18.03.1950
Efri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en vil leyfa mér að leggja fram eina skriflega brtt. Því hefur verið haldið fram af flm. þessa frv., eða í áróðri fyrir því, að verkalýðsfélögin verði á engan hátt bundin, þó að það verði að lögum, og geti því notað sinn rétt til kauphækkana, ef nauðsyn krefur. Nú er í síðustu mgr. 6. gr. ákvæði, sem sviptir þau félög eða meðlimi þeirra félaga, sem nota sér þennan rétt, allri vísitöluuppbót. Í þessu tel ég að felist binding fyrir verkalýðsfélögin, en vegna þess að því hefur verið haldið fram, að þau væru frjáls, þá vil ég leyfa mér að leggja til, að þetta ákvæði falli niður úr 6. gr.