23.01.1951
Neðri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt, þótt meiri eða minni umr. fari fram um afgreiðslu ríkisreikninganna, því að afgreiðsla þeirra er skilagrein á því, hvernig sú ríkisstjórn hefur staðið sig, sem með völd hefur farið á því tímabili, sem reikningarnir ná yfir. En sannleikurinn er sá, að þótt við yfirskoðunarmenn höfum gert aths. við ríkisreikn., þá hefur Alþingi alltaf samþ. þá umyrðalaust og látið allar aths. fljóta án þess að gera neitt veður út af þeim. Ég get t.d. nefnt það, að ein ríkisstofnun, útvarpið, hefur í öll þau 11 eða 12 ár, sem við 1. þm. Árn. höfum gegnt þessu starfi, farið fram úr heimild fjárl. um útgjöld, og höfum við gert aths. við það, en Alþingi aldrei tekið þær til greina, og svo er í fleiri tilfellum.

En ég hefði kosið að ræða meir um afgreiðslu ríkisreikn. fyrir árið 1948 en þá, sem hér liggja fyrir, af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að við yfirskoðunarmenn höfum gengið nánar út í ýmis atriði í sambandi við reikningana 1948, — og í öðru lagi vegna þess, að ég á minni þátt í endurskoðun þessara reikninga en vanalega vegna ýmissa ástæðna, t.d. var ég bundinn í ráðherrastarfi, svo að endurskoðunin var aðallega í höndum 1. þm. Árn.

En varðandi þær aths., að við hefðum verið á eftir áætlun, þá vil ég víkja að því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, — að sökin væri engan veginn hjá okkur yfirskoðunarmönnum, og því vildi ég, að hv. 2. þm. Rang. og aðrir, sem halda, að við séum í sök fyrir þetta, vissu, að sökin er ekki okkar. Þvert á móti. Vegna þess að að svo miklu leyti sem segja má, að við höfum brotið, þá er það brot þannig, að við höfum skilað aths., áður en hægt var að búast við. Okkar starf er tvíþætt: Í fyrsta lagi að yfirfara og endurskoða skýrslur hinnar umboðslegu endurskoðunar, og í öðru lagi að krítisera, ef farið er út fyrir hinn markaða ramma fjárlaganna. Nú er það svo með tilliti til þessa, þá ættu skýrslur ráðh. að liggja fyrir, en svo hefur ekki verið, svo að við höfum tekið þann kostinn að skila okkar aths., áður en skýrslur fjmrh. hafa legið frammi. Og af því að hv. 2. þm. Rang. gerði mikið úr þessu atriði, vil ég segja það, að það er hárrétt, sem hann sagði, að við vorum ekki búnir að fá skýrslur fyrir 60 ríkisstofnanir, þegar við skiluðum aths. okkar við ríkisreikningana fyrir árið 4948. Ég vil benda á, að hér er ekki um neitt smáatriði að ræða, því að um 200 stofnanir heyra undir okkur, og fjmrh. er alltaf á eftir áætlun með sínar skýrslur. Þess vegna er það svo, að þetta er alltaf nokkuð á eftir áætlun, og ef við ættum að bíða með að endurskoða allar stofnanirnar til fullnustu, þá væri afgreiðslu ríkisreikninganna fyrir árið 1948 ekki lokið enn þá.

Endurskoðunardeild ráðuneytisins skilar skýrslum sínum til yfirskoðunarmanna, en hún er alltaf á eftir áætlun, og í þetta sinn er það gert í samræmi við óskir ríkisstj., að við skilum okkar aths., þótt endurskoðunardeild ráðuneytisins hafi ekki lokið sínu hlutverki hvað þetta snertir. Ég vænti þess því, að það verði ekki talin okkar sök, að reikningarnir eru svo seint tilbúnir.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um ósamræmið í starfi okkar varðandi reikninginn fyrir árið 1947, ætla ég ekki að segja margt, því að hv. 1. þm. Árn. hefur svarað því að mestu. En mér finnst ekkert undarlegt, þótt ókunnugum finnist gæta ósamræmis þar, vegna þess að við verðum að fá allar okkar upplýsingar frá ráðuneytinu og ríkisbókhaldinu, og til þess geta legið ýmsar orsakir, að við gerum ekki aths. við þetta eða hitt, t.d. um borgaðar ábyrgðir ríkissjóðs. Og það er engin ástæða til þess að ásaka ríkisstj. fyrir það að hafa ekki borgað þessar ábyrgðir.

Sama máli gegnir t.d. um atvinnudeildina. Það er stofnun, sem okkur hefur virzt, að hafi ekki annað því hlutverki, sem efni standa til, og þess vegna höfum við gert okkar aths. þar að lútandi, og viðvíkjandi stofnuninni að Úlfarsá, þá er sett of mikið fé til hennar, en að því er atvinnudeildina snertir, þá hefur verið lítilli yfirstjórn fyrir að fara þar undanfarin ár, en ég lét bæta úr því í minni ráðherratíð og skipaði þar yfirmann sem ágætlega hefur verið starfi sínu vaxinn. (BÁ: Ég skipaði þennan mann. )

Varðandi það, sem hæstv. fjmrh. sagði, þá talaði hann um það m.a., að yfirskoðunarmenn hefðu dregið sitt starf á langinn. En hann játaði hins vegar, að reikningarnir hefðu verið of seint tilbúnir. En það er nú ekki rétt, að yfirskoðunarmenn hafi dregið starf sitt fram yfir það, sem ástæða var til, heldur skiluðu þeir aths. sínum jafnvel áður en efni stóðu til.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N-M. spurðist fyrir um ýmis atriði, þá getur ýmislegt af þessu auðvitað orkað tvímælis, eins og t.d. hvort setja eigi bifreiðaútgjöld stjórnarráðsins á 19. gr. eða 10. gr., en þar eru sett öll rekstrargjöld stjórnarráðsins. En það hefur að vísu ekki neina praktiska þýðingu. — Svo er það viðvíkjandi prófdómarakostnaðinum. Þetta er ekki venjulegur prófdómarakostnaður, heldur kostnaður við prófdóma, sem sérstaklega eru keyptir aukalega. — Um kostnaðinn við skattdómaraembættið er það að segja, að hann er þarna færður inn sérstaklega, og um reikningsúrskurðinn er það að segja, að það er enginn reikningsúrskurður ákveðinn af fjmrh. til hækkunar nema hann sé færður á 19. gr., og er það mjög eðlilegt.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða þetta að öðru leyti, en vil aðeins víkja að okkar aðalstarfi. En það er í 1. lagi fólgið í því að yfirfara og endurskoða skýrslur hinnar umboðslegu endurskoðunar, og í 2. lagi að gera aths., ef ríkisstj. fer út fyrir hinn markaða ramma fjárlaganna. Og ég vil benda á það, að okkur mundi ekki endast allt árið um kring, ef um tölulega endurskoðun væri að ræða í sambandi við starf okkar, og sökin er ekki hjá okkur, þótt ekki sé búið að endurskoða þessar 60 ríkisstofnanir.