02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

56. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hér er lagt til með þessu frv., að námsbókagjaldið sé hækkað upp í 15 krónur á heimili. Það hefur verið 7 krónur allt frá árinu 1940. Á þessum tíma hafa sem kunnugt er orðið miklar verðhækkanir, enda kemur það fram í reikningum námsbókaútgáfunnar, að hallinn á útgáfunni s.l. ár hefur verið röskar 90 þús. kr. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður hafi ekki sérstök útgjöld vegna þessarar útgáfu og ekki heldur hagnað, en það ber að stefna að því, að útgáfan standi undir sér, en það gerir ekki betur en svo sé með því að ákveða gjaldið 15 krónur. — Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.