19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

97. mál, fjáraukalög 1946

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þetta frv. til fjáraukalaga er byggt upp nokkuð á annan veg en undanfarið. Áður hefur umframgreiðsla hverrar fjárveitingar verið sett sérstaklega inn á frv. Hér er breytt til og allar umframgreiðslur fyrir hverja grein fjárlaganna taldar saman. Þetta fyrirkomulag er auðveldara, en á móti því má segja, að það sé erfiðara að kynna sér, hvernig þessum greiðslum er háttað. Hins vegar er því til að svara, að sundurliðun allra slíkra greiðslna kemur fram á landsreikningnum og að honum geta allir haft aðgang. Þá ber að geta þess, að í athugasemdum hefur komið fram, að ríkisbúin séu ekki tekin með, nema þau, sem rekin eru með halla. Þetta er ekki rétt, því að tvö bú, sem eru á fjáraukal., hafa borið sig. Og skv. upplýsingum frá öðrum endurskoðanda reikninganna hefur þessu verið breytt hjá ráðuneytinu og öll búin tekin inn með sína rekstrarfjárhæð án sundurliðunar á því, hvort um taprekstur hafi verið að ræða. Ekki hefur þótt sérstök ástæða til að finna að þessu. Hitt er frekar til að finna að, hversu seint þetta frv. til fjáraukal. er á ferðinni. Það munu nú liðin þrjú ár frá því að umræddar umframgreiðslur fóru fram, þegar frv. er loks lagt fyrir Alþingi. Oft hefur verið kvartað hér á Alþingi undan því sleifarlagi, sem ríkt hefur í afgreiðslu ríkisreikninga og fjáraukalaga, en því miður virðast þær kvartanir lítinn árangur hafa borið. Það virðist ekki réttmæt ástæða fyrir því, að það skuli taka 3 ár að útbúa fjáraukalög til að leggja þau fyrir Alþingi, og eigi að vera hægt að halda uppi réttmætri „kritik“ á þessar umframgreiðslur, þá verður þetta að breytast, því að eftir þrjú ár er alveg gagnslaust að ræða slík mál. Þess ber líka að gæta, að hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er hvorki upp á meira né minna en 95 millj. kr. Nú er það fjarri mér að halda fram, að umframgreiðslur séu ekki nauðsynlegar, og sýnu óhjákvæmilegri eru þær eftir að farið var að nota þál. sem greiðsluheimild úr ríkissjóði, eins og raun ber vitni. Hins vegar hafa þessar umframgreiðslur aukizt mikið ár frá ári, og er það að sumu leyti ekki óeðlilegt, en eigi sú aukning enn eftir að halda áfram, er útlitið ískyggilegt. Það má segja, að það hafi verið vítavert að fara 95 millj. kr. fram úr fjárlögum 1946, en þó er sýnu vítaverðara að fara langt fram úr fjárlögum, þegar greiðslumöguleikar ríkissjóðs eru jafnerfiðir og nú er. Að ég minnist á 1946 í þessu sambandi er ekki vegna þess, að ég sé að hallmæla þeim neitt frekar, sem þá fóru með fjármál, heldur einungis sem dæmi. Um leið og þetta fjáraukalagafrv. er afgreitt hér á Alþingi, vill fjvn. leggja áherzlu á, að breytt verði til batnaðar í fjáraukalagaafgreiðslu og ekki látin líða 3 ár frá því að fjárlagaárið er liðið, þar til fjáraukalagafrv. kemur fyrir Alþingi. Ég held, að eitt ár ætti alveg að nægja til að undirbúa þessi frv., og ætti því að vera vel viðráðanlegt að bæta um í þessu efni.

Um fjáraukalagafrv. sjálft er ekkert sérstakt að segja, utan það, sem stendur í nál. Á einum stað kom fram misræmi í tölum, en við nánari athugun reyndist það prentvilla, og verður hún leiðrétt. Niðurstaða fjvn. er því sú, að hún leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.