alls ekki verður talinn greiðsluhæfur og á ekkert erindi út í hagkerfið, nema til þess að auka verðbólgu, og nota hann til lánveitinga og skapa þannig með honum nýjan kaupmátt, sem aðeins getur haft verðbólguáhrif. Þessi upphæð, hver sem hún er, er ekki svo há að vísu, að ástæða sé til að óttast ringulreið af hennar völdum. En ég vek athygli á þessu af því, að hér virðist vera á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstj. algerður skilningsskortur á því, hvað hér er um að ræða, skilningsskortur á þýðingu mjög mikilvægrar meginreglu í fjármálastjórn.

Hæstv. fjmrh. (EystJ) flutti við 1. umr. þessa máls mjög athyglisverða ræðu og lagði þar mjög ríka áherzlu á, að ráðstöfun eins og sú, sem lögð væri til í þessu frv., mundi reynast alveg gagnslaus, ef ekki væri breytt alveg um stefnu í fjárfestingarmálum og fjármálum ríkisins frá því, sem verið hefur. Auðvitað átti hann við ekkert annað en það, að hætta þyrfti þeirri stefnu, sem framfylgt hefur verið mörg undanfarin ár, að halda uppi óeðlilegri kaupgetu í landinu með lánsfjárþenslu af hálfu bankanna. Við þessari stefnu varaði hæstv. fjmrh. einnig í sinni að mörgu leyti mjög glöggu ræðu. — En hvað er eitt fyrsta verk hæstv. ríkisstj., eftir að þessi hæstv. ráðh. hefur tekið við embætti fjmrh.? Það að stiga mjög mikilvægt spor á þeirri braut, sem hann varaði við, því að hér er um hreina lánsfjárþenslu að ræða af hálfu bankanna, að vísu ekki í mjög stórum stíl, þar sem ekki er um mjög háa upphæð að ræða. En þessi aðgerð ber engu að síður vott um skilningsskort á því, um hvað hér er raunverulega að ræða, eða viljaskort til þess að framkvæma góðan ásetning. Og þetta spáir illu um stefnu þeirrar hæstv. ríkisstj., sem nú hefur tekið við völdum. Ef áframhaldið hjá henni verður líkt þessu, er ekki við því að búast, að stefna hæstv. ríkisstj. muni geta leitt til góðs í fjármálum þjóðarinnar, og þá heldur ekki við því að búast, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að knýja í gegn, muni geta komið að haldi. Þetta virtist hæstv. núverandi fjmrh. vera algerlega ljóst, meðan hann var aðeins hv. 1. þm. S–M. Hvort honum er þetta jafnljóst nú, eftir að hann er orðinn fjmrh., geri ég mér ekki fulla grein fyrir, og veit heldur ekki, hvort hann ber fulla ábyrgð á þessu eða það eru önnur öfl, sem að þessu standa. Mér er sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi fengið aðvörun varðandi þetta mál frá þjóðbankanum, en ekki séð ástæðu til að sinna því. Og mér er nær að halda, að annar flokkurinn, sem að ríkisstj. stendur, hafi fengið aðvörun um þetta frá hagfræðingi, sem hann metur mikils og hefur ástæðu til að meta mikils. Hann mun heldur ekki hafa séð ástæðu til að ljá þeim röddum eyru. Þetta virðist ekki spá góðu um framtíðina, þótt í litlu sé. En mjór kann að vera hér mikils vísir. Og hér hefur hæstv. ríkisstj. ekki tekizt að stiga sín fyrstu spor eftir þeim meginreglum, sem hæstv. núverandi fjmrh. taldi sig fylgjandi, áður en hann tók að sér þetta mikilvæga embætti.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um það, að mér finnst afstaða hæstv. ríkisstj. við afgreiðslu þessa máls við 2. umr. að ýmsu leyti vera mótuð af mjög mikilli óbilgirni gagnvart sjónarmiðum, sem haldið hefur verið fram af Alþýðusambandi Íslands og launþegasamtökunum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til annars en að skella skolleyrum við mjög eindregnum óskum alþýðusamtakanna um það að fella niður 2. gr. frv. og gera nokkra breyt. á ákvæðunum um greiðslu vísitöluuppbótar. Þessi vilji alþýðusamtakanna er mjög eindreginn, og að baki honum liggur fyllsta alvara. Alþýðusamtökin hafa ekki sýnt neitt ábyrgðarleysi. Framkoma þeirra hefur alls ekki verið ögrandi í þessu máli fram til þessa. Og það hefði verið fyllsta ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að taka með meiri sanngirni og meiri velvilja þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið frá alþýðusamtökunum. Hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar ekki gert það. Fyllsta ástæða er til að vara hæstv. ríkisstj. við afleiðingum þess, ef hún knýr málið gegnum þingið á sama veg eins og hún knúði það gegnum 2. umr. í þessari hv. d. Það er sem sagt mjög eindreginn vilji fyrir því hjá alþýðusamtökunum, að 2. gr. frv. falli niður. Það verður ekki um hana annað sagt en að í henni felist allt að því hótun í garð alþýðusamtakanna, ef þau haldi sér ekki á mottunni í kaupgjaldsmálunum. Þetta hefur óheppileg áhrif, og ef hæstv. ríkisstj. hefur vilja á, að þessar ráðstafanir beri árangur, þá ætti hún að taka meira tillit til samtaka launþeganna í landinu, en hún nú gerir. Það er og mjög eindreginn vilji alþýðusamtakanna, að ákvæðum 4. og 7. gr. verði breytt þannig, að kaupgjaldsbreytingar verði mánaðarlega, eins og vísitala segir til hverju sinni, en ekki eins og nú mælir fyrir í frv. Þá er það krafa þeirra, að kaupgjald verði í samræmi við sem réttasta vísitölu. Enginn getur mótmælt því, að sé vísitala á annað borð reiknuð út, eigi hún að vera sem sönnust og réttust, en hæpið er, að vísitalan verði rétt samkvæmt frv. Þá verð ég að láta í ljós undrun yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til að taka tillit til þeirrar till. að láta uppbætur einnig ná til lifrarpeninga háseta á togurum, en þeir eru venjulegt kaupgjald, þó að hagfræðingarnir sæju það ekki og héldu, að þeir væru hliðstæðir aflahlut, það er misskilningur, og verða þeir því að breytast eins og annað kaup. Er það harla undarlegt, ef halda á niðri kaupi togarasjómanna, á sama tíma sem kaup yfirmanna á skipum þessum er hækkað. Ég vænti þess því eindregið, að hæstv. ríkisstj. fallist á þessa breytingu eða breyti þessu ákvæði sjálf, þannig að uppbót verði greidd á lifrarpeninga til undirmanna á togurum og að kaup yfirmanna hækki ekki eins gífurlega og frv., eins og það er nú, gerir ráð fyrir.

