17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt brtt. við brtt. þær, sem fram hafa komið frá meiri hl. fjhn. þessarar d. á þskj. 448, við 8. lið þeirra, og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við tölulið 2, b-lið. Á eftir orðunum „skipverja á togurum“ komi: annarra en háseta, kyndara og matsveina.“ — Till. fer sem sé fram á það, að hásetar, kyndarar og matsveinar fái að njóta góðs af þeirri gengislækkun, sem meiri hl. Alþingis sameinast um að koma fram. Ég býst við, að eitt af þeim atriðum, sem sá meiri hl., sem virðist hafa myndazt um það að lækka gengið, hefur ekki kynnt sér til fulls, séu launakjör háseta á togurum. Hann gerir sér sennilega ekki ljóst, að hásetar á togurum eru dæmdir til þess að vinna 16 tíma á sólarhring mánuðinn út, að undanteknum kannske einum, tveimur eða þremur dögum, sem fara í löndun á fiskinum í Reykjavík, fyrir kaup, sem nemur tæpum 2 þús. kr. á mánuði, þannig að ef þetta kaup yrði reiknað út í klukkustundafjölda, kæmi í ljós, að þetta er langlægst launaða stéttin í landinu, þó að hér sé um að ræða vinnu, sem er mjög arðbær og sú erfiðasta vinna og hættulegasta, sem við þekkjum í okkar þjóðfélagi. Þessi gengislækkun, sem frv. snýst um, mundi veita hásetum, miðað við venjulega sölu, svona 500 kr. í kaupuppbót, þannig að þeir fengju 2.300–3.000 kr. á mánuði fyrir erfiði sitt. En það verður vafalaust með þetta eins og fleira, sem fram hefur komið af ábendingum, að þessir flokkar, sem að frv. standa og að núv. hæstv. ríkisstj. standa, vilja ekki hlusta á nein rök, heldur stinga hausnum í sandinn og bjóða byrginn alþýðusamtökunum og öðrum samtökum í landinu, en láta stjórnast af hagsmunum örfárra auðmanna í Rvík. Það verður fróðlegt fyrir þessa skipsmenn á togurunum, sem nú vinna fyrir innan við 2 þús. kr. á mánuði erfitt og arðbært starf fyrir þjóðfélagið, það verður fróðlegt fyrir þá að vita, sem standa svo framarlega í baráttunni fyrir því að halda uppi útflutningsframleiðslu okkar, hvaða kveðju þeir fá frá þeirri nýju ríkisstj., sem nú er setzt að völdum. Og ríkisstj. getur alveg bókað það hjá sér, að undirtektir hennar undir þetta og önnur réttlætismál, sem hafa verið fram borin, en felld hér með fyrirlitningu, munu verða til þess, að almenningur í þessu landi mun á skömmum tíma gera sér ljóst, í hvers umboði ríkisstj. starfar og hvað hún hyggst fyrir.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er í stuttu máli kaupgjaldsmálafrv., sem nú er framkvæmt, ekki með því að skerða vísitöluna, það var búið að því áður, og þessum flokkum hefur ekki þótt ráðlegt að fara sömu leið, heldur er nú tekin upp ný aðferð. Nú er gengið lækkað og þannig um hnútana búið, að þessi gengislækkun verður eingöngu skerðing á lífskjörum almennings í landinu, sérstaklega launamanna. Þetta er gert á dálítið lævísan hátt og sniðugan, enda eru fylgismenn frv. mjög hreyknir yfir því, hvað þeir hafi verið sniðugir, og keppast um að hæla þeim hagfræðingum, sem hafa leitt inn slíkan rótarskap sem hér kemur fram í frv. gagnvart þjóðinni. En þeir geta verið vissir um það, að almenningur á eftir að reyna, hvernig þetta frv. verkar gagnvart honum, og margir þeirra, sem nú eru kallaðir á fund hjá Sjálfstfl. og Framsfl. og fræddir um, að hér sé verið að leysa öll vandamál þjóðfélagsins án þess að ráðast á launþega, munu eftir nokkurn tíma finna í eigin peningabuddu, að það hefur verið leikið illilega á þá.

