08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. form. og frsm. fjhn. (BSt) er veikur, og hef ég lofað að taka þessa framsögu til að tefja ekki málið.

Nefndin hefur, eins og venja er til, athugað frv. og borið það tölulega saman við ríkisreikninginn fyrir árið 1947, og ekkert fundið við það að athuga. En nefndin hefur einnig athugað athugasemdir yfirskoðunarmanna, svör ráðuneytanna við þeim og tillögur yfirskoðunarmanna að fengnum svörum ráðuneytanna, og í sambandi við það vill nefndin gjarnan fá upplýst hjá hæstv. fjmrh., hvort nokkuð hefur verið gert í þessu máli síðan.

Það hefur verið venja frá ári til árs, að sú aðferð hefur verið höfð hjá yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, að þeir senda sínar aths. til ríkisstj., ráðuneytið sendir sín svör við aths., síðan gera endurskoðendurnir aths. við þau svör og senda þær aths. annaðhvort til Alþingis — en því er reyndar löngu hætt, vegna þess að það hefur upplýstst, að það er þýðingarlaust, þetta mál er aldrei tekið til meðferðar þar, — eða þeir gera aths. um, að þetta sé til „athugunar“ eða „eftirbreytni framvegis“. Nú vil ég fyrir hönd fjhn. Ed. bera fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðh. út af þessu máli.

Hér er fyrst aths. um eftirstöðvar hjá hinum ýmsu innheimtumönnum. Svör ráðh. eru m.a. að torveldara sé orðið um innheimtu á tekjum ríkissjóðs. Yfirskoðunarmenn gera svo sína till.: „Nauðsyn ber til, að verið sé vel á verði um innheimtuna, og er málið því til athugunar framvegis.“ Út af þessu vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hafa nokkrar sérstakar ráðstafanir verið gerðar til að fyrirbyggja, að slíkar aths. komi á hverjum landsreikningi? Þetta er aths., sem orðið er föst venja að setja á hvern landsreikning, án þess að nokkur breyt. verði á því.

Önnur aths. hljóðar svo: „Yfirskoðunarmenn álíta, að unnt verði að komast af með minni kostnað við póstþjónustuna og telja, að athuga beri um starfsemi hennar. Er aths. því til athugunar framvegis.“ Svar ríkisstj. er þannig, að þar er birt svar póststjórnarinnar einnar, en ekkert kemur fram um, hvert er álit ríkisstj. sjálfrar á málinu, og það segir aðeins í svari póststjórnarinnar, að hún álíti, að svona þurfi þetta að vera. Það hafa komið aths. frá fjvn. um, að áætlunin hafi ekki staðizt fyrir þessa stofnun. Þegar nú ekki koma önnur svör frá ráðuneytinu en þau, sem stofnunin sjálf gefur, langar mig til að spyrja hæstv. ráðh.: Hafa ráðstafanir verið gerðar til þess að yfirskoðunarmenn landsreikninganna þurfi ekki að gera þessa sömu aths. ár eftir ár?

3. og 4. aths. er eitt af því, sem yfirskoðunarmennirnir telja „til athugunar framvegis“. Í 3. aths. segir, „að samkvæmt reikningi raforkumálastjóra skulda jarðboranir í árslok 1947 kr. 400.670,68. Árið 1946 námu skuldirnar kr. 277.869,18 og árið 1945 voru þær kr. 84.011,68. Í árslok 1947 nema þessar skuldir samtals kr. 762.551,54. Þar sem hér er bundið allmikið fé raforkumálasjóðs, ber nauðsyn til þess, að alvarleg gangskör verði gerð að innheimtu þessa fjár.“ (Fjmrh.: Þetta er það, sem jarðboranirnar eiga útistandandi, en eru ekki skuldir.) Þessu svarar svo ráðuneytið, að allt kapp sé lagt á að innheimta þetta fé o.s.frv., og yfirskoðunarmenn telja það „til athugunar framvegis“. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort þessu hafi verið kippt í lag.

Í sambandi við þetta atriði vil ég benda á, að í reikningi raforkusjóðs er innstæða hjá skrifstofu raforkumálastjóra talin kr. 13.846.150,22, og það, sem mér þykir enn einkennilegra, er, að á landsreikningnum árið 1948 er þessi upphæð orðin kr. 15.944.515,66. Ég hef ekki getað fengið þetta upplýst, og mér finnst einkennilegt, að þetta skuli vera fært þannig á landsreikninginn, að hjá skrifstofu raforkumálastjóra séu nærri 16 millj. kr. Ef við lítum t.d. á reikning fiskimálasjóðs, sést, að þar eru peningar í sjóði, og þetta er eini sjóðurinn, sem færður er þannig upp, að innstæða sé hjá skrifstofunni. Það ætti að sundurliða, hvar fé þetta er.