Þá finnst mér breytingin á ákvæðinu um uppbætur á sparifé ekki til bóta, hvorki lenging bótatímans né ákvæðin um innstæður í verzlunum og samvinnufélögum og fleiri hálfopinberum stofnunum, enda er sennilega hægt að misnota þau. Ég hélt satt að segja, að það væri hlutverk hæstv. ríkisstj. að reyna að draga úr skriffinnskunni og öllum óþarfa kostnaði, eða svo heyrðist mér a.m.k. á hæstv. viðskmrh., en það er eins og ég sagði áðan, að ekki er lifað eftir því, sem prédikað er. Hér er að ástæðulausu stefnt út í aukna skriffinnsku og kostnað hjá hinu opinbera, auk þess sem ákvæðin eru næstum óframkvæmanleg. Bankarnir og þeir menn, sem bezt þekkja til þessara mála, hafa lagt til, að þessi háttur yrði ekki á hafður, en samt gerir hæstv. ríkisstj. þessa breyt. Nær hefði verið að breyta þessu þannig, að uppbætur hefðu verið greiddar á verðbréfaeign. Hér er raunverulega verið að mismuna sparifjáreigendum, þar sem sparifé í verðbréfum er ekkert bætt, en hins vegar tekið að bæta þýðingarlausa verzlunarinnstæður, sem aðeins hefur í för með sér skrifirí og umfangsmiklar rannsóknir á smámunum. Það er tekið fram, að uppbætur séu aðeins greiddar á það fé, sem talið hefur verið fram til skatts, en til þess að ganga úr skugga um, hvort það hafi verið gert, þarf yfirgripsmikla rannsókn, sem kostar sennilega meira en þeirri uppbót nemur, sem sparifjáreigandi fær.

