25.04.1950
Efri deild: 93. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

43. mál, jarðræktarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 570, og er hún í nokkuð mörgum tölul., en þó í rauninni ein till. og ákaflega auðveld í afgreiðslu. Þetta er aðeins till. um breyt. á einu orði, það er orðinu styrkur. En hvers vegna er ástæða til þess að fara að breyta einu orði? Sókrates sagði: „Röng orð skapa rangar hugmyndir.“ Þetta er sígildur sannleikur. Röng orð gefa rangar hugmyndir og rangan skilning og af því leiðir oft og tíðum rangar ályktanir og ranga afstöðu. Hvað ætli sé þá sérstaklega að orðinu styrkur? Orðið styrkur hefur jafnan verið óviðeigandi í þessari löggjöf. Orðið styrkur, eftir málvenju, felur í sér þágu eða hjálp þess, sem vanmáttugur er, og verður þess vegna of mikil ölmusa, þegar um er að ræða framlag til þess að byggja landið, og orðið styrkur hefur magnazt í þessu tilfelli, vegna þess að löggjöfin hefur verið tekin út úr í ýmsum tilfellum meir og meir, þegar skilningur hefur vaxið á því, að meira er um skyldutillög að ræða en ölmusu. Ef maður rennir augunum yfir tryggingalöggjöfina, þá er eftirtektarvert, að búið er að nema svo að segja alveg burt orðið styrkur. Áður var ellistyrkur, nú er ellilífeyrir, áður var örorkustyrkur, nú er örorkulífeyrir og örorkubætur, áður var sjúkrastyrkur, nú eru sjúkrabætur, og ég tel, að þetta sé vel til fallið. Þó er það svo, að enn þá fráleitara er að hafa orðið styrkur um þau tillög, sem þjóðfélagið greiðir vegna þess, að verið er að nema landið, heldur en þegar verið er að veita þeim aðstöðu, sem gamlir eru orðnir og sjúkir. Sá, sem ræktar jörðina og byggir upp landið í sambandi við þá ræktun, hann er ekki eingöngu að vinna fyrir sjálfan sig, heldur fyrir komandi kynslóðir. Þess vegna er það, að þjóðfélagið tekur þátt í hans starfi með fjárframlögum. Ég vonast því eftir því, að þessar brtt. nái fram að ganga, og ég vona, að þær geti átt sinn þátt í því að eyða þeim misskilningi, sem hið ranga orð styrkur hefur valdið í hugum ýmissa manna. Þess verður oft vart í þéttbýlinu, að fólk þar telur, að verið sé að gefa sveitamönnum, sem eru, í rauninni að nema landið, gjafir með þeim framlögum, sem ríkið veitir til ræktunar og uppbyggingar í sveitunum. Þessi hugsunarháttur hefur komið fram vegna þess, að ekki hefur verið valið rétt orð. Það gat verið um ýmis orð að ræða í staðinn fyrir orðið styrkur, menn töluðu um framkvæmdaverðlaun. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það sé of yfirlætislegt orð, a.m.k. í ýmsum tilfellum. Ég tel, að orðið framlag sé mjög hæfilegt, það er yfirlætislaust og gefur rétta merkingu og hefur á ýmsan hátt verið tekið í lög, svo sem í hafnarbótalöggjöfinni. Þá hef ég lagt til, að sums staðar komi ríkisframlag, þar sem nauðsynlegt er að hafa fullt heiti, en annars staðar komi orðið framlag, þar sem betur fer í máli. Vænti ég, að brtt. mínum verði vel tekið.

Hvað snertir brtt. hv. landbn., þá virðast mér þær yfirleitt til bóta, en ég mun taka nánari afstöðu til þeirra, þegar til atkvgr. kemur. Umr. frestað.