09.01.1951
Neðri deild: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

107. mál, bifreiðalög (viðurlög)

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta er mál, sem þýðingarlaust er um að þræta, hvort það sé minna öryggi, ef 17 ára heldur en 18 ára maður ekur bifreið. En bifreiðaeftirlit ríkisins, sem hefur mikið með málið að gera, segir, að ungir menn séu betri en eldri. — Hv. 5. þm. Reykv. viðurkenndi, að þetta ákvæði ylli óþægindum í sveitum, einkum eftir að jepparnir komu á annan hvern sveitabæ. Erfitt er að hafa önnur ákvæði í sveitunum, og undanþáguákvæði eru ekki til. Unglingar eru sektaðir, þó að þeir geri ekki annað en aka jeppa á vegum innan síns sveitarfélags.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en minnast á ágreining, sem kom fram varðandi frv. sjálft. Ég varð hissa að heyra hv. þm. Ísaf. segja, að nauðsynlegt væri að hafa fangavist, það er nú betrunarhúsvist. Ég álít, að bezt væri að komast hjá þeim refsingum, ef hægt er að koma öðrum refsingum við. Eru önnur refsingarákvæði til, sem eru harðari, þegar um akstur undir áhrifum áfengis er að ræða, og það er að svipta ökumennina réttindum. Tel ég rétt og eðlilegt að beita því. Þess vegna álít ég að þetta frv. eigi fullkominn rétt á sér.