20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

43. mál, jarðræktarlög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. N-M. (HÁ) og hv. þm. V-SK. (JG) leyft mér að flytja 3 brtt. við þetta frv. og liggja þær fyrir á þskj. 413. Fyrsta brtt. er við 11. gr. frv. Hún er um það, að styrkurinn, sem veittur er á votheyshlöður samkv. frv., verði hækkaður úr kr. 4.50 og upp í kr. 6.00 á teningsmetra. Ég held, að það geti ekki verið skiptar skoðanir um það, að eitt af því, sem mestu varðar í landbúnaðinum og ríkust þörf er á að kippa í lag, ef verða mætti, er það, hvernig möguleikar séu til að verka hey. Það er gott að hafa stór, slétt og véltæk ræktunarlönd, en það getur verið, að það komi að minna gagni, en til er stofnað, þegar miklir óþurrkar ganga, eins og oft er í stórum hlutum landsins, og heyfengur hrekst að meira eða minna leyti og missir meira og minna af fóðurgildi, áður en hann kemst í hús. Ég held líka, að ekki verði um það deilt, að af þeim aðferðum, sem notaðar hafa verið og flutzt hafa inn til þess að tryggja sæmilega heyverkun, sé votheysgerðin sú aðferð, sem enn sem komið er hefur gefið beztan árangur með viðráðanlegum kostnaði. Hins vegar fer enn fjarri því, að votheysgerð sé orðin svo almenn í sveitum sem æskilegt væri, og ég held, að full ástæða sé til þess af hálfu löggjafans, um leið og þessi nýju. l. eru sett, að láta það koma greinilega fram, að af hálfu þess opinbera væri lögð sérstök áherzla á þessar framkvæmdir, og vildi ég þá mega vænta þess, að það bæri þann árangur, að nokkru almennar væri hafizt handa um það, en hingað til hefur verið. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að fyrir 10 árum eða rúmlega það fór Alþ. inn á þá braut að veita nokkur verðlaun fyrir kartöfluræktun. Sú löggjöf vakti töluvert almenna athygli, og hún bar strax á 1. eða 2. ári, að ég ætla, þann árangur, að í landinu var ræktað meira af kartöflum, en þá þurfti á að halda, þannig að þjóðin framleiddi á því ári nægilega mikið af þessari vöru, sem ekki hafði verið áður. Ég vil minna á, að það er talið, að hér á landi hafi heyjazt undanfarin ár sem næst 2 millj. hestburða á ári, og er þá talið bæði töðufengur og úthey. Þó að ekki sé gert ráð fyrir, að ónýtt verði af fóðurgildi heyjanna nema sem svarar kr. 5.00 á hvern hestburð — og það er ekki mjög í lagt að gera ráð fyrir, að slíkt fóðurgildi ónýtist vegna hraknings á heyjum —, þá er um að ræða hvorki meira né minna en 10 millj. kr. af þessum 2 millj. hestburðum. Það er því ekki lítið verðmæti, sem gera má ráð fyrir, að jafnan fari í súginn, meðan ekki er tryggð sæmilega örugg heyverkunaraðferð. Ég held þess vegna, að þeirri tiltölulega litlu upphæð, sem fara mundi í að hækka styrkinn, mundi áreiðanlega vera vel varið, ef hún yrði til þess, að framkvæmdir í þessu efni yrðu til muna meiri á næstu árum en hefur verið.

Önnur brtt. okkar er við 12. gr. frv. Hún er þess efnis, að á jarðabætur þær, sem taldar eru í 11. og 15. gr., að undanteknum vélgröfnum skurðum, greiðist verðlagsuppbætur þannig, að á jarðabætur, sem taldar eru í I. og VII. lið, greiðist uppbótin samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar í sveitum, en á aðrar jarðabætur samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar. Eins og frv. hljóðar nú, er gert ráð fyrir, að uppbótin á jarðabótastyrkinn greiðist öll samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta virðist ekki alls kostar eðlilegt. Það hefur verið reiknuð út sérstök vísitala byggingarkostnaðar í sveitum, þannig að hún er fyrir hendi, og það virðist miklu eðlilegra að reikna uppbótina eftir henni, þar sem það á við, og það á við um framkvæmdir, sem heyra undir byggingar, eins og t.d. um hvers konar hlöður og um áburðargeymslur, og þær eru samkvæmt okkar brtt. bættar upp samkv. vísitölu byggingarkostnaðar í sveitum. Ég sé enga ástæðu til þess, að þetta sé á annan veg, úr því að þessi byggingarkostnaður hefur verið reiknaður út, og í till. frá búnaðarþinginu ætla ég, að ráð hafi verið fyrir gert, að þessi hluti framkvæmdanna yrði bættur upp samkvæmt þessari vísitölu, en aðrar framkvæmdir, sem uppbætur eru greiddar á, samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar, því að þar verður ekki nánar komizt en sú vísitala segir til um.

Þriðja brtt. okkar er um það, að á eftir 12. gr. frv. komi ný gr., sem þá verður 13. gr., og er hún um það að greiða ekki hærri styrk en sem svarar tilteknu hámarki á hvert býli; í brtt. er gert ráð fyrir 30 þús. kr. Í þeim jarðræktarl., sem nú eru í gildi, eru hámarksákvæði, og skal ég að vísu játa, að þau eru ekki heppileg, eins og nú standa sakir. Sérstaklega eru óheppileg ákvæðin um það, að ekki megi greiða nema tiltekna upphæð á ári út á jarðræktarframkvæmdir, því að síðan farið var að nota stórvirkar vélar til jarðabóta, er miklu hentugra og ódýrara að geta látið vinna sem mest á hverjum stað, og þess vegna á þetta hámarksákvæði ekki rétt á sér lengur. Mér virtist og okkur flm. þessarar brtt., að nokkuð hæpið sé að fella með öllu niður hámarkið á greiðslum, og þess vegna höfum við lagt til, að hámark það, sem nú er í l., verði þrefaldað. Það virðist ekki óeðlilegt, að einhver takmörk séu sett, þannig að ekki sé hægt að nota þennan styrk ríkissjóðs alveg án takmörkunar, hvernig sem á stendur. Hins vegar virðist okkur eðlilegt, að hámarkið sé sett það hátt, að það komi ekki við mjög marga, og við höfum valið þá aðferð að þrefalda upphæðina. Í till. höfum við tekið sams konar ákvæði og áður var í jarðræktarl. um það, að hámarksákvæðið nái ekki til þeirra búa, sem bæjarfélög reka vegna þess, að ókleift er að flytja nauðsynlega neyzlumjólk til bæjarins handa íbúunum, að dómi Búnaðarfélags Íslands.