Röksemdir hagfræðinganna fyrir þeim aðgerðum, sem hér er verið að lögfesta, eru mjög furðulegar, en auðséð á öllu, að vísindi þeirra, sem þeir bera mikið fyrir sig, eru sveigð fram og til baka eftir því, sem yfirmenn þeirra segja þeim fyrir verkum í hvert skipti, og fræðikenningarnar sveigðar þannig til, eftir því sem á þarf að halda. Þetta hagfræðingaglundur getur raunar blekkt nokkurn hóp manna í bili, en aðeins í bili, og verður ekki mikið úr aðgerðum núv. hæstv. ríkisstj., ef hún lætur stjórnast af þeim barnaskap, að hún geti með svona „fiffi“, eins og hér er t.d. talað um í sambandi við launauppbætur til launamanna, komizt hjá því að verða stimpluð sem stjórn til þess að skipuleggja árásir á launamenn þessa lands. En allt er þetta nú gert í því skyni, eftir því sem fylgismenn frv. segja, að bjarga sjávarútveginum. Já, nú á að bjarga sjávarútveginum.

Í sambandi við þá till., sem ég flyt um það, að hásetar, kyndarar og matsveinar verði látnir njóta góðs af þeirri kauphækkun, sem kynni að verða vegna gengislækkunarinnar, vil ég benda ríkisstj. á það, að nýlega er búin að sitja hér sjómannaráðstefna, sem samþykkti einróma að segja upp samningum og fá betri kjör, og eru það sérstaklega saltfiskkjörin, sem gera þetta að verkum. Þeir geta ekki sætt sig við sín kjör. Og þrátt fyrir að það er vitanlegt, að sjómenn hafa á prjónunum að segja upp samningum, ætlar ríkisstj. enn einu sinni að veita þeim löðrung með því að sjá svo um, að þeir geti ekki fengið þá hækkun, sem þeir annars ættu að fá með þessu gengislækkunarfrv., þegar stjórnarflokkarnir eru búnir að koma því fram. Þannig er nærri því fyrirsjáanlegt, að beinlínis með aðgerðum sínum í þessu máli, sem eiga að vera bjargráð fyrir útveginn, sé ríkisstj. einmitt að stuðla að verkföllum. Við munum öll eftir verkfallinu, sem var háð hér í fyrra og stóð í röska tvo mánuði. Við eyddum bezta tíma vertíðarinnar, meðan sölur voru ágætar í Englandi, í verkfall. Það var raunar ekki verkfall, heldur verkbann, sem útgerðarmenn lögðu út í, og það er engu líkara en að ríkisstj. vilji stefna að því sama nú. En hún getur verið viss um það, að ef hún ætlar að snúa sér þannig gagnvart öllum almenningi og veita þannig hverjum sinn löðrung, þá verður tekið á móti, þegar svona áþreifanlega er að mönnum veitzt. Hér hefur ekki verið unnið í samráði við togaraeigendur eða útgerðarmenn, heldur hafa nokkrir stjórnmálabraskarar lokað sig innan veggja með svo kallaða hagfræðinga til þess að semja þetta með tilliti til hagsmuna fámennrar auðmannaklíku, hér í Rvík, sem starfar ekki að neinum framleiðslustörfum, en lifir á milliliðum og gjaldeyrisbraski.

Í brtt. þeim, sem lagðar hafa verið fram af meiri hl. fjhn., kemur fram, að taka á tillit til þess, áður en framleiðslugjald er tekið af sölu togaranna erlendis, að meðaltal fjögurra túra verði 8.500 pund. Er það að því leyti leiðrétting frá því, sem áður var, að þá var miðað við tvo túra. Engu að síður er haldið áfram þeirri reglu að láta borga fast gjald af ísfiski, sem er lagður upp hér á landi, án tillits til afkomumöguleika og sölu á þeim fiski, sem þannig er unninn. Það er augljóst, að ef þetta er framkvæmt svona og eins og ríkisstj. hyggst að knýja það gegnum þingið, þá getur svo farið, að togarafélögin tapi hundruðum þúsunda, en þurfi kannske samtímis að borga hundruð þúsunda í opinbera skatta. Gæti þetta hæglega orðið rothögg á togarafélög þau, sem nýlega eru upp runnin úti á landsbyggðinni, og mun þetta vera beinlínis í því skyni gert að losna við þessi nýju félög og koma togurunum á hendur þeirra fáu auðmanna, sem standast þessar ráðstafanir.

