18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

33. mál, gengisskráning o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Af því að ég fylgi þessu máli og kem til með að greiða atkv. með því hér í deildinni, og af því að ég fylgi því frá öðrum sjónarmiðum en hér hafa komið fram, — og vil m.a. s. ekki láta bendla mig við sum þeirra —, kvaddi ég mér hér hljóðs. Ég gleðst yfir, að nú skuli loks eiga að stíga það spor að láta þann víxlgang, sem hefur verið á kaupi og vöruverði, hætta. Þetta er höfuðástæðan til þess, að ég fylgi frv. Hins vegar er nú fjárhagur ríkissjóðs þannig, þegar á hann er litið annars vegar og hins vegar á atvinnulífið í landinu, og jafnframt haft í huga, hvað á að gera á komandi ári, þegar á að ráðast í þær mestu framkvæmdir, sem gerðar hafa verið á einu ári í landinu, þá er ekkert vit í að fara upp í 123 stig í útborgun vísitölu á laun, hún átti að vera 115 stig við launagreiðslur. Það var heldur ekkert vit í að binda ekki um leið allt kaupgjald í landinu. Þetta hefur ekki verið gert, og kannske hefur enginn viljað gera það. Þetta hefði þó átt að gera, og meira að segja gera sér von um, að það hefði bjargað atvinnuskilyrðunum í næstu framtíð. En því fylgi ég frv., að það slítur þau tengsl, sem voru milli vísitölu og kaupgjalds, og víxlgangurinn er þar með slitinn; ég fylgi því, þó að ég telji, að það eigi eftir að sýna sig á næstu árum, að það hefði þurft að festa allt kaup, bæði hjá launamönnum og öðrum, til þess að frumvarpið næði fullum tilgangi. Þrátt fyrir það fylgi ég því.