Þá vil ég benda á það, að enn helzt það óeðlilega ósamræmi í eignamatinu, sem var í frv. í upphafi, að margfalda fasteignir með hæst 6 og niður í 3, en aftur á móti eru skip, sem eru áhættusöm eign, metin á tryggingarverði, og verður eigandi að fá sérstakt mat, ef hann vill fá lægra metið. Trygg eign er þarna metin langt undir söluverði, en jafnótrygg eign og skip jafnvel yfir söluverði. Ég furða mig satt að segja á því, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa látið þetta ákvæði fara óbreytt í gegnum tvær umr. hér í þinginu, sérstaklega þegar þetta frv. á að vera kjarabót fyrir sjávarútveginn, en með þessu móti er hallað á hann.

Þá langar mig til að leggja hér 5 fyrirspurnir fyrir hæstv. ríkisstj. og óska eindregið eftir skýrum svörum, því að öll atriðin skipta miklu máli.

1. Telur ríkisstj., að fiskverð bátaútvegsins geti hækkað frá því, sem nú er, upp í 93 aura? Allir útreikningar hagfræðinganna byggjast á því, að það geti orðið 93 aurar, en nú er það 83 aurar. Nú er það vitað, að rekstrarkostnaður bátaútvegsins eykst við gengislækkunina vegna hækkaðs olíu- og veiðarfæraverðs o.fl. Nú hefur því verið lýst yfir af fulltrúum L.Í.Ú., er þeir ræddu við fjhn., að ólíklegt væri og einn sagði útilokað, að hraðfrystihús og saltendur gætu nokkuð hækkað fiskverðið. Alþ. getur ekki afgreitt frv. án þess að heyra skoðun hæstv. ríkisstj. á þessu. Ég ætlast ekki til, að hún staðhæfi neitt um það, hvað hraðfrystihús og saltendur muni greiða, en hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa einhverja skoðun á því, hvað þessir aðilar geti greitt. Ef ríkisstj. er sammála fulltrúum L.Í.Ú., þá er hún skyldug til að láta það koma fram, svo að hv. þm. viti. hvað hér er að ske, því að þá tryggja þessar ráðstafanir ekki einu sinni bátaútveginn hvað þá heldur hraðfrystihúsin. Það er því nauðsynlegt að fá upplýsingar um, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera, ef hraðfrystihúsin og saltendur vilja ekki greiða nema 83 aura.

2. Eins og kunnugt er, hefur krónan nú undanfarið verið verðfelld gagnvart líru, þannig að útflytjendur til Ítalíu hafa fengið 50% hærra verð fyrir vöru sína heldur en svaraði skráðu gengi. Ég hef skilið frv. svo, að þetta væri nú úr gildi numið og líran yrði skráð sem annar erlendur gjaldeyrir, en það hefur í för með sér, að líran hækkar nú mun minna en annar erlendur gjaldeyrir, eða um 16%, og hef ég heyrt því fleygt, að saltfiskútflytjendur telji, að þeim útflutningi sé stefnt í hættu, ef líran hækkar ekki meira. Það mun hafa komið til tals í hæstv. fyrrv. ríkisstj. að hækka gengi lírunnar svo, að þetta gotupeningafyrirkomulag héldist eftir sem áður. Ég tel því mjög mikils um vert að fá upplýsingar um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í þessu efni.

3. Fyrirspurn varðandi 9. gr. frv., en það hefur komið fram, að ákvæði hennar eru skilin á tvennan hátt. Í upphafi 9. gr. segir svo: „Verð vöru, sem framleidd er og seld innanlands, má hækka sem nemur hærri erlendum kostnaðarliðum og sem nemur innlendum kostnaðarliðum, öðrum en launum.“ Ég og fleiri hafa skilið þetta svo, að hér væri einungis átt við innlendar iðnaðarvörur, því að í 2. mgr. segir, að gildandi ákvæði um verðlagningu landbúnaðarafurða skuli haldast, og þannig mun Stéttarsamband bænda einnig hafa skilið þetta, því að það skrifaði fjhn. og lagði til, að hækkun mætti verða á landbúnaðarvörum strax, á sama hátt og mælir fyrir í 1. mgr., eins og væri hjá iðnaðinum. En þó að þetta sé skilningur Stéttarsambands bænda, þá hef ég heyrt því fleygt, að sumir forvígismenn bænda telji, að skilja beri þetta á hinn veginn og að hækka megi verð á þessum vörum þegar í stað. Ef skilja ber þetta á þann veg, þá verður hækkun á framleiðslu og kaupgjaldi örar og fyrr en ella, og tel ég nauðsynlegt, að skilningur hæstv. ríkisstj. á þessu komi fram.