Að því er snertir bátaútveginn, þá er frv. í raun og veru en hatrammara, gagnvant honum, en jafnvel gagnvart launamönnum. Með frv. er felldur niður hinn svo kallaði vátryggingastyrkur, sem útgerðarmenn hafa talið jafngilda 10 aurum á hvert kíló fisks. Þessi vátryggingastyrkur fellur niður, en auk þess hækkar olía og veiðarfæri við gengislækkunina, sem vafalaust er hægt að reikna 6–7 aura, þannig að lækkun fiskverðsins mun nema kringum 16–17 aurum frá þeim 85 aurum, sem útvegsmenn hafa reiknað sér. Verður þetta þannig til þess, að fiskverðið kemst niður í 68–69 aura. Nú eru ekki liðnar nema fáar vikur síðan við sátum hér á Alþingi við að semja l. um fiskábyrgðina, og þá lá fyrir till. um það að ákveða fiskverðið 75 aura, en hins vegar komu fram kröfur um það frá útvegsmönnum, að það yrði að vera yfir krónu. Ég held, að allir alþm. hafi verið sammála um það, að með 75 aura fiskverði væri farið í það ýtrasta lágmark, sem nokkur von væri um að bátaútvegurinn gæti flotið með. Og þó er nú aftur verið að flytja frv., sem leggur byrðar á launþega þessa lands, sem nema meira en hundrað milljónum, og er flutt í þeim fagra tilgangi að bjarga útveginum á Íslandi, sem hefur það í för með sér að lækka fiskverðið um 16–17 aura. Ofan á þetta bætist það að, að undantekinni einni einustu verstöð á landinu er fiskmagnið, það sem af er þessari vetrarvertíð, miklu minna, en það hefur verið undanfarin ár. Það er aðeins við Hornafjörð og Austurland, sem fiskveiðin hefur verið meiri. Annars staðar hefur hún verið mjög miklu minni, en undanfarin ár. Svo er Alþingi að samþykkja lækkun á fiskverðinu, sem útgerðarmenn og sjómenn héldu, að yrði látið haldast þessa vertíð, þar sem fiskábyrgðarfrv. gildir til 15. maí 1950. En hvað segja nú hagfræðingarnir, sem hafa undirbúið þetta frv.? Samkv. þeirra útreikningi eiga útvegsmenn að fá 93 aura, þegar búið er að fella gengið. En þetta er bara tala, sem á að flagga framan í þessa fávísu útgerðarmenn, sem taka þessa menn alvarlega. Það liggur þegar fyrir yfirlýsing um það, að hraðfrystihúsin muni alls ekki borga meira en 75 aura verð eftir gengislækkunina, og ég dreg meira að segja í efa, að hraðfrystihúsin geti það. Þau segja, að þegar búið sé að nema burt fiskábyrgðina, komi svo margar áhættur í sambandi við okkar fiskverkun og sölu á afurðum okkar, að þau geti ekki borgað svona hátt verð. Þessir menn segjast þurfa að hafa miklu meiri peninga upp á að hlaupa til þess að mæta þessari áhættu, og í því sambandi segjast þeir t.d. ekki vera vissir um, að þeir losni við fiskinn. Fiskábyrgðarl. eru trygging fyrir því, að þeir losni við fiskinn fyrir ákveðið verð. Nú er það öryggi tekið burt, og þá segja hraðfrystihúsin, að það verði að vera miklu meiri munur á hugsanlegu söluverði og hráefnaverði til þess að geta mætt þeirri áhættu. Það er nokkuð til í þessu, en þetta eru vandræðin, sem það veldur að afnema fiskábyrgðina, og 93 aura verðið hrekkur hvergi nærri til nema í heila hagfræðinganna, sem þannig blekkja menn með því að segja, að verið sé að bjarga með þessum lögum. Ég er sannfærður um það, að hefði þetta frv. verið samþ. áður en þessi vetrarvertíð hófst og ekki verið samþ. nein fiskábyrgðarl., þá hefði engin vetrarvertíð hafizt. Það eru tiltölulega fáir bátar, sem hafa farið á sjó. Nú er þetta frv. knúið fram í trausti þess, að menn geti ekki annað en farið á vertíðina. Mennirnir eru búnir að útbúa bátana, þannig að þeir verða að halda áfram, að það er það eina, sem tryggir áframhald rekstrarins, eftir að þetta frv. er orðið að l. Nú er það fullkomlega óvíst, hvað bankarnir segja um það að lána út á afurðir hraðfrystihúsanna. Það er t.d. þannig nú, að bankarnir eru öruggir með það, sem þeir lána út á fiskinn, vegna fiskábyrgðarinnar. Nú þegar ríkisábyrgðin er afnumin, þá fara bankarnir að meta það, hvaða möguleikar séu, á því að selja