Um 5. aths. er ágreiningur milli yfirskoðunarmanna og ráðuneytisins. Hjá yfirskoðunarmönnum segir: „Á RR er raforkumálasjóðurinn talinn kr. 14.670.350,02, en á reikningi raforkumálastjóra er sjóðurinn talinn kr. 16.170.350,02, eða 1.500.000 kr. hærri. Þessi mismunur mun stafa af því, að raforkumálastjóri telur, að sjóðurinn eigi hjá ríkissjóði 1,5 millj. kr. frá árinu 1946. Það ár var veitt á fjárlögum kr. 500 þús. Raforkulögin, er öðluðust gildi 2. apríl 1946, ákveða árlegt framlag til sjóðsins 2 millj. kr., og mun raforkumálastjóri telja, að ríkinu beri að greiða sjóðnum þessa upphæð ....“ Þessu svarar svo hæstv. ráðuneyti: „Í fjárlögum fyrir árið 1946 voru raforkumálasjóði ákveðnar 500 þús. kr. Ráðuneytið taldi sér ekki heimilt að greiða sjóðnum hærri upphæð en Alþingi veitti.“ Yfirskoðunarmenn álita, að raforkumálasjóði beri eigi að síður þessar 1.500.000 kr., og er því aths. „til eftirbreytni“. Nú vildi ég spyrja, hvernig hefur verið farið með þetta atriði, hvort raforkumálasjóður á þetta fé, eins og yfirskoðunarmenn álíta, eða ríkissjóður, eins og ráðuneytið virðist álíta.

7. aths. hljóðar svo: „Samkvæmt rekstrarreikningi útvarpsins nema laun starfsmanna samtals kr. 1.438.455,57. Fyrir útvarpsefni er greitt kr. 564.368,04, skrifstofukostnaður kr. 304.953,06, eða samtals kr. 2.307.776,67 ...“ Svo spyrja endurskoðunarmenn: „Er ekki hægt að draga verulega úr þessum gífurlega kostnaði?“ Svar ráðuneytisins byrjar þannig: „Útvarpsstjóri svarar þessari aths. á þessa leið:“ — og síðan kemur ekkert svar annað en svar útvarpsstjóra. Hér virðist forráðamaður stofnunarinnar sem sé einráður um, hve miklu fé hann sóar fram yfir það, sem ákveðið er í fjárlögum. Tillögur yfirskoðunarmanna eru svo: „Yfirskoðunarmenn telja, að það beri að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr kostnaði við rekstur útvarpsins. Athugasemdin er því til athugunar framvegis.“ — Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hefur þetta verið gert? Hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að draga úr þessum kostnaði? Er útvarpsstjóri sjálfráður um, hve miklu fé hann sóar eftirlitslaust? Það hefur verið gagnrýnt og margítrekað í sambandi við fjárlögin, að ekki þætti ástæða til, að sú stofnun sói fé ríkissjóðs eftirlitslaust, og það kemur í ljós, að yfirskoðunarmenn landsreikninganna eru á sama máli.

Svo koma aths. 8–11. Þar segja yfirskoðunarmenn í till. sínum: „Með svarinu eru gefnar ýmsar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins, og er að sjá, að viðleitni hafi verið sýnd til umbóta. Er þess að vænta, að þeirri viðleitni verði haldið áfram, og er athugasemdin til athugunar framvegis.“ Þetta á við stofnanir landssmiðjunnar. Það mun hafa verið eftir að þessi aths. kom fram, sem skipt var um forstjóra fyrirtækisins, svo að aths. hefur sennilega verið tekin til greina af ríkisstj., en þetta er ein af þeim aths., sem ég taldi mér skylt að benda á.

Í sambandi við 12. aths. segja yfirskoðunarmenn: „Yfirskoðunarmenn telja þessa ráðstöfun ekki rétta, en eftir atvikum verður við svo búið að standa.“ Mér þykir dálítið einkennilegt, að þeir segja, að við svo búið verði að standa. Hafi ekki verið rétt að afhenda Svifflugfélagi Íslands bifreiðina R 480, þá á sannarlega ekki við svo búið að standa.

Í sambandi við nr. 18 segir: „Upplýst með svarinu. En gera verður ráðstöfun til þess, að fiskimálasjóður telji ekki á efnahagsreikningi sínum, að hann eigi þetta fé hjá ríkissjóði. Er athugasemdin til athugunar framvegis.“ En aths. nr. 18 er á þessa leið: „Samkvæmt efnahagsreikningi fiskimálasjóðs telur sjóðurinn sig eiga hjá ríkissjóði kr. 279.741,96 vegna leiguskipa 1945. Á RR er upphæðin ekki talin. Rétt virðist, að þessi viðskipti milli ríkissjóðs og fiskimálasjóðs verði gerð endanlega upp.“ Ríkisstj. hefur svarað þessu þannig: „Ráðuneytið telur, að viðskipti þessi séu að fullu uppgerð, og beri fiskimálasjóði ekki að telja fjárhæðina sér til eignar í efnahagsreikningi.

Sjútvmrn. er á sömu skoðun og fjmrh. í þessu efni.“ — Því vil ég spyrja: Er þetta mál gert upp milli þessara tveggja aðila? Það er ekki svo að sjá, enda segir svo í aths.: „til eftirbreytni framvegis“.

Ég hef drepið hér á nokkur atriði í sambandi við ríkisreikninginn og flutt þessar fyrirspurnir í nafni hv. frsm. fjhn., sem væntir þess, að tekið verði fullt tillit til aths. yfirskoðenda ríkisreikninganna, að öðrum kosti væri sú endurskoðun óþörf og væri þá bezt að leggja hana niður og spara ríkinu þann kostnað, sem endurskoðunin hefur í för með sér. Það er ófært að sjá þessar aths. ganga aftur á hverju einasta ári án þess að fá nokkrar upplýsingar í sambandi við þær eða Alþ. sjái nokkra ástæðu til að taka þessi mál upp og fá þeim komið í rétt horf.

Að öðru leyti leggur nefndin til, að ríkisreikningarnir séu samþ. tölulega, eins og nál. ber með sér, en hún vildi koma þessum aths. á framfæri.