4. Þá vildi ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvort það sé ætlun hennar að framlengja gildandi bráðabirgðaákvæði um söluskatt? Í frv. er gert ráð fyrir því, að söluskatturinn falli niður, en fjhn. fékk þær upplýsingar hjá hæstv. viðskmrh., að hann teldi ófært að fella skattinn niður. Ég óska eftir skýrum svörum frá hæstv. ríkisstj. um fyrirætlanir hennar í þessum efnum. Þá vil ég skjóta því fram, hvort hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir því, hvaða áhrif söluskatturinn hafi á framfærsluvísitöluna. Ég hef að vísu ekki athugað það nákvæmlega, en tel, að það muni nema um 3% breytingu á vísitölunni, hvort söluskatturinn er reiknaður með eða ekki.

5. Þá langar mig til að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún sé öll sammála þeirri grundvallarkenningu hagfræðinganna, að kjararýrnun launþeganna verði mun minni en ella vegna þess, að sá gróði, sem safnazt hefur til iðnaðar og verzlunar á undanförnum árum í skjóli haftanna, muni nú falla útflutningsatvinnuvegunum í skaut, er höftum verði af létt. En það er einn af hornsteinum kenninga þeirra, að við það, að losað sé á verzlunarhöftunum, þá muni gróðinn frá verzlun og iðnaði renna til útvegsins, þannig að hagnaður útvegsins muni ekki að öllu leyti tekinn frá launþegunum. Mig langar til að vita, hvort þessi grundvallarkenning hagfræðinganna sé í samræmi við skoðun allrar hæstv. ríkisstj.

Að síðustu vil ég fara örfáum orðum um brtt. þær, sem ég ber fram á þskj. 444. Í fyrsta lagi er lagt til, að Alþ.. ráði áfram gengi íslenzkrar krónu. Þá tek ég enn fremur upp brtt. þá varðandi uppbætur til íslenzkra námsmanna erlendis vegna gengisbreytingarinnar, sem flutt var hér í gær, en gat ekki komið til atkvæða. Í þriðja lagi er lagt til, að 1. maí 1950 skuli kaup breytast í hlutfalli við þá breytingu, sem verður á vísitölu kauplagsnefndar frá 1. marz til 1. apríl 1950. Upp frá því skal kaup breytast hinn fyrsta hvers mánaðar í hlutfalli við þær breytingar, sem verða á vísitölunni. Þetta þýðir, að breytingar þær á vísitölugrundvellinum, sem gert er ráð fyrir í 4. gr., yrðu ekki framkvæmdar. Enn fremur er lagt til, að uppbót verði greidd á lifrarpeninga skipverja, þ.e. að 7. gr. falli niður. Þá flyt ég brtt. við 12. gr., að í stað talnanna „6“, „5“, „4“ og „3“ í 1. tölul. 2. mgr. komi: 7, 6, 5 og 4, og við skattaákvæði sömu greinar, að skattstiginn verði hækkaður og gerður meira stighækkandi, en samþ. var við 2. umr. Ég tel, að byrði sú, sem lögð er á eignastéttina í frv., eins og það var samþ. hér í nótt, sé of lítil, miðað við það, sem lagt er á launastéttirnar. Þá er lagt til, að skipting skattfjárins sé önnur, en gert er ráð fyrir í frv. eins og það er nú. Í till. minni er lagt til, að fénu verði skipt í tvennt, annar hlutinn fari til að greiða lausaskuldir ríkissjóðs, en hinum hlutanum verði skipt þannig, að 2/3 renni til byggingarsjóðs verkamanna, en 1/3 renni í byggingarsjóð sveitanna. Þetta er rökstutt þannig, að meira en 2/3 hlutar þjóðarinnar búa á því svæði, sem byggingarsjóður verkamanna nær til, og er því ósanngjarnt að hafa helmingaskipti. Þá er brtt. við ákvæðin um úthlutun sparifjárbóta, og er það sama tilhögun og Landsbankinn hefur lagt til. Ég ræddi þetta atriði við 2. umr. og þarf ekki að endurtaka það. Þá legg ég til, að persónufrádráttur verði hækkaður, því að nauðsynlegt er að gera tekjujöfnunarráðstafanir, og er þá einfaldast að hækka persónufrádráttinn. Það er bæði einfalt í framkvæmd og kemur réttlátast niður og kemur einkum að miklu haldi þar, sem um barnmargar fjölskyldur er að ræða.