fiskinn, og ef bankastjórar okkar, sem eru kunnir að því að vera varkárir og hafa ekki þjáðst af allt of mikilli bjartsýni, meta svo, að við getum ekki selt nema 15 þúsund tonn af hraðfrystum fiski í stað 30 þúsund tonna, sem verið hefur undanfarið, þá verða hraðfrystihúsin rekin aðeins hálfan tímann, miðað við það, sem undanfarið hefur verið, og það þýðir stóraukið atvinnuleysi. Sama er að segja um saltfiskframleiðsluna. Bankarnir mundu vega það og meta, hve mikið af henni væri hægt að selja, og mundu ekki lána út á annað. Þetta gæti e.t.v. gengið á vertíðinni hér sunnanlands, en ekkert þar fram yfir, og austanlands, norðan og vestan, þar sem eru vor- og haustvertíðir, mundi fólk standa uppi allslaust. Frv. er því til þess að stöðva sjávarútveginn, því að ákvæði þess um að afnema fiskábyrgðina stöðva bæði hraðfrystihúsin og saltarana, af því að bankarnir draga að sér höndina með lán. Nei, það er ábyggilegt, að hæstv. ríkisstj. veður í villu og svima, ef hún heldur, að hún komist upp með svona auvirðilegar loddarakúnstir eins og í þessu frv., og get ég tekið undir með hv. 8. landsk., að alþýðusamtökin munu svara þeirri ögrun, sem þetta frv. felur í sér, og þeirri ögrun, sem komið hefur fram við afgreiðslu hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar á till. þeim, sem fram hafa komið til leiðréttingar á frv. hér á hv. Alþingi. Ég veit, að stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. munu reyna að beita áhrifum sínum innan launþegasamtakanna til þess að fyrirbyggja gagnráðstafanir af þeirra hálfu. Ég veit, að Sjálfstfl. kippir í spottann í þeim félögum, þar sem hann á formenn eða stjórnarmeðlimi, og ég býst við, að þeir hlýði flokknum, og minna má hv. Alþfl. á það, að sumir þeirra eru kosnir vegna stuðnings hans. En það hefur komið í ljós, að sjálfstæðismenn, sem eru í trúnaðarstöðum í launþegasamtökunum, hafa fengið um það fyrirskipun frá Holsteini að hindra allar aðgerðir launþeganna, og sams konar fyrirmæli hafa framsóknarmenn fengið, og máske fær þetta tafið fyrir í bili, en það verður þá til að sannfæra verkalýðssinna innan samtakanna um það, að þeim ber að snúa saman bökum og verjast innrás erindreka atvinnurekendavaldsins, og sú flugumennska, sem Sjálfstfl. ætlar að knýja sína menn til að reka innan verkalýðssamtakanna, verður nýr lærdómur fyrir verkalýðsfélögin um að tryggja sér örugga forustumenn. Sama er upp á teningnum hvað snertir útvegsmenn. Ég hef oft horft upp á, að fundir útvegsmanna sitja hér dögum og vikum saman og eru með alls konar kröfur, t.d. í vetur, er þeir kröfðust að fá meira en eina krónu fyrir kg af fiski og fluttu þá kröfu hingað í Alþingi. Alþingi samþykkti þó aðeins 75 aura ábyrgðarverð, og nú á fiskverðið að lækka ofan í 68 aura samkv. þessu frv., en nú er enginn fundur í L.Í.Ú. Nú heyrist ekkert frá því. Það er eins og það sé ekki til. Og hvers vegna? Jú, vegna þess, að Sjálfstfl. hefur kippt í spottann og sagt við sina menn í stjórninni: „Þið megið alls ekki mótmæla frv.“, og þótt þeir séu sannfærðir um, að með þessu frv. sé verið að gera árás á sjávarútveginn, þá eru þeir svo sauðtryggir Sjálfstfl., að þeir láta ekkert á sér bæra. — Það er mesti misskilningur, ef hæstv. ríkisstj. heldur sig vera að leysa vandann með þessu máti. En hver er þá tilgangurinn með þessu frv.? Ekki er til hagsbóta fyrir sjávarútveginn og ekki til hagnaðar fyrir launþegana, þótt fulltrúar Sjálfstfl. í verkalýðssamtökunum séu látnir segja á fundi, að skammarlega mikið tillit sé tekið til hagsmuna launþega í frv., samkv. blaðafrétt í Vísi. En af hverju er þá frv. flutt? Til þess, að hin fámenna klíka auðmanna hér í Reykjavík, sem sér fram á, að útflutningsframleiðslan er að skreppa saman, svo að bráðum hafi hún engan gjaldeyri til að skipta á milli sín, það er til þess, að hún fái verðmætari gjaldeyri til að græða á. Það er ekki verið að tala við þá, sem framleiða gjaldeyrinn, og ef þeir mögla, þá er ekkert tillit tekið til óska þeirra og þeim bannað að gera nokkrar kröfur. Þeir, sem réðu samningu þessa frv., eru þeir, sem skipta gjaldeyrinum á milli sín, og þegar þeir sáu fram á, að hann mundi minnka, þá var bara að ráða bót á því með gengislækkun, og svo mikið tillit er tekið til hagsmuna auðmannanna, að í frv. felst engin bót fyrir sjávarútveginn, heldur stórvandræði ofan á þær þrautir, sem frv. bakar launþegum og munu valda miklum óróa og truflun í atvinnulífi þjóðarinnar. Það fyrirkomulag, sem tryggir þeim, sem fá gjaldeyrinn til að verzla með, gróða, samtímis því sem atvinnuvegirnir, sem skapa gjaldeyrinn, tapa, það er þetta fyrirkomulag, sem veldur því öngþveiti, sem nú er í efnahagsmálum okkar, og enn fremur það að skipta þannig í sjávarútveginum, að þeir, sem hann reka, hafa engin umráð yfir aflanum eða þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir hann, en heildsalarnir fá gjaldeyrinn gegnum pólitískar klíkur og áhættulaust. Og ekkert skal slaka til. Það hefur meira að segja heyrzt, að nú eigi að afnema frílistann, hvað þá annað, svo að sama óheillaþróunin á að halda hér áfram og verri en áður, eftir að frv. er orðið að lögum. Ég býst við, að hægt sé að reikna út með svipaðri þróun og verið hefur og hæstv. ríkisstj. stefnir að, að þá sé hægt að reikna út, hvenær við verðum næst komnir í þrot aftur, og ég býst við, að raunar verði ekki nema fáir mánuðir þangað til, en þá er bara þessi einfalda lausn: að fella gengið aftur. Og verði ekki breytt um grundvallarstefnu þá, sem nú ríkir í fjármálalífinu, þá munu þeir skammsýnu fjáraflamenn, sem nú ráða þar öllu, brátt komast inn á hina húnversku aðferð til að leysa vandann, og þá mun þess ekki langt að biða, að við kaupum eldspýtustokkinn á milljónir króna. „Tíminn“ sagði í fyrra eða hittiðfyrra, að gengislækkun væri auvirðilegasta leiðin, sem þeir skammsýnu gætu gripið til, og nú hafa þessi spádómsorð sannazt. Og það er skökk braut, sem með henni er farið inn á, en með aðgerðum fyrrv. ríkisstj. var það skref að hálfu leyti stigið, svo að erfitt er annað að gera, — en núv. ríkisstj. vill stíga það spor til fulls og með því fara út á mjög hálan ís, þar sem erfitt er að stöðva sig. Reynsla annarra þjóða sýnir, að á þeim ís hafa þær runnið lengra og lengra og sumar alveg eyðilagt sinn gjaldmiðil. Eðlileg lausn þeirra vandamála, sem nú blasa við okkur, er að leita samstarfs við samtök launþeganna og annarra vinnandi stétta og tryggja áframhaldandi atvinnurekstur, því að þar er fyrir hendi fullur vilji allra um að stilla svo í hóf kröfum, að hægt væri að reka atvinnuvegina áfram, en þótt hæstv. ríkisstj. viti um þennan velvilja og treysti honum, þá má hún ekki misbjóða honum. Þegar fólkið finnur á sig lagðar auknar byrðar, til þess að örfáir einstaklingar geti velt sér í stórgróða, og ef gjaldeyrisfyrirkomulagið er óbreytt, þá mun almenningur bregða við hart og títt og svara fyrir sig, þegar ríkisstj. kastar þannig til hans hanzkanum og ætlar að leysa vandamálin eingöngu á kostnað hinna efnaminni í þjóðfélaginu, og ekki sízt af því, að flokkar hæstv. ríkisstj. skella alveg skolleyrunum við þeim leiðréttingum, sem flokkar launþeganna hafa reynt að fá fram. — Ég veit það einnig, að það verður reynt að sundra samtökum alþýðunnar, til þess að fyrirbyggja gagnráðstafanir af hennar hálfu, en það mun reynast haldlítið. Alþýðan mun sameinast, og fyrsta skrefið er þegar stigið með ráðstefnu Alþýðusambands Íslands, þar sem allir fulltrúar mótmæltu þessu frv. En það er aðeins upphafið. Verkalýðsfélögin munu taka upp virka baráttu til þess að stöðva það tilræði, sem nú er stofnað til gegn öllu vinnandi fólki í landinu. — Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta brtt. mína, sem ég lýsti í upphafi